Útrásin, útflutningur og fjárfestingar erlendis

- Útdráttur úr erindi Róberts Wessman forstjóra Delta á Iðnþingi 2003 -

Pharmaco hf. varð til við sameiningu lyfjafyrirtækjanna Delta og Pharmaco í september árið 2002 undir nafni Pharmaco. Frá árinu 2001 hafa bæði fyrirtækin fjárfest í fjölda fyrirtækja bæði innanlands og utan. Pharmaco hf. er nú eitt verðmætasta félagið Kauphöll Íslands og áætlað verðmæti þess er um 45 milljarðar króna. Það er því vel í stakk búið til að takast á við erlenda samkeppni.

Róbert Wessman forstjóri Delta á Iðnþingi 2003Pharmaco hf. varð til við sameiningu lyfjafyrirtækjanna Delta og Pharmaco í september árið 2002 undir nafni Pharmaco. Frá árinu 2001 hafa bæði fyrirtækin fjárfest í fjölda fyrirtækja bæði innanlands og utan. Pharmaco hf. er nú eitt verðmætasta félagið Kauphöll Íslands og áætlað verðmæti þess er um 45 milljarðar króna. Það er því vel í stakk búið til að takast á við erlenda samkeppni.

„Pharmaco var stofnað árið 1956 en hóf framleiðslu á lyfjum fjórum árum síðar. Það starfaði í fyrstu aðeins á heimamarkaði en árið 1972 gerðist það umboðsaðili fyrir nokkur þekkt erlend lyfjafyrirtæki. Pharmaco var sameinað Balkanpharma í Búlgaríu árið 2000. Þar varð mikil uppbygging og ný verksmiðja opnuð árið 2002.

Delta var stofnað árið 1981 en hóf starfsemi sína í Hafnarfirði árið 1983. Delta hóf útflutning árið 1989 þar eð heimamarkaður þótti of lítill til að skila fullnægjandi arði. Ný verksmiðja var reist í Hafnarfirði árið 1998. Starfsmenn eru um 350 og Delta er nú stærsta lyfjafyrirtæki á Íslandi og hefur um 17% markaðshlutdeild.

Samanlögð velta Pharmaco og Delta er áætluð um 24.6 milljarðar króna á síðasta ári. Starfsemi félagsins er í 14 löndum og starfsmenn um 7.400 talsins.

Markmið Pharmaco er að vera alþjóðlegt fyrirtæki í þróun og sölu samheitalyfja á alþjóðlegum markaði. Aðalstjórnendur eru tveir en verkaskiptingin skýr. Róbert Wessman ber ábyrgð á rekstri Pharmaco samstæðunnar en Sindri Sindrason skoðar kaup á fyrirtækjum sem geta hentað Pharmaco. Í þeim efnum hafa m.a. verið skoðuð fyrirtæki í Svíþjóð, Póllandi og víðar.

Keppinautar Pharmaco á samkeppnismarkaði eru víða um heim, smáir sem stórir. Mikilvægt er að vera fyrstur á markað og vanda til þróunarvinnunnar. Aðalatriðið er að vera tilbúinn á markað þegar einkaleyfi renna út. Það er hægt á Íslandi, Möltu og annars staðar þar sem framleiðendur frumlyfja hafa ekki sótt um einkaleyfi en lengi vel hafa þeir ekki hugað að skráningu á litlum markaðssvæðum og Delta og Pharmaco hafa fært sér það í nyt.

Fyrir fimm árum var samanlagt verðmæti fyrirtækjanna tveggja um 5 milljarðar króna en er nú 45 milljarðar. Gengi bréfa Pharmaco hefur hækkað úr 13,6 í 75 frá árinu 1999. Innri vöxtur Pharmaco samstæðunnar ræðst einkum af fjórum þáttum, framleiðslugetu, fjölda nýrra lyfja á markað og þróun þeirra, öflugri sölustarfsemi og hæfileikaríku starfsfólki. Þessir þættir skipta sköpum um framtíðararðsemi fyrirtækisins. Heildarframleiðslugeta Pharmaco samstæðunnar er alls um 14 milljarðar taflna, þar af eru 10 milljarðar framleiddar í Búlgaríu en 1,1 milljarður hér á landi.

Megináherslan í starfsemi Pharmaco um þessar mundir er þróun samheitalyfja og sala þeirra. Þekking á þróunar- og gæðamálum er hér á landi en framleiðslugetan mest erlendis. Þróunarsvið samstæðunnar sér til þess að jafnan sé lokið við þróun á 11-13 lyfjum á ári. Þróunareiningin á Íslandi þróar 7-9 lyf á ári og stefnt er að því að 25 ný lyf verði komin á markað til ársloka 2005. Ætlunin er að verksmiðjan á Íslandi verði notuð í auknum mæli til að þróa samheitalyf og afgreiða pantanir eftir að einkaleyfin renna út á erlendum mörkuðum.

Vörur eru bæði seldar undir eigin merkjum sem eru nokkur og merkjum viðskiptavina víða um heim, s.s. í Danmörku, Þýskalandi, Rússlandi, Litháen, Búlgaríu, Möltu og Ástralíu. Þá er stefnir fyrirtækið að því að fikra sig inn á Bandaríkjamarkað og lönd á Arabíuskaga. Mest er selt til Búlgaríu og Þýskalands eða um 20% framleiðslunnar í hvoru landi.

Pharmaco samstæðan hyggst sækja inn á nýja markaði og þróa virk efni fyrir Evrópumarkað. Þá er ætlunin að opna nýjar söluskrifstofur á Norðurlöndum og í Mið-Evrópu. Stefnt er að því að vinna frekar að samþættingu samstæðunnar, s.s. í rekstrar-, sölu-, markaðs- og gæðamálum og að innri vöxtur verði að jafnaði 15-20% á ári næstu þrjú ár.

Í stuttu máli sagt er Pharmaco nú eitt stærsta félagið í Kauphöll Íslands. Vöxturinn er hraður og arðsemin góð. Þróunarstarfið er öflugt og sölustarfsemi fer fram í 13 löndum. Mikil framleiðslugeta styður vel við framtíðarvöxt fyrirtækisins. Starfsfólkið er hæfileikaríkt og vinnur eftir vel skilgreindri stefnu og framtíðarsýn. Félagið er því vel undir erlenda samkeppni búið.“

Glærur Róberts á PDF sniði