Ályktun Iðnþings 2005

Ályktun Iðnþings 2005 liggur nú fyrir

Stöðugleika þarf til að samkeppnis- og útflutningsgreinar þrífist. Hann er frumforsenda þess að unnt sé að byggja upp iðnað á Íslandi. Það er óviðunandi og stórskaðlegt að hann raskist í hvert sinn sem hagvöxtur eykst. Hátt gengi krónunnar, óhóflegur vaxtamunur, sífelld útþensla í ríkisrekstrinum og mjög hátt raungengi um þessar mundir valda því að framleiðslu- og þjónustufyrirtæki leggja upp laupana eða fara úr landi í stórum stíl. Áður fyrr tengdust hagvaxtarskeið jafnan auknum afla eða hækkandi afurðaverði en nú hin síðari ár stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Þótt orsakirnar séu nú aðrar eru afleiðingarnar þær sömu.

Nágrannaþjóðir okkar búa í haginn fyrir atvinnulíf sitt með stöðugum gjaldmiðli, aukinni áherslu á hátækniiðnað, menntun og rannsóknir. Haldbesta leiðin til að auka hér kaupmátt og velmegun í framtíðinni er að feta sömu slóð.

Það er alls ekki sjálfgefið að hér vaxi upp kröftugur og þróttmikill iðnaður sem byggist á hátækni. Til þess þarf samstillt átak um efnahagslegan stöðugleika, gott menntakerfi, rannsókna- og þróunarstarf og loks þarf að efla fjárfesta á borð við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins svo þeir geti fjárfest í vænlegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum með þolinmóðu fjármagni. Vissulega hefur mikið áunnist en við eigum að setja markið hátt og stefna að því að á hverju ári nái að minnsta kosti tvö hátæknifyrirtæki því marki að velta yfir einum milljarði króna.


Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.