• Vilmundur Jósefsson formaður SI

Ræða Vilmundar Jósefssonar formanns SI

Á Iðnþingi 18. mars 2005

„Þetta 12. Iðnþing Samtaka iðnaðarins er helgað umfjöllun um fyrirtæki sem byggja í ríkum mæli á hugviti og hátækni. Horft er til þess hvaða þýðingu þau hafa fyrir efnahagslífið, hvaða skilyrði þarf til þess að fjölga þeim og tryggja vaxtarskilyrði þeirra.“

Horft til framtíðar

Þetta 12. Iðnþing Samtaka iðnaðarins er helgað umfjöllun um fyrirtæki sem byggja í ríkum mæli á hugviti og hátækni. Horft er til þess hvaða þýðingu þau hafa fyrir efnahagslífið, hvaða skilyrði þarf til þess að fjölga þeim og tryggja vaxtarskilyrði þeirra. Í þessum ræðustól fyrir ári gerði ég meðal annars að umtalsefni þau stakkaskipti sem orðið hafa í atvinnulífinu á síðasta áratug og sagði að nauðsyn bæri til að breyta hugsunarhætti þjóðarinnar til samræmis við þá þróun. Iðnaðurinn hefur sótt á, en landbúnaður, fiskveiðar og fiskvinnsla látið undan síga hlutfallslega. Árið 2003 var tæpur fjórðungur af verðmætasköpun Íslendinga í iðnaði.

Hátæknin sækir fram

Hátæknigreinar eins og upplýsingatækni, framleiðsla lyfja, lækningatækja og sérhæfðs vélbúnaðar standa undir tæpum 4% af landsframleiðslunni. Þessar greinar voru vart merkjanlegar í hagtölum fyrir rúmum áratug. Þetta er mikil breyting því að hér er verið að tala um hlutdeild í heildarverðmætasköpuninni en aðrar greinar hafa líka sótt fram, sérstaklega margvíslegar þjónustugreinar.

Iðnaður aflar tæplega fjórðungs gjaldeyristekna þjóðarbúsins og hefur sú hlutdeild tvöfaldast frá gildistöku EES samningsins, úr 12% árið 1994 í 24% árið 2004. Helming aukningarinnar má rekja til útflutnings hátæknigreina iðnaðarins sem var hverfandi lítill fyrir rúmum áratug en er nú rúm 7%. Þetta er langmerkilegasta breytingin sem orðið hefur á útflutningi Íslendinga hin síðari ár. Gjaldeyristekjur hátæknigreina hafa stóraukist og svara nú til helmings tekna af álútflutningi.

Tvær leiðir

Samtök iðnaðarins hafa bent á mikilvægi hátækniframleiðslu en fyrirtæki, sem samnýta menntun og tækni, eiga meiri möguleika en önnur í samkeppni á hinum gríðarstóra alþjóðamarkaði.  Haldbesta leiðin til að skapa fleiri hátekjustörf í framtíðinni er að efla hátæknigreinar og auka efnahagslegan stöðugleika með fjölbreyttari undirstöðum efnahagslífsins. Nágrannaþjóðir okkar eru að ná þessum markmiðum með stöðugum gjaldmiðli, aukinni áherslu sem lögð er á hátækniiðnað, menntun og auknar rannsóknir.  Við eigum um tvær leiðir að velja:  Annars vegar að keppa við láglaunasvæði í frumframleiðslu og hefðbundnum lágtækniiðnaði eða  fylgja fordæmi þeirra ríkja sem mestum árangri hafa náð.  Það á ekki að vefjast fyrir okkur hvora leiðina við eigum að feta.

Störf í iðnaði voru tæp 24% af öllum störfum í landinu árið 2003. Merkilegt er að hlutfall starfa í hátæknigreinum iðnaðar mælist yfir 3% árið 2003 þrátt fyrir mikla fækkun starfa í upplýsingatækni í síðustu niðursveiflu. Flestir í iðnaði starfa við mannvirkjagerð og almennan iðnað. Störf í ál- og kísiljárnframleiðslu eru innan við 1% af öllum störfum en þó er fyrirséð að þeim mun fjölga talsvert á komandi árum vegna stóraukinnar framleiðslugetu í greininni.

Efling menntunar

Tryggja þarf nægt framboð starfsfólks með verk-, tækni-, raungreina- og viðskiptamenntun til að mæta kröfum nútímarekstrar og framleiðslu. Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Verslunarráð Íslands og menntamálaráðherra undirrituðu í október viljayfirlýsingu  um stofnun einkahlutafélags sem tekur yfir starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Með þessum atburði urðu kaflaskipti í áralangri baráttu Samtaka iðnaðarins fyrir því að gera THÍ kleift að þjóna iðnaðinum með meiri og fjölbreyttari verk- og tæknimenntun.

Samtök iðnaðarins binda margs konar vonir við nýjan sameinaðan háskóla.  Má í því sambandi nefna að lögð verður aukin áhersla á verkfræði og tæknifræði og að kennaramenntun verði í samræmi við þarfir atvinnulífsins, m.a. með aukinni áherslu á vinnustaðakennslu.  Þess er vænst að hinn nýi háskóli verði fjölbreytt menntastofnun og að byggt verði upp náið samstarf við fræðslu- og rannsókna­stofnanir iðnaðarins.

Fjölbreytt samtök

Breytingarnar í atvinnulífinu eru hraðar  en verða að vera enn hraðari ef við eigum að halda góðri stöðu okkar hvað varðar lífskjör miðað við aðrar þjóðir. Hjá Samtökum iðnaðarins förum við ekki varhluta af þessari þróun hvað varðar félagsmenn  og viðfangsefni. Helstu upplýsingatæknifyrirtæki landsins ákváðu fyrir nokkrum árum að hasla sér völl innan Samtaka iðnaðarins og stofnuðu Samtök upplýsingatæknifyrirtækja. Á síðasta ári bættust tvenn ný samtök í  raðir okkar í kjölfar viðamikillar stefnumótunarvinnu sem við stóðum fyrir með stórum hópi fyrirtækja. Fyrst voru stofnuð Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja og strax í kjölfarið Samtök sprotafyrirtækja.

Auðvitað hafa fjölmörg fyrirtæki, sem byggjast á hugviti og hátækni, verið í röðum Samtaka iðnaðarins um árabil, þar á meðal sannkölluð flaggskip í á sínu sviði á heimsvísu. Slíkum fyrirtækjum verðum við að fjölga. Til þess að svo megi verða  þurfa margir að leggja hönd á plóginn og þar munu Samtök iðnaðarins ekki láta sitt eftir liggja. Í dag leggjum við fram til kynningar drög að viðamikilli skýrslu  sem við stöndum að ásamt iðnaðarráðuneytinu.

Hátækniskýrsla

Á kápu árskýrslu okkar  að þessu sinni er mynd af heilabúi sem vísar  til þess krafts sem í huganum býr en mannauður er ein helsta forsenda þess að unnt sé að byggja upp hátækniiðnað. Sama mynd prýðir forsíðu skýrslunnar um þróun stöðu og tækifæri hátækniiðnaðar á Íslandi. Mér er óhætt að fullyrða að þar eru dregnar saman staðreyndir og varpað fram spám um framtíðina sem eru mjög forvitnilegar. Tilgangur okkar með skýrslugerðinni er að sýna fram á hve mikið er í húfi fyrir Íslendinga að búa vel að þessum greinum og þeim sprotum sem við eigum. Þórólfur Árnason, fyrrverandi borgarstjóri, mun kynna skýrsluna sérstaklega hér á eftir og hvað má helst úr henni lesa.

Þriðja stoðin

Þriðja stoðin var heiti á ráðstefnu sem Samtök iðnaðarins efndu til í samvinnu við Samtök upplýsingatæknifyrirtækja og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Heitið vísar til metnaðarfullra áforma um að gera upplýsingatæknina að einni af burðarstoðum atvinnulífsins. Á síðustu 10 árum hefur útflutningsverðmæti upplýsingatækni tífaldast og er um fjórir milljarðar króna. Enn vilja menn bæta við og vilja sama vöxt næstu 10 ár. Þá yrðu útflutningstekjurnar orðnar 40 milljarðar króna árið 2014. Til samanburðar má nefna að í fyrra fluttum við út sjávarafurðir fyrir um 120 milljarða króna.

Formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, Ingvar Kristinsson, boðaði á fyrr nefndri ráðstefnu að í dag yrði lagt fram tilboð til stjórnvalda til að ná þessu marki. Hann mun standa við orð sín og afhenda iðnaðarráðherra tilboðið hér á eftir.

Sprotaþing

Fyrir réttum mánuði stóðu Samtök iðnaðarins  fyrir Sprotaþingi í húsakynnum Marels með Samtökum sprotafyrirtækja og allmörgum stuðningsaðilum. Þar var húsfylli. Þingið var stutt, snarpt og vinnusamt. Ekki verður það sagt um öll þing sem ég þekki til. Það var gaman að sjá svo fjölbreyttan hóp karla og kvenna úr fyrirtækjum, frá fjárfestum, af Alþingi, úr háskólum, stofnunum og frá fjölmiðlum ræða af kappi framtíð og forsendur sprotafyrirtækja.

Jón Ágúst Þorsteinsson, formaður Samtaka sprotafyrirtækja, gerði í upphafi þingsins grein fyrir stefnumótun og framtíðarsýn þeirra. Kjarnann í henni má ef til vill draga saman í eina stutta setningu: Jarðvegur og vaxtarskilyrði fyrir sprotafyrirtæki verða þannig á næstu árum að frá og með árinu 2011 nái að minnsta kosti tvö sprotafyrirtæki þeirri stærð að velta 12 milljónum evra eða einum milljarði króna. Þetta gerist hins vegar ekki af sjálfu sér. Til  að þau áform verði að veruleika þarf marga samverkandi þætti og þeir voru  einmitt ræddir ítarlega á Sprotaþinginu. Því er ákaflega mikilvægt að vinda bráðan bug að því að vinna úr þeim hugmyndum og taka höndum saman um að hrinda þeim í framkvæmd svo fljótt sem verða má.

Róum öllum árum

Í mínum huga er ekkert vafamál að við eigum að taka fullt mark á þeim Jóni Ágústi og Ingvari. Það er vel hægt að ná þessum markmiðum. Þau eru ekki óraunhæf ef vel og skipulega er að verki staðið og öllum árum róið að settu marki. Það þarf að ná samkomulagi, þjóðarsátt, um að búa svo um hnúta að hátæknifyrirtæki geti vaxið hér og dafnað. Við höfum fyrir augum dæmi um að okkur Íslendingum er ekkert að vanbúnaði að skipa okkur í fremstu röð á mörgum sviðum í krafti menntunar, rannsókna og þróunar, hugvits og djörfungar.

Peningar og þolinmæði

Veigamikill þáttur í að  ná settu marki er að tryggja að sem flest fyrirtæki komist á legg og takist að vaxa og dafna. Skortur er á fjármagni til sprota- og nýsköpunarfjárfestinga. Um það eru flestir sammála og sömuleiðis að næga þolinmæði og úthald vanti og því er oft gefist upp á miðri leið. Þetta vill  brenna við bæði hjá fjárfestum og hinu opinbera þegar  mótun umhverfis nýsköpunar í landinu á í hlut. Horfast verður í augu við að það getur tekið sprotafyrirtæki 10-20 ár að ná verulegu flugi eins og mörg dæmi sanna.

Tryggja þarf samhengi í fjárfestingarferlinu og taka tillit til þess að stigin eru mismunandi. Helst þarf keðju  sérhæfðra sjóða sem er ætlaður tiltekinn líftími.  Veikasti hlekkur keðjunnar er í frumfjárfestingunum. Þar sárvantar fjármagn og   Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur t.d. ekki haft fé til nýfjárfestinga undanfarin tvö ár.

Við þessu á að sjálfsögðu að bregðast með því að efla sjóðinn og þar hefur ríkið veigamiklu hlutverki að gegna vegna þess að fjárfestar á markaði ráða ekki við nauðsynlegar en áhættusamar nýsköpunar- og sprotafjárfestingar. Þar er með öðrum orðum markaðsbrestur. Þetta er viðurkennt í öllum samkeppnis­löndum okkar. Þar hefur ríkisvaldið dregið sig út úr almennri fjármálastarfsemi en kemur að framtaksfjárfestingum með myndarlegum hætti.

Vísinda- og tækniráð tekur undir

Undir þessi sjónarmið tók Vísinda- og tækniráð á fundi sínum 17. desember 2004. Í ályktun ráðsins segir m.a: “Nýsköpun atvinnulífsins hefur liðið fyrir skort á áhættufjármagni til sprotafyrirtækja sem vilja nýta nýja þekkingu og hugmyndir. Iðulega eru sprotafyrirtæki vart komin á rekstrarlega trygga braut fyrr en eftir tíu til tólf ár. Það er almennt lengri tími en fjárfestar telja ásættanlegan. Þetta hefur leitt til þess að fjárfestar hafa lítt sinnt þörfum íslenskra sprotafyrirtækja fyrir áhættufé. Fjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu verður að vera samfellt svo að atvinnulíf þjóðarinnar endurnýist með eðlilegum hætti. Vísinda- og tækniráð beinir því til iðnaðarráðherra að láta kanna leiðir til að auka fjárfestingarfé Nýsköpunarsjóðs.”

Mjög brýnt er að stjórnvöld bregðist við þessu ákalli ráðsins hið fyrsta.

Efnahagsleg umgjörð skiptir sköpum

Stöðugleiki er frumforsenda þess að unnt sé að byggja upp hátækniiðnað á Íslandi. Hann er líka forsenda þess að útflutnings- og samkeppnisgreinar þrífist. Því miður er því ekki að heilsa að við búum við stöðugleika og horfur á að miklar sveiflur séu enn framundan.

Ábyrgðina verður að axla

Raungengi krónunnar er enn á ný orðið mjög hátt. Flestir eru þó sammála um að núverandi gengi íslensku krónunnar sé miklu hærra en fái staðist til lengdar.  Innstreymi fjármagns er ekki nema að hluta vegna stóriðjuframkvæmda enda var styrking krónunnar byrjuð löngu áður en þær framkvæmdir komust á hönnunarstig.  Það sem skýrir þessa hækkun eru miklar væntingar þjóðarinnar og hækkanir Seðlabanka Íslands á skammtímavöxtum. Samkvæmt lögmálum hagfræðinnar ættu svo gífurlegar vaxtahækkanir að hafa þau áhrif að draga úr neyslu og kæla niður hagkerfið.  Það gerist ekki hér því að flóðgáttir erlendrar lántöku eru opnar og þar við bætist að vextir af húsnæðislánum hafa lækkað stórlega á sama tíma.  Við þessar aðstæður er mikilvægt að hið opinbera axli ábyrgð á hagstjórninni með aðhaldi í rekstri.

Gengisfall óumflýjanlegt

Seðlabanki Íslands hefur látið það skýrt í ljós að þetta aðhald sé ekki nægilegt og hver vaxtahækkunin hefur rekið aðra.  Aukinn vaxtamunur við útlönd hefur greinilega orðið til þess að styrkja gengið enn frekar sem aftur ýtir enn frekar undir misvægið í erlendum viðskiptum. Því er spáð að viðskiptahallinn aukist úr rúmum 7% af landsframleiðslu á nýliðnu ári í 10-13% halla árin 2005-2006.  Flestir hagfræðingar segja þó umbúðalaust að slíkur viðskiptahalli fái ekki staðist og gengisfall krónunnar sé óumflýjanlegt.  Ekki sé spurning hvort það gerist, heldur hvenær. Ábyrg hagstjórn minnkar líkur á að stöðugleikanum verði varpað fyrir róða þegar hillir undir lok stóriðjuframkvæmda. Viðskiptahallinn er besti mælikvarðinn á eyðslugleðina. Timburmennirnir verða mældir í atvinnuleysi. Það er nefnilega alls ekki víst að þeir, sem ekki sjá fótum sínum forráð þessa dagana, hafi ennþá vinnu þegar kemur að skuldadögum í niðursveiflunni.

Dýrkeypt hrossalækning

Sú gamalkunna aðferð við að halda niðri verðbólgu með gífurlegum vaxtahækkunum er sannkölluð hrossalækning.  Einu merkjanlegu áhrifin af  vaxta­hækkunum Seðlabankans að undanförnu eru þau að gengi íslensku krónunnar hækkar enn.  Innflutningurinn flæðir yfir og iðnaði og fiskvinnslu er rutt úr landi. Í iðnaðinum eru hefðbundin framleiðslufyrirtæki að missa markaðshlutdeild á eigin heimamarkaði. Það þykir ekki fréttnæmt þó að íslensk fyrirtæki missi af einni og einni sölu hvort heldur er innan lands eða úr landi. Menn taka frekar eftir því þegar fyrirtæki taka sig upp og flytja starfsemi sína að hluta eða jafnvel að mestu leyti úr landi eins og Plastprent, 66° Norður og Hampiðjan. Sama er að gerast í fiskvinnslu en stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur láta sér þó hvergi bregða. Þetta er auðvitað liður í útrásinni.  Auðvitað er enginn á móti útrás íslenskra fyrirtæka sem allt of lengi hafa liðið fyrir það að  starfa á litlum og erfiðum heimamarkaði.

Óhjákvæmilegur fórnarkostnaður?

Allt er þetta vel þekkt en er nokkuð við þessu að gera? Er þetta ekki bara sá fórnarkostnaður sem þjóðin verður að greiða fyrir þann ávinning að hafa laðað til sín erlend stóriðjufyrirtæki? Vissu ekki allir að búast mætti við háu gengi krónunnar og háum vöxtum meðan  framkvæmdirnar stæðu yfir? Það er rétt að við, sem lengi höfum búið við óstöðuga og sveiflukennda krónu, bjuggumst við að þrengja myndi að samkeppnisgreinunum á þensluskeiði sem talið var að yrði í hámarki á árunum 2005-2006. Miklar væntingar urðu hins vegar til þess að gengi krónunnar fór strax að hækka á árinu 2002 og enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.

Óstöðugur gjaldmiðill

Flestir kjarasamningar, sem gerðir voru á síðasta ári, eru til fjögurra ára og fela í sér kostnaðarhækkanir á bilinu 16-18%. Það er helmingi meiri hækkun en almennt gerist í nágranna og samkeppnislöndum okkar. Skýringin er auðvitað sú að allir vita að hér má vænta meiri sveiflna í verðlagi og gengi en í nágrannalöndunum. Við þurfum að hækka launin meira af því að við greiðum í óstöðugum gjaldmiðli. Einungis frá miðjum febrúar 2004 til sama tíma í ár hefur gengisvísitala íslensku    krónunnar lækkað um rúm 7%. Sú breyting hefur meiri neikvæð áhrif á afkomu dæmigerðs iðnfyrirtækis í samkeppnisiðnaði  heldur en allar umsamdar launa­hækkanir nýgerðra kjarasamninga. Hörður Arnarsson, forstjóri Marels, hefur sýnt fram á þetta með ágætum dæmum. Niðurstaða hans er sú að 5% gengishækkun krónunnar jafngildi nærri 16% launahækkun og 15% gengishækkun samsvari 47% launahækkun.

Sömu starfsskilyrði

Sú skoðun að íslenskum fyrirtækjum henti öðru vísi reglur en keppinautum í nágrannalöndunum er á undanhaldi.  Alþjóðavæðingin sýnir þvert á móti að íslensk fyrirtæki þurfa sömu starfsskilyrði.  Starfsskilyrði á Íslandi hafa reyndar batnað umtalsvert en ekki síst vegna þess að við höfum, nauðug eða viljug, tekið upp þær leikreglur sem þjóðir ESB hafa komið sér saman um.  Á öðrum sviðum, þar sem reglurnar eru ekki samræmdar, hefur tekist afar vel til og þar má sérstaklega nefna skattamálin.  Þegar samið var um byggingu álvers Ísal í Straumsvík í lok sjöunda áratugar síðustu aldar, sömdu fjárfestarnir um undanþágu frá íslenskum skatta­lögum í heild.  Í samningi um byggingu Fjarðaáls er mun minna um slíkar undan­þágur og í samningnum er heimild til handa fyrirtækinu að velja þann kost að lúta almennum íslenskum skattalögum. 

Krónan er gallagripur

Þótt margt hafi breyst til batnaðar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja  þurfum við enn að burðast með íslensku krónuna, hina örsmáu og óstöðugu mynt sem er sannkallaður gallagripur. Margir hafa litið svo á að vegna sveiflna í verðlagi og gengi sé nauðsynlegt að halda í krónuna.  Rökin eru meðal annars þau að hagsveifla hér á landi sé ekki samstíga því sem gerist í öðrum Evrópuríkjum.   Undanfarinn áratug hefur atvinnulíf okkar breyst svo um munar. Með EES-samningnum er Ísland orðið hluti af innri markaði ESB  Jafnframt hefur hagvöxtur á Íslandi orðið meira samstiga alþjóðlegri þróun. Þótt viðskiptasveiflan á Íslandi sé orðin meira samstiga þeirri alþjóðlegu, hafa sveiflur í þjóðarbúskap Íslendinga verið meiri en víða erlendis, m.a. vegna ofþenslu og misvægis í kjölfar stóriðju­fjárfestinga.  Þetta gerðist í lok síðasta áratugar og enn á ný erum við komin í nýtt fjárfestingarskeið í stóriðju sem verður enn viðameira en það sem á undan gekk.

Lausn sem dugar

Sem betur fer virðist stór hópur hagfræðinga og stjórnmálamanna vera farinn að átta sig á því að íslensk fyrirtæki geta ekki unað við stórkostlegar sveiflur í gengi gjaldmiðils okkar. Almennt er viðurkennt að sameiginleg mynt gerir allt í senn að draga úr gengissveiflum, auka og auðvelda viðskipti og minnka kostnað. Við getum ekki sætt okkur við að ný erlend fjárfesting kosti það að því, sem fyrir er, sé rutt úr landi í stórum stíl. Lausn vandans er þekkt. Tökum upp evruna, sameiginlega mynt Evrópuríkja.

Spenna á vinnumarkaði

Miðað við þá miklu spennu sem nú hefur skapast á vinnumarkaði er erfitt að ímynda sér hvernig ástandið væri ef lokað væri fyrir innflutt vinnuafl.  Frjáls för launþega er einmitt einn af grunnstoðum EES-samningsins og eitt af því sem efasemdamenn óttuðust mest í upphafi.  Með stækkun ESB í austur hafa flest ríki á EES-svæðinu nýtt tímabundnar heimildir til að takmarka flutninga fólks í atvinnuleit frá nýju aðildarríkjunum. Þessar takmarkanir eru að mörgu leyti skiljanlegar, ekki síst þar sem atvinnuleysi og kynþáttavandamál hafa lengi verið landlæg.  Flest lönd Vestur-Evrópu sjá fram á skort á vinnuafli á komandi árum vegna fækkandi barnsfæðinga. Bæði hér og annars staðar hefur verið reynt að sporna við innflutningi vinnuafls með alls konar tilbúnum hindrunum eða töfum á afgreiðslu umsókna.  Dæmi um þetta er krafan um að innflutt vinnuafl sýni fram á gild iðnréttindi á sama tíma og alls ekkert er gert með kærur vegna brota heimamanna á iðnlöggjöfinni.

Þurfum erlent vinnuafl

Við Íslendingar verðum að viðurkenna að við aðstæður eins og nú eru uppi í íslenska hagkerfinu, þurfum við á erlendu vinnuafli að halda.  Við þurfum að setja skýrar og framkvæmanlegar reglur um innflutning vinnuafls og síðast en ekki síst þarf alvöru eftirlit með því að reglum sé framfylgt.  Stór hluti vandans er annars vegar sá að yfirvöld eru að eltast við ólöglegt erlent vinnuafl í stað þess að stöðva þá vinnuveitendur sem eru með ólöglegt vinnuafl í þjónustu sinni, oftar en ekki í svartri atvinnustarfsemi.  Eðlilegt er að innlend verktakafyrirtæki hafi áhyggjur af því að keppa við fyrirtæki sem hvorki standa skil á opinberum gjöldum né virða gerða kjarasamninga.   

Virkt eftirlit nauðsynlegt

Samkeppnismál voru í brennidepli á síðasta ári og á haustmánuðum kynnti iðnaðar- og viðskipta­ráðherra niðurstöður nefndar á sínum vegum um íslenskt viðskipta­umhverfi og boðaði breytingar á lögum á grundvelli þeirra. Stjórn Samtaka iðnaðarins ákvað að skipa sérstakan vinnuhóp úr röðum félagsmanna til að fjalla um sama efni og gera tillögur til stjórnar um viðbrögð af hálfu iðnaðarins.

Í tillögunum segir að  mikilvægt sé að samkeppniseftirlit sé virkt og traust og fáist við þau verkefni sem mestu máli skipta til  að tryggja heilbrigt og kröftugt íslenskt atvinnulíf, jafnt á heimamarkaði sem á alþjóðavettvangi og er til þess fallið að tryggja góð lífskjör

Helsta niðurstaða hópsins varð sú að það væri til óbætanlegs skaða fyrir lífskjör íslensku þjóðarinnar ef hér verður búið svo um hnúta að íslensk fyrirtæki verði dæmd til þess að búa við óhagkvæmni stærðar sinnar og svipt raunhæfum möguleikum til vaxtar og útrásar á alþjóðamarkaði. Það sé hættulegur misskilningur að fjöldi veikburða fyrirtækja á innanlandsmarkaði sé lykillinn að virkri samkeppni. Í þessu samhengi er einkum vísað til núgildandi reglna um að unnt sé að stöðva samruna og þeirrar hugmyndar nefndar viðskiptaráðherra um að fá samkeppnisyfirvöldum heimildir til þess að skipta upp fyrirtækjum.

Hópurinn benti einnig á mikilvægi þess að samkeppniseftirlit sé virkt og traust og fáist við þau verkefni sem mestu máli skipta til  að tryggja heilbrigt og kröftugt íslenskt atvinnulíf. Jafnframt er lögð þung áhersla á að stjórnsýsla og málsmeðferðarreglur séu skýrar og traustar.

Í tengslum við löggjöf um hlutafélög var sérstaklega vakin athygli á nauðsyn þess að greina betur milli stórra fyrirtækja sem skráð eru á markaði og lítilla fyrirtækja sem kjósa sér ehf. formið. Ríkar kröfur, sem eru nauðsynlegar vegna stærri fyrirtækja, eiga í fæstum tilvikum við minni fyrirtækin og leggja þeim óþarfar byrðar á  herðar.

Fyrir hálfum mánuði voru lögð fram frumvörp í þinginu sem gera ráð fyrir umtalsverðum breytingum frá því sem nú er á sviði samkeppnismála, ekki síst skipulagi og stjórnsýslu. Margt er til mikilla bóta en því miður er ekki lagt til að rýmkuð verði ákvæði um samrunareglurnar og gerð er tillaga um heimildir til að brjóta upp fyrirtæki. Vonandi verða þessi mál  tekin til rækilegrar endurskoðunar í meðförum þingsins.

Hræringar í lífeyriskerfinu

Nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum landsins  vinna nú að sameiningu. Forsenda þess að hægt sé að sameina sjóðina er að samræma útreikninga á réttindaávinnslu og nú hefur náðst víðtæk samstaða um að breyta útreikningum á lífeyrisréttindum úr hefðbundnu kerfi jafnrar ávinnslu í aldurstengda réttindaávinnslu.  Í desember sl. var undirritað samkomulag um að stefna að því, að þeir lífeyrissjóðir, sem ekki hafa þegar breytt yfir í aldurstengingu, komist að samkomulagi fyrir 1. maí 2005 um samræmda  aðferð við yfirfærslu úr jafnri- í aldurstengda réttindaávinnslu.

Ósanngjörn skipti

Í kjarasamningum á síðasta ári var samið um almenna hækkun úr 6% í 7% á mótframlagi atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóði.  Þessi breyting kemur fram hjá lífeyrissjóðunum sem veruleg launahækkun og eykur framtíðar­skuld­bindingar þeirra verulega að óbreyttum reglum. Þá eykur það enn á vandann, þótt af óskyldum toga sé, að vextir af  langtímalánum hafa farið lækkandi og ævilíkur að lengjast en á sama tíma fer örorkubyrði sjóðanna svo ört vaxandi að líkja má við faraldur.  Það er óþolandi ástand að örorkubyrði sé allri velt yfir á lífeyrissjóðina en almannatryggingakerfið og tryggingafélögin séu meira og minna í hlutverki varaskeifa gagnvart örorkubótum.  Þannig eru t.d. í  skaðabótalögunum ákvæði um að 60% af verðmæti þess örorkulífeyris sem  tjónþoli á rétt á frá eigin lífeyrissjóði komi til lækkunar bótakröfu vegna slysa. Þar með eru slysabætur frá vátryggingafélagi skertar á kostnað viðkomandi lífeyrissjóðs.

Miklar umræður hafa farið fram milli ASÍ og SA um framtíðarskipulag lífeyris­kerfisins bæði vegna aðsteðjandi vanda, sem að ofan hefur verið rakinn, og einnig í tengslum við fyrirhugaða sameiningu nokkurra af stærstu sjóðunum, þ.e. Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna annars vegar og nú á síðustu dögum hefur komist verulegur skriður á viðræður um sameiningu Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Sameinaða lífeyrissjóðsins.

Vaskurinn brenglar myndina

Samtök iðnaðarins og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja hafa lengi barist gegn þeirri skökku samkeppnisstöðu sem skapast vegna ákvæða skattalaga um að fjármálafyrirtæki og opinberrar stofnanir greiði ekki virðisaukaskatt af upplýsingatækni- og hugbúnaðarstarfsemi sinni.  Þeim er þá óheimilt að draga frá innskatt af keyptri þjónustu og fá endurgreiðslu en það leiðir til þess að þeir byggja upp eigin deildir sem sinna tölvuþjónustu og hugbúnaðargerð. Þess sjást víða merki að umsvif slíkra deilda  fari stórlega vaxandi með aukinni notkun upplýsingatækni á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Þótt nokkur bót hafi fengist á þessu vandamáli þegar Ríkisskattstjóri lagði fram ákvarðandi bréf um breytingar á reglugerðum til að draga mörk milli skattskylds samkeppnisrekstrar og annarrar starfsemi er enn langt í land að viðunandi niðurstaða sé fengin. Enn eru mikilvægir þættir undanskildir, s.s. rekstur stoðkerfa og uppsetning vélbúnaðar. Þar með er ýmiss konar tölvu- og rekstrarþjónusta, eins og hýsing, undanskilin. Rimman við yfirvöld stendur nú um skilgreiningu á starfssviði tölvunarfræðinga.  Óþolandi er hversu langan tíma hefur tekið að fá niðurstöðu í málið þrátt fyrir linnulausan þrýsting Samtaka iðnaðarins og fögur fyrirheit stjórnvalda. Þetta er því miður enn eitt dæmið um hve sinnulaus stjórnvöld eru oft um nauðsynlegar og sjálfsagðar lagfæringar á starfsumhverfi fyrirtækja.

Olíugjald

Á lokadögum þings síðastliðið vor  var samþykkt frumvarp fjármálaráðherra um olíugjald sem leysa skal þungaskatt af hólmi. Samkvæmt lögunum, sem taka gildi í júlí 2005, verður lagt  olíugjald að fjárhæð 45 krónur á hvern lítra af  díselolíu. Greiða verður slíkt gjald af öllum bifreiðum við afgreiðslu frá olíufélagi líkt og nú á við um bensín. Að auki verður lagt sérstakt kílómetragjald á bifreiðar og vagna sem eru þyngri en 10 tonn. Með öðrum orðum verða þessar atvinnubifreiðar komnar í tvöfalt kerfi skattlagningar um mitt þetta ár.

Í sumum tilvikum hækka álögur um 10-20 % en margfaldast í öðrum tilvikum. Bílar, sem aka stuttar vegalengdir, verða harðast úti við  þessa breytingu og langmest þeir bílar sem  jafnframt knýja einhver tæki, s.s. götusópar og gámabílar. Kranabifreiðar og sumir vörubílar með krana og steypubílar eru undanþegnir olíugjaldi og kílómetragjaldi og hið sama á við um langferðabifreiðar.

Ekki boðlegt

Samtök iðnaðarins, ásamt flestum samtökum atvinnurekenda, lögðu til við fjármálaráðuneytið að lagt yrði olíugjald á bifreiðar undir 10 tonnum en ekki á þyngri bifreiðar. Þær verði látnar greiða þungaskatt eða kílómetragjald eins og verið hefur. Þungaskattkerfið er skilvirkt og auðvelt að hækka álögur ef hið opinbera telur þess þurfa. Síðast en ekki síst hillir undir nýja sjálfvirka mælatækni sem á eftir að gera skattkerfið enn auðveldara og ódýrara í rekstri. Ennfremur er stefna ESB sú að umferð skuli skattlögð í samræmi við ekna vegalengd en ekki eldsneytisnotkun.  Allt stefnir sem sé í að við tökum upp olíugjald á atvinnubifreiðar hérlendis þegar aðrar þjóðir eru að hverfa af þeirri braut. Á þessi sjónarmið hefur  fjármála­ráðuneytið ekki fallist á og fer sínu fram. SI telja lögin fela í  sér mismunun  eftir tegundum og notkunarsviði bifreiða. Slíkt er ekki boðlegt í nútíma skattheimtu og munu Samtök iðnaðarins beita tiltækum ráðum til  að spyrna við fæti og munu væntanlega vísa málinu til ESA á þeirri forsendu að nýju lögin feli í sér ólögmæta mismunun í skattlagningu ökutækja, sem á að taka mið af notkun umferðar­mannvirkja.

Einkennileg samkeppni orkufyrirtækja

Ódýr og umhverfisvæn orka er ein mikilvægasta auðlind okkar og þar ættum við að hafa forskot á aðrar þjóðir.  Samtök iðnaðarins hafa stutt samkeppnisvæðingu í framleiðslu og sölu raforku.  Breyting í þessa veru hefur skilað ágætum árangri í öðrum löndum og samkvæmt EES samningnum er Íslendingum raunar skylt að gera sambærilega breytingu hér á landi.  Hvarvetna hafa áhrifin orðið þau að stórir notendur og vel í sveit settir hafa notið markaðsvæðingar raforkumarkaðar eins og á öðrum sviðum þar sem einokun hefur verið afnumin en samkeppni innleidd. 

Á undanförnum vikum hafa iðnfyrirtæki fengið senda rafmagnsreikninga, samkvæmt nýjum verðskrám, eftir að lögin um samkeppni á raforkumarkaði tóku gildi. Reikningarnir koma eins og köld gusa yfir marga. Dæmi eru um tugprósenta hækkanir, bæði á landsbyggðinni og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er með öllu óskiljanlegt að þessi lagabreyting skuli hafa valdið umtalsverðum hækkunum á rafmagnsverði bæði hjá litlum og stórum fyrirtækjum.  Afkoma orkufyrirtækjanna virðist vera í góðu lagi og engin þörf á að bæta þar um betur.  Vandséð er að nokkur umtalsverð kostnaðarhækkun verði heldur í raforkukerfinu við þessa breytingu. Fyrirtækin fá engin tilboð frá öðrum framleiðendum raforku þó að eftir sé leitað.  Eldri samningum, t.d. um rofna taxta, er sagt upp og nýir og hærri taxtar innleiddir. 

Þetta er ekki samkeppni af því tagi sem við þekkjum úr iðnaðinum.  Við hljótum að krefjast skýringa á þessum miklu hækkunum.  Sé það rétt að einhverjir raforku­kaupendur njóti góðs af breytingunni skortir bæði upplýsingar um  hverjir þeir eru og hvaða rök liggja að baki slíkri tilfærslu milli greiðenda.  Eitt er víst:  Þetta eru eitthvað allt annað en eðlileg viðskipti á samkeppnismarkaði.

Varðskipin til Póllands

Í fjölmiðlum hefur mikið verið fjallað um fyrirhugaðar endurbætur á varðskipum sem samið hefur verið um að gera í Póllandi, þó að sýnt sé að mismunur á íslensku og pólsku tilboði sé óverulegur og fullkomin óvissa um að nokkur sparnaður sé í því fólginn að fara með þessi verkefni úr landi.  Það versta við þetta mál er þó að sams konar mál kom upp árið 2001.  Þá var verðmunur tilboða svo óverulegur að Ríkiskaupum þótti rétt að miða útreikninga við siglingu frá miðlínu við Færeyjar til þess að réttlæta þá niðurstöðu að hagkvæmt vari að fara með skipin til Póllands.  Þegar upp var staðið fór kostnaður við þessi verk 60-90% fram úr áætlun. 

Í framhaldi af þessum útboðum voru haustið 2002 gefnar út tillögur um það hvað hægt væri að gera til þess að auðvelda innlendum skipasmiðjum að bjóða í verk af þessu tagi.  Þessar tillögur voru unnar í samvinnu iðnaðarráðuneytis og Samtaka iðnaðarins.  Ekki er að sjá að í nýjasta útboði Ríkiskaupa sé nokkuð gert með þessar tillögur heldur virðist í útboðskilmálum endur­speglast einbeittur vilji til að beina þessum verkefnum úr landi.  Stjórnvöld verða að taka á þessu máli.  Það er óþolandi að svona mistök endurtaki sig hvað eftir annað.

Kunna ekki að hætta

Alltaf fara einhverjir halloka  í viðskiptum.  Því breytum við ekki. Hins vegar er ekki sama hvernig það gerist. Hér á landi hefur það verið landlægt að fyrirtæki eru rekin árum saman þó að þau séu í reynd löngu orðin gjaldþrota. Stöðugt sígur á ógæfuhliðina og engar skynsamlegar ástæður eru til að ætla, að þeirri þróun verði snúið við. Þeir sem halda ótrauðir áfram í slíkum rekstri skaða viðsemjendur sína vísvitandi. Gallinn er bara sá, að þarna er erfitt að draga mörkin.  Hvenær hætta menn að vera í góðri trú að reyna að bjarga eigin atvinnurekstri en fara þess í stað  að stunda rán og gripdeildir?

Allsherjarveð

Fyrir nokkrum árum voru gerðar breytingar á löngu úreltum veðlögum. Meginbreytingin er sú að nú er auðveldara en áður að taka veð í öðrum eignum en fastafjármunum. Mestu skiptir að nú er hægt að taka veð í ótilgreindu safni eigna á borð við viðskiptakröfur og birgðir.  Þegar hallar undan fæti er það fremur regla en undantekning að lánastofnanir eigi veð í öllum slíkum eignum viðkomandi fyrirtækis. Um leið og nýjar vörur eru komnar í hús er sendingin veðsett lánastofnuninni en seljandi réttlaus.  Á sama hátt er krafa vegna seldrar vöru eða þjónustu veðsett lánastofnun um leið og viðskiptin hafa farið fram. Það er erfitt að keppa við fyrirtæki sem eru rekin á þessum forsendum með stöðugum undirboðum til þess eins að fleyta sér áfram nokkrum dögum lengur en annars væri.

Þáttur lánastofnana

Þess eru einnig æ fleiri dæmi að fyrirtæki virðast gerð gjaldþrota í góðri samvinnu við eigin lána­stofnun. Þetta gerist þannig að fyrirtæki verða gjaldþrota en halda áfram starfsemi eins og ekkert hafi í skorist. Sumir hafa ekki einu sinni fyrir því að skipta um nafn eða símanúmer. Forráðamenn eru hinir sömu og ekki virðist neitt vandamál að hefja bankaviðskipti þar sem frá var horfið. Þegar betur er að gáð er það oft svo að lánastofnanir bæta stöðu sína með vel útfærðu gjaldþroti eigin viðskiptamanna. Skyndilega eru allar aðrar skuldir horfnar og möguleikar skuldarans til að standa skil á lánunum eru þeim mun betri en áður.

Hver dregur Svarta-Pétur?

En hverjir tapa á þessum gjaldþrotum?  Það eru viðskiptaaðilar þessara fyrirtækja, kaupendur og seljendur vöru og þjónustu. Sérstaklega eru hagsmunir undirverktaka léttvægir fundnir. Þó að verkkaupar krefjist verkábyrgða af aðalverktaka er nær óþekkt að hið sama gildi um undirverktaka.  Þess vegna gerist það að afturgengin verktakafyrirtæki halda áfram með verk í kjölfar gjaldþrots í skjóli opinberra aðila og lánastofnunar en undirverktökum er varpað á dyr og fá ekkert upp í sínar kröfur.

Enginn heldur því fram að þeir, sem fara halloka í viðskiptum, skuli aldrei eiga afturkvæmt. Í þeim tilvikum er eðlilegt að menn byrji smátt og ávinni sér það traust sem glataðist. Samtök iðnaðarins rituðu stærstu verkkaupum á markaði samhljóða erindi um aðgerðir gegn kennitöluhoppi. Vísað var til góðs árangurs af sams konar átaki gegn gerviverktöku fyrir nokkrum árum og lögð fram tillaga að stöðluðu ákvæði í útboðslýsingum til að hindra að fyrirtæki villi sviksamlega á sér heimildir með kennitöluhoppi.

Einungis með því að beita heilbrigðri skynsemi og með samstöðu fyrirtækja á almennum markaði, opinberra innkaupaaðila og lánastofnana er unnt að uppræta þessa óværu úr íslensku viðskiptalífi.  Til þess þarf samstillt átak en það er líka til mikils að vinna.