• Valgerður Sverrisdóttir

Ræða Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra

Á Iðnþingi 18. mars 2005

„Sóknin mun ekki síst byggja á auknum fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi og áframhaldandi útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði. Íslenskt hugvit og áræðni mun skipta þar lykilmáli og verða undirstaðan í fjölbreyttri flóru arðvænlegra sprotafyrirtækja og öflugs hátækni- og þekkingariðnaðar.“

Ágætu þingfulltrúar og gestir,

I.

Yfirskrift Iðnþings að þessu sinni er: - Auðlind framtíðarinnar. Þetta er umfjöllunarefni sem er mér kært enda fjalla málefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis fyrst og fremst um auðlindir framtíðarinnar. Hér er bæði vísað til þeirra náttúruauðlinda sem finna má í fallvötnunum og jarðhita – en ekki síður til hins mikla mannauðs sem verið hefur drifkraftur atvinnu- og efnahagsþróunarinnar síðustu árin. Það fer varla framhjá nokkrum þeim sem fylgist með þessari þróun að ef fram heldur sem horfir stefnir í að efnahagslífið muni innan fárra ára byggjast á þremur megin sviðum, sem eru sjávarfang, orkufrekur iðnaður og þekkingariðnaður og þjónusta.

Áherslur iðnaðarráðuneytis í iðnaðar- og nýsköpunarmálum hafa einkum beinst að síðastnefnda þættinum, þ.e. þekkingariðnaði - sem endurspeglast einna best í áherslum Vísinda- og tækniráðs og í starfsemi Tækniþróunarsjóðs.

Þrátt fyrr að margt hafi verið gert hin síðari ár til að efla nýsköpun atvinnulífsins er mikið verk enn óunnið.

II.

Við Íslendingar gleðjumst gjarnan yfir útkomum úr hverskonar samanburðarrannsóknum enda erum við yfirleitt framarlega í röðinni. Það þarf ekki að koma á óvart að gæði íslenskra vísinda- og tæknirannsókna mælast í fremstu röð. Alþjóðlegur samanburður á fjölda útgefinna vísindagreina og tilvitnanir í verk íslenskra vísindamanna benda að minnsta kosti til þessa. Í nýrri skýrslu menntamálaráðuneytisins um þátttöku Íslands í 5.-rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og tækniþróun er þetta enn á ný staðfest en þar kemur fram að við erum fullgildir þátttakendur í evrópsku vísinda- og tæknisamstarfi og að samstarfið skilar okkur mjög miklu.

Þrátt fyrir þennan árangur virðist sem afrakstur þessarar frábæru frammistöðu á sviði vísindanna skili sér ekki nægilega vel út í efnahagslífið í formi nýrra fyrirtækja sem skapa arðsemi, vöxt og ný vellaunuð störf.

En hvar liggur skýringin á þessari mótsögn? Ekki er unnt að segja að Íslendingar séu ófúsir að leggja út í frumkvöðlastarfsemi því samkvæmt GEM-rannsóknum Háskólans í Reykjavík eru óvenju margir Íslendingar þátttakendur í frumkvöðlastarfsemi og vilja stofna til fyrirtækjareksturs.

Þeir sem um þessi mál hafa fjallað telja að meginástæðan liggi í skorti á áhættufjármagni til nýsköpunar. Það er þó óumdeilt að veruleg breyting til batnaðar varð með tilkomu Tækniþróunarsjóðs á síðasta ári, sem skipti sköpum fyrir fjölmörg sprotafyrirtæki og tækniþróunarverkefni. En það dugar skammt í ljósi krapprar stöðu Nýsköpunarsjóðs, enda þarf markaðurinn fyrir áhættuþolið fjármagn að mynda órjúfanlega keðju og hver hlekkur verður að læsast á tryggan hátt hlekkjunum til hvorrar handar. Þótt þessi erfiða staða Nýsköpunarsjóðs sé tímabundin er engu að síður mikilvægt að öllum ráðum verði beitt til að sjóðurinn rétti úr kútnum sem fyrst og geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki sem fyrr.

III.

Aðgangur að áhættufjármagni er mikilvægur, bæði fyrir ný og eldri fyrirtæki. Fyrirtæki hafa til að mynda þörf fyrir fjármagn þegar - auka á framleiðslu, - vegna vöruþróunar, - við endurskipulagningu og - þegar kynslóðaskipti verða í fyrirtækjum. Óhætt er að segja að aðgangur að áhættufjármagni sé forsenda þeirrar þróunar og endurnýjunar í atvinnulífinu - sem leggur grunn að efnahagsvexti og nýjum störfum í framtíðinni.

Fjárþörfin er af ýmsum toga. Hún kann að vera tímabundin og því unnt að svara henni með lánsfé. En þegar um er að ræða sprotafyrirtæki sem er að hefja sína löngu og ströngu vegferð - eða þegar ráðast þarf í dýra og umfangsmikla nýsköpun í starfandi fyrirtækjum þarf þolinmótt hlutafé að vera til staðar. Við þekkjum það vel – að þessi þolinmæði er oft meiri en hinn almenni markaður telur sig geta sýnt - því staðreyndin er sú að oftar en ekki tekur 10 – 12 ár að koma sprotafyrirtækum á það stig að fyrirtækjafjárfestar séu tilbúnir að leysa frumfjárfestana af hólmi.

Það væri augljóslega best fyrir alla ef hinn frjálsi markaður einkaframtaksins gæti alfarið sinnt eftirspurninni eftir því áhættufjármagni sem atvinnulífið þarfnast hverju sinni. Sú er þó augljóslega ekki raunin – enn sem komið er að minnsta kosti.

Vegna þessa er þörf á að beina sjónum að þeim aðgerðum sem stjórnvöld geta beitt til að hvetja einkaframtakið til að axla þetta mikilvæga hlutverk. Til þess að svo geti orðið koma nokkrar leiðir til greina.

1. Í fyrsta lagi gætu orðið veruleg umskipti á þessum markaði ef tekst að skapa umhverfi þar sem innlendir lífeyrissjóðir sjái sér í auknum mæli hag í að verja stærri hluta af ráðstöfunarfé sínu til fjárfestinga hér heima og þá sérstaklega til nýsköpunarfyrirtækja. Það er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að eigendur þessa fjár sjái sér hag í að stuðla að framgangi íslensks atvinnulífs svo að til verði sem fjölbreyttust og hæst launuð störf við hæfi komandi kynslóða. En hvernig getur ríkisvaldið stuðlað að þessu?

- Fram hafa komið hugmyndir um að aðlaga skattaumhverfið þannig að þar myndist hvati til þess að þessir stóru sjóðir landsmanna sjái sér meiri hag í að fjárfesta í nýsköpun atvinnulífsins á Íslandi. Einnig hefur verið bent á frekari uppbyggingu sérhæfðra áhættufjárfestingasjóða sem gegna mikilvægu hlutverki sem milliliðir á milli lífeyrissjóða annars vegar og sprotafyrirtækja hins vegar. Þessar hugmyndir eru allrar athygli verðar og munu verða til umræðu á næstunni.

2. Í öðru lagi þarf að bæta markaðssetningu rannsóknaniðurstaðna og sprotafyrirtækja. Þrátt fyrir að nokkur af áhugaverðustu nýsköpunarfyrirtækjum okkar hafi orðið til sem hugmynd í háskóla virðast tengsl háskólarannsókna við atvinnulífið vera takmörkuð. Úr þessu þarf að bæta og skapa markvissan farveg fyrir markaðssetninguna.

- T.d. kæmi til greina að koma á tengslum á milli Tækniþróunarsjóðs annarsvegar og Nýsköpunarsjóðs hinsvegar. Tækniþróunarsjóður fjármagnar lokaskrefin í þróunarvinnunni með beinum styrkjum og Nýsköpunarsjóður er, eðli málsins samkvæmt, fyrsti fjárfestingaraðilinn. Má ekki ætla að nánara samstarf þessara tveggja sjóða ríkisins gæti orðið til að bæta árangurinn?

- Þá mætti einnig skapa skilyrði til aukins samstarfs milli einkafjárfesta og þeirra sem fóstra nýsköpunarfyrirtæki, eins og t.d. frumkvöðlasetra IMPRU og Klaks. Hér er um það að ræða að skapa farveg til þess að koma nýsköpunarhugmyndum og sprotafyrirtækjum á framfæri við fjárfesta.

- Þá er mikilvægt að hafa í huga að einkafjárfestar geta ekki eingöngu lagt fram fjármuni heldur einnig þekkingu á rekstri og markaðsmálum sem í flestum tilfellum er stærsti veikleiki þessara ungu fyrirtækja. Því snýst þetta í raun um það að tengja saman bæði fjármagn og þekkingu á breiðum grunni.

3. Í þriðja lagi er mikilvægt að strax í upphafi sé nokkuð vel frá því gengið að trygg tenging sé á milli frumfjárfestinga og þeirra fjárfesta sem markað hafa sér fjárfestingarstefnu síðar á þroskabraut fyrirtækjanna, þ.e. að þeir sem taka mestu áhættuna í upphafi geti verið nokkuð vissir um að aðrir séu tilbúnir til að koma að málinu síðar þegar árangur hefur náðst. Mikilvægt er að frumfjárfestarnir sitji ekki uppi með fjárfestingar sínar – og geti ekki endurnýtt þær í nýjum framsæknum fyrirtækjum. Þessi veikleiki er t.d. einn veigamesti dragbítur Nýsköpunarsjóðs um þessar mundir.

4. Í fjórða lagi þarf að auka aðgengi sprotafyrirtækja að áhættufjármagni með því að skapa markað þar sem mögulegt verður að versla með hlutabréf þeirra. Sprotafyrirtæki hafa fæst burði til að skrá sig í Kauphöll en þurfa samt sem áður að hafa aðgang að markaði þar sem bréf þeirra ganga kaupum og sölum. Í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu er nú unnið að smíði frumvarps um svokallað markaðstorg sem er ætlað að koma til móts við þarfir þessara fyrirtækja. Með slíkum markaði yrði komið skipulagi á viðskipti sem nú fara utan markaða og fyrirtækjum gert auðveldara og ódýrara að fá skráningu en á hinum skipulega verðbréfamarkaði. Jafnframt er með þessu stuðlað að aukinni upplýsingagjöf smærri fyrirtækja og bættum viðskiptaháttum með hlutabréf þeirra. Er vonast til að þessi nýi markaður geti orðið nokkurskonar brú á milli áhættufjárfesta og sprotafyrirtækja. Jafnframt getur hinn nýi markaður orðið útgönguvettvangur fyrir framtaksfjárfesta til að rýma fyrir nýjum fjárfestingum. Við gerð frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af góðri reynslu af sambærilegum mörkuðum í nágrannaríkjum, einkum í Bretlandi, sem og þróun í löggjöf Evrópusambandsins.

 

5. Í fimmta lagi er mikilvægt að lög og reglugerðir taki tillit til þeirrar einföldu staðreyndar að nýsköpunarfyrirtæki verða ekki til á einni nóttu. Reynslan hefur sýnt okkur að uppvaxtartíminn er oftast lengri en tíu ár. Uppvaxtartími fyrirtækja einkennist af því að þau stunda starfsemi á þróunar- eða undirbúningsstigi og hafa að jafnaði minni tekjur en sem nemur kostnaði við aðföng. Mikilvægt er að þessi nýju fyrirtæki búi ekki við lakari starfsskilyrði en eldri fyrirtæki. Í þessu sambandi er ég til dæmis að vísa til virðisaukaskatts en samkvæmt núgildandi lögum gildir sú regla að nýsköpunarfyrirtæki eigi rétt til skráningar á virðisaukaskattsskrá í sex ár. Ég tel rétt að kannað verði hvort ekki sé rétt að lengja þennan tíma, til dæmis í tíu ár.

Framangreind fimm atriði snúast einfaldlega um það að koma af stað jákvæðri og skapandi hringrás þar sem áhættuþolið fjármagn myndar forsendur fyrir auknum vexti íslensks atvinnu- og efnahagslífs í framtíðinni.

Fjármögnun nýsköpunar er brýnt úrlausnarefni og því hef ég ákveðið að setja af stað vinnu til að fara yfir þessar hugmyndir og fleiri, sem geta orðið til að bæta núverandi stöðu. Verða hagsmunaaðilar kallaðir til samstarfs um framtíðar stefnumótun á þessu sviði.

IV.

Eitt helsta umræðuefnið í dag verður skýrsla um hátækniiðnað á Íslandi. Það eru Samtök iðnaðarins og iðnaðarráðuneytið sem hafa látið vinna þessa skýrslu sem fjallar um –þróun; -stöðu; -framtíð; og -tækifæri hátækniiðnaðar á Íslandi. Það er að sjálfsögðu mikið kappsmál okkar allra að íslensk hátæknifyrirtæki nái að vaxa og dafna landsmönnum öllum til hagsbóta. Til lengri tíma litið er það einmitt þekkingariðnaðurinn sem mun skila Íslandi, - eins og öðrum þjóðum, - hvað mestu í efnahagslegu- og félagslegu tilliti.

Skýrsla þessi er einnig mikilvægt framlag til umfjöllunar stjórnvalda um eigin áherslur og stefnumótun. Ég mun því leggja skýrsluna fyrir tækninefnd Vísinda- og tækniráðs til umfjöllunar, með það í huga að efni hennar geti orðið innlegg í stefnumótun ríkisstjórnarinnar á vettvangi Vísinda- og tækniráðs. Ég vil þakka þeim sem að gerð skýrslunnar komu fyrir stórgott starf.

Eitt af þeim hátæknifyrirtækjum sem vakið hafa athygli nýlega er tölvufyrirtækið CCP sem fékk Nýsköpunarverðlaun Útflutningsráðs og Rannís fyrir skömmu. Hjá frumkvöðlunum kviknaði hugmynd fyrir tæpum níu árum síðan - um tölvuleik sem spilaður yrði á Netinu með víðtækri þátttöku hvaðanæva úr heiminum. Þessi fjöl-þátttöku tölvuleikur er heilmikið ævintýri sem gerist einhvern tímann í framtíðinni úti í hinum endalausa alheimi, þar sem ástir og svikráð blandast saman við viðskipti og stríðsátök – e.t.v. eitthvað í átt við það sem gerist í þessum minni raunheimi okkar.

En það er ekki efnisþráðurinn eða hið daglega líf í þessum sýndarveruleika sem mestu máli skiptir fyrir okkur nú - heldur það að með einstakri harðfylgni hefur hópi ungs fólks tekist að byggja upp fyrirtæki sem skilar eigendum sínum arði og veitir 40 manna hópi ungs fólks vel launaða atvinnu. Það er einnig athyglisvert í þessu samhengi að þróunarkostnaðurinn nam mörg hundruð milljónum króna og þróunartíminn tók hvorki meira né minna en nærri 170 mannár. Tekjur af leiknum á síðasta ári voru tæplega 600 m. kr og eru þær áætlaðar um 800 m. kr á þessu ári.

Ég dreg þetta hátækniverkefni fram, - ekki bara vegna þess að það er frábært í sjálfu sér, - heldur einnig vegna þess að það mótaðist á árunum 1997–2000 þegar umhverfi nýsköpunar var hagstæðara og aðgengi að áhættuþolnu fjármagni meira en það hefur nokkru sinni verið, fyrr eða síðar. Ef til vill skipti þessi tímasetning sköpum fyrir velgengni fyrirtækisins – og það er umhugsunarefni fyrir okkur öll - hvort við höfum glatað verðmætum tækifærum í erfiðri stöðu síðustu ára.

V.

Ágætu Iðnþingsgestir,

Hinar þrjár meginstoðir íslensks atvinnulífs eru undirliggjandi í umræðu dagsins. Auðvitað er þekkingariðnaðurinn þar fyrirferðarmestur, en ég get ekki komist hjá því að minnast stuttlega á stöðu stóriðjuframkvæmda – en stóriðjan hefur verið einn veigamesti burðarstólpi efnahagslegra framfara hér á landi um áratuga skeið.

Við Íslendingar stöndum á tímamótum í þróun orkufreks iðnaðar. Eftir áralangan aðdraganda og þrotlausa vinnu við að finna leiðir til að nýta orkulindir landsins til atvinnuuppbyggingar er nú svo komið að færri komast að en vilja. Umfangsmikil markaðsvinna á síðasta áratug við að vekja athygli erlendra fjárfesta á ágæti landsins til þess að reisa hér orkufrekan iðnað hefur skilað sér á undraverðan hátt, þannig að nú er talað um Ísland sem best varðveitta leyndarmálið í Evrópu meðal álframleiðenda og er þá vitnað til þess hve aðstaða hér á landi er góð fyrir þess háttar framleiðslu.

Nú eru framleidd hér 268 þús. tonn af áli á ári í tveimur álverum. Þegar byggingu Fjarðaráls og stækkun Norðuráls, sem nýlega var fastmælum bundin, lýkur í lok þessa áratugar, mun framleiðsla áls hér á landi hafa nær þrefaldast og verða komin í 760 þús. tonn á ári. Þetta er stórt stökk á stuttum tíma en verður að skoðast í ljósi þeirrar stefnu sem mörkuð var á sjötta áratugnum og var á stefnuskrá allra ríkisstjórna sem setið hafa síðan. Það hefur tekið heil 50 ár að ná þessum árangri og endurspeglast hann hvað best í því að nú þegar hafa sex heimsþekkt álfyrirtæki sýnt áhuga á að fjárfesta í nýjum álverum á Íslandi á næstu árum.

 

Ágætu Iðnþingsgestir,

Stefna stjórnvalda á síðustu árum hefur endurspeglast í miklum skipulagsbreytingum á íslensku viðskipta- og atvinnulífi. Frelsi hefur verið innleitt á fjármagnsmarkaði, skattkerfinu hefur verið umbylt og styrkum stoðum hefur verið rennt undir íslenskt atvinnulíf og fjölbreytni þess aukin. Áfram er stefnt fram á við - til mótunar sterks og framtíðarvænlegs samfélags þar sem þegnarnir búa við kröftugt og fjölbreytt atvinnulíf og um leið öflugt velferðarkerfi sem byggir á samhjálp og mannkærleik. Sóknin mun ekki síst byggja á auknum fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi og áframhaldandi útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði. Íslenskt hugvit og áræðni mun skipta þar lykilmáli og verða undirstaðan í fjölbreyttri flóru arðvænlegra sprotafyrirtækja og öflugs hátækni- og þekkingariðnaðar.