Efni tengt Iðnþingi 2008

Meirihluti Íslendinga vill evru og aðildarviðræður við ESB

Meirihluti landsmanna vill taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi. Þetta kemur fram Í nýrri könnun sem Capacent Gallup framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins og kynnt var á aðalfundi samtakanna í morgun. Þar kemur fram að 55,8% vilja taka upp evru en 44,2% vilja halda íslensku krónunni. Spurt var hvort telur þú æskilegra að halda íslensku krónunni eða taka upp evru sem gjaldmiðil hér á landi.

Karlar eru hlynntari því að taka upp evru eða 60% á móti 51% kvenna. Þeir yngstu og elstu vilja helst halda í krónuna og er stuðningur við evru mestur í aldurshópnum 25-34 ára. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru jákvæðari gagnvart evru og vilja ríflega 60% þeirra taka upp evru. Meirihluti íbúa á landsbyggðinni eða 53% vill hins vegar halda í krónuna.

Þá er einnig afgerandi meirihluti fyrir því að hefja viðræður um að aðild Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í könnun sem Capacent Gallup vann fyrir Samtök iðnaðarins og kynnt var á Iðnþingi í morgun. Alls segjast 54% aðspurðra vera hlynntir aðildarviðræðum en 30% andvígir. Samkvæmt sömu könnun segjast 44,1% aðspurðra vera hlynntir aðild að sambandinu en 34,3% andvígir. Samkvæmt þessu vilja margir þeirra sem eru andvígir aðild hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Athyglisvert er að kanna viðhorf til aðildarviðræðna eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Fleiri stuðningsmenn allra flokka, nema Vinstri grænna, vilja hefja aðildarviðræður. Þannig vilja 46,2% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks fara í aðildarviðræður en 39% segjast því andvíg. 50% stuðningsmanna Framsóknarfloksins og 78% hjá Samfylkingunni eru hlynnt viðræðum. Andstaðan er mest meðal stuðningsmanna Vinstri grænna en þó segjast 35% þeirra hlynnt viðræðum.

Kannanirnar eru hér að neðan:

Könnun í febrúar

Könnun í janúar