Ályktun Iðnþings 2009
F O R G A N G S M Á L
Lækka vexti
Endurreisa bankakerfið
Afnema gjaldeyrishöft
Semja við erlenda kröfuhafa
Auka útflutningstekjur
Blása lífi í fasteignamarkaðinn
Sækja um aðild að ESB og taka upp evru
Ótrúleg umskipti hafa orðið í efnahagslífinu á undanförnum misserum. Atvinnulífið er að sligast undan ofurvöxtum, verðbólgu, gengisbreytingum, gjaldeyrishöftum og höktandi bankakerfi. Sama gildir um fjölmörg heimili og atvinnuleysi hefur ekki verið meira um langt árabil.
------------------------
Sundurlyndi og stefnuleysi stjórnmálamanna og stjórnvalda sem bera ábyrgð á verkstjórn og úrlausn ýmissa lykilþátta sem greiða verður úr er grafalvarlegt. Mikilvægur tími hefur farið til spillis að óþörfu og mál til komið að stjórnmálamenn, þing og ríkisstjórn snúi bökum saman í stað þess að eiga í hefðbundnu innihaldslausu karpi sem engu skilar.
------------------------
Án frekari tafa verður að lækka vexti. Það er algjört forgangsmál. Þá verður að ná samkomulagi við erlenda eigendur krafna til þess að unnt verði að losa um gjaldeyrishöft. Brýnt er að tryggja að íslensk fyrirtæki eigi aðgang að bönkum sem geta veitt eðlilega bankaþjónustu, ekki síst aðgang að erlendu lánsfé og bankatryggingum vegna viðskipta. Það verður ekki gert nema með því að semja við erlenda kröfuhafa bankanna, eins eða fleiri, um eignarhald.
------------------------
Ungt fólk þarf þak yfir höfuðið. Aðstæður á fasteignamarkaði gera það nánast ómögulegt. Hækka verður hámarkslán Íbúðalánasjóðs og breyta lánareglum þannig að unnt sé að byggja og selja minni íbúðir. Það er mikilvægur liður í því að hjól byggingariðnaðarins taki að snúast að nýju.
------------------------
Margt bendir til að íslenskt efnahagskerfi geti ekki staðið eitt og sér og stuðst við eigin gjaldmiðil ef Íslendingar ætla sér að vera í framvarðasveit þjóða í hagsæld og lífsgæðum. Til þess að svo megi verða þarf í senn að leysa þann bráðavanda sem að steðjar og marka stefnu til framtíðar. Mikilvægur og ómissandi þáttur er grundvallarbreyting í peningamálum og stjórn efnahagsmála. Þar er eina raunhæfa leiðin að ganga í ESB og taka upp evru. Stjórnvöld verða að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum.
------------------------
Þrátt fyrir áföll og erfiðleika sem herja á okkur um þessar mundir má ekki gleyma að tækifærin blasa við okkur hvert sem litið er. Við eigum auðlindir, mannauð og hugmyndir sem við þurfum að flétta saman af hugviti og fyrirhyggju til að auka útflutningstekjur ásamt því að skapa viðvarandi stöðugleika. Takist okkur það mun okkur vel farnast.