Ályktun Iðnþings 4. mars 2010

Á Aðlfundi Samtaka iðnaðarins í dag var eftirfarandi ályktun samþykkt.

F O R G A N G S M Á L

35.000 störf á 10 árum

Iðnaður í forgang

Afnema gjaldeyrishöft - skapa stöðugleika

Verðmætasköpun - ekki skattheimta

Opnar og gagnsæjar samningaviðræður við ESB

Samvinna, festa og ábyrgð

Stjórnvöld, atvinnurekendur og launþegasamtök verða að leggjast á eitt til að tryggja verðmætasköpun og störf. Á næstu 10 árum þarf að skapa störf fyrir 35.000 manns. Til þess að svo megi verða þurfa að verða umskipti í efnahags- og atvinnumálum sem leiða til verulegs hagvaxtar. Hér þarf einbeittan vilja og dug til verka.

***

Þungamiðja uppbyggingar í atvinnulífinu verður að vera örvun gjaldeyrisskapandi greina sem geta skapað arðbær störf. Við blasir að iðnaður og þjónusta verða að bera hitann og þungan af þessari uppbyggingu. Orkuauðlindir og hugvit þarf að virkja jöfnum höndum.

***

Gjaldeyrishöftin verður að afnema. Þau fæla frá fjárfesta og trufla eðlilegt fjárstreymi til og frá landinu. Þá brjóta þau í bága við grundavallarsjónarmið sem íslenska hagkerfið þarf að styðjast við og hefur skuldbundið sig til með EES-samningnum. Uppbygging verður ekki án stöðugleika í gengismálum. Stjórnvöld verða að setja fram trúverðuga leið í gjaldmiðilsmálum til skamms og langs tíma.

***

Hagsæld og velferð verður ekki tryggð á Íslandi án vaxtar og nýsköpunar. Vöxtinn þarf að sækja til atvinnustarfsemi sem skapar eins mikinn virðisauka og kostur er, greiðir góð laun og skapar þjóðarbúinu tekjur. Stóraukin skattheimta vinnur gegn þessum markmiðum.

***

Ísland hefur sótt um aðild að ESB og samningaviðræður hefjast innan skamms. Áríðandi er að samningaferlið verði opið og gagnsætt og kappkostað verði að ná niðurstöðu þar sem heildarhagsmunir bæði fólks og fyrirtækja verði hafðir að leiðarljósi.

***

Á liðnu ári hefur því miður orðið framhald á sundurlyndi og stefnuleysi stjórnmála­manna og stjórnvalda sem bera ábyrgð á verkstjórn og úrlausn ýmissa lykilþátta. Hér verður að gera bragarbót. Erfið verkefni krefjast samvinnu, festu og ábyrgðar.