• Helgi Magnússon á Iðnþingi 2010

Hagvöxtur er forsenda endurreisnar

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins sagði í ræðu sinni á Iðnþingi í dag að ein ástæða þess að svo illa gengi að endurreisa efnahag Íslendinga væri sú að hér á landi væru áhrifamikil öfl sem virðast vera á móti hagvexti. „Þessi öfl beita afli sínu gegn endurreisn atvinnulífsins vegna þess að þau telja að hag landsmanna verði betur borgið í framtíðinni án hagvaxtar. Þessi átök standa nú yfir á Íslandi. En við aðhyllumst ekki þetta sjónarmið,“ sagði Helgi.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins sagði í ræðu sinni á Iðnþingi í dag að ein ástæða þess að svo illa gengi að endurreisa efnahag Íslendinga væri sú að hér á landi væru áhrifamikil öfl sem virðast vera á móti hagvexti. „Þessi öfl beita afli sínu gegn endurreisn atvinnulífsins vegna þess að þau telja að hag landsmanna verði betur borgið í framtíðinni án hagvaxtar. Þessi átök standa nú yfir á Íslandi. En við aðhyllumst ekki þetta sjónarmið,“ sagði Helgi.

Formaðurinn lagði í ræðu sinni áherslu á að unnt væri að endurreisa efnahag landsins býsna hratt ef nægur stuðningur ráðandi afla fæst við skynsamlega hagvaxtastefnu sem hrint yrði í framkvæmd hið fyrsta án þess að gengið væri á svig við eðlilega náttúruverndarstefnu. „Unnt er að nefna fjölda tækifæra og verðmætaskapandi verkefna í iðnaði og öðrum atvinnugreinum sem geta lagt grunn að þeim hagvexti sem þarf til að lyfta okkur aftur upp í lífskjörum og kveða atvinnuleysið niður. En það þarf fleira að koma til s.s. endurreisn hugarfarsins. En það er ekki einfalt eða auðvelt verkefni. Engu að síður óhjákvæmilegt ef ekki á illa að fara“, sagði Helgi.

Ræða Helga Magnússonar.