• Katrín Júlíusdóttir á Iðnþingi 2010

Ávarp iðnaðarráherra á Iðnþingi 2010

Ávarp iðnaðarráðherra Katrínar Júlíusdóttur á Iðnþingi 4. mars 2010

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði m.a. á Iðnþingi í dag að fjármunum sem varið væri í aðildarumsókn að ESB væri vel varið. Skýrsla ESB um umsókn Íslands veiti okkur góða innsýn í okkar eigin mál og hvað betur megi fara. Mikil þörf sé á heilstæðri atvinnuþróunarstefnu.

Ágætu iðnþingsgestir!

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri sem ég fæ hér í dag til þess að ávarpa Iðnþing í fyrsta sinn sem ráðherra. Um leið vil ég þakka Samtökum iðnaðarins fyrir gott og frjótt samstarf sem snýst fyrst og fremst um atvinnuþróun á Íslandi næstu áratugi.

Þeir eru til sem halda því fram að þeim tíma og fjármunum sem varið er í undirbúning aðildarviðræðna að Evrópusambandinu sé illa varið. Ekkert er fjær sanni. Í þeim samanburði sem nú er gerður á löggjöf og stjórnarháttum á Íslandi við sameiginlegan rétt og reglur í Evrópusambandinu sést að við höfum gert margt vel á síðustu áratugum en um leið að við getum gert margt miklu betur á sviði hagstjórnar, efnahagsmála og stefnumótunar í atvinnumálum.    

Ísland fær almennt góða einkunn sem umsóknarríki í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Með álitinu fylgir ítarleg greiningarskýrsla á 90 síðum ásamt tölulegum viðauka. Hér er í rauninni um nýja Íslandslýsingu að ræða. Á greinargóðan hátt er farið yfir ótrúlega marga þætti í löggjöf og stjórnarháttum íslenska ríksins og samskiptum þess við umheiminn.

Í stuttu máli sagt er þessi lesning bæði fróðleg og upplífgandi. Hægt er að fá sig fullsaddan af svartagallsrausi úr þröngum sjónarhornum um ástand mála á Íslandi, og sé einhver búinn að fá nóg af því, ætti sá hinn sami að njóta hinnar víðu yfirsýnar sem er að finna í Íslandslýsingunni. Glöggt er gestaugað er sagt.

Hér er hins vegar fyrst og fremst byggt á svörum íslenskra embættismanna við spurningum ESB sl. haust sem svarað var fumlaust mitt í öllum öðrum önnum og erfiðleikum. Skýrslan sem nú liggur fyrir sýnir að þeim tíma og fjármunum sem í Íslandslýsinguna fór af okkar hálfu var vel varið vegna þess að yfirlitið skerpir vitundina um hvað þarf að gera og hvað ber að gera, hvort sem af aðild Islands af Evrópusambandinu verður eða ekki.     

Ein af niðurstöðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er sú að það stuðningskerfi atvinnuþróunar sem hér hefur verið byggt upp sé í meginatriðum á góðri leið og ekki um sérstakan aðlögunarvanda að ræða. Þetta er mikilvæg viðurkenning á starfi iðnaðarráðuneytisins síðustu tvo áratugi, þar sem markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu stofnana og sjóða á þessu sviði í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Samtök iðnaðarins sérstaklega. Hins vegar verðum við að þola það án þess að firrtast við þegar því er haldið fram að Ísland hafi hingað til ekki mótað sér heildstæða atvinnustefnu. En það hefur aldrei verið gert.

Við höfum að vísu sett saman margskonar áætlanir á liðnum árum en það vantar mikið á sameiginleg markmið og samstillingu þeirra. Ríkisstjórnin brást við þessari vöntun með því að setja af stað vinnuferli sem á að skila atvinnustefnu fyrir alla landshluta og landið í heild – undir heitinu Sóknaráætlun 20/20. Samhliða er unnið að hagrænni greiningu á möguleikum þess að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar næsta áratuginn. Fimm hópar, skipaðir sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnsýslu og háskólaumhverfinu, rýna í mælingar og gera tillögur til umbóta hver á sínu sviði. Þá hefur verið skipaður samráðshópur til þess að halda utan um vinnu við mótun atvinnustefnu. Honum er ætlað að hafa víðtækt samráð við ativnnulífið og félags- og hagsmunasamtök. Sóknarfæri hefðbundinna atvinnuvega verða skoðuð en mikil áhersla verður á ný tækifæri til sóknar. 

Á þessu iðningi er horft til framtíðar. Við viljum setja okkur metnaðarfull markmið en verðum um leið að vera reiðubúin til þess að gera breytingar til þess að ná þeim. Við verðum að hugsa upp á nýtt, átta okkur á þeim möguleikum sem við höfum og hvaða mikilvægar forsendur muni breytast á komandi árum. Aðeins þannig skapast grunnur að skýrri stefnu og með hana í hendi höfum við möguleika á að nýta okkur jákvæðar breytingar og sneiða hjá þeim sem eru okkur mótdrægar. Sóknaráætlun 20/20 er sameiginlegur vettvangur allra landsmanna til að ræða þessi mál og mynda sameiginlega stefnu.

Ekki vantar úrtölumenn sem telja að tímanum sé betur varið í annað en stefnumótunarvinnu þegar efiðleikar steðja að í efnahagslífi. Samt er það svo að skortur á heildarstefnu hefur oft komið okkur í koll og er vafalítið helsti Akkilesarhæll okkar þjóðfélags. Hugsanlega hefði okkur gengið betur að hemja útrás íslenska fjármálafyrirtækja, sem endaði með ósköpum, ef við hefðum fylgt skýrari stefnu með geirnegldum heildarmarkmiðum. Stefnumótun af þessu tagi mun því skila okkur áfram innan þess ramma sem við störfum í dag en er auk þess mikilvægur undirbúningur að Evrópusambandsaðild. Hún er til að mynda alger forsenda þess að við náuum sem mestu og bestu samstarfi við stoðkerfissjóði ESB en í því samstarfi felast gríðarlegir möguleikar í  nýsköpun um allt land. Samvinna við atvinnuþróunarsjóð ESB, félags- og mannauðssjóð og sjóði ESB í landbúnaði og sjávarútvegi er nýr akur sem gæti stóreflt samkeppnissjóði á Íslandi og allt stoðkerfi atvinnulífsins í umsóknarferlinu og ef til aðildar kæmi. Meginatriðið er að til séu vandaðar og vel rökstuddar áætlanir um efnahagslega uppbyggingu á Íslandi sem falla að markmiðum og verklagi Evrópusambandsins. Íslendingum hefur gengið vel að sækja í samkeppnissjóði í Evrópusamstarfinu og það mun ganga enn betur ef við undirbúum okkur vel í áætlunum um atvinnuþróun á næstu árum. 

Talið er að skapa þurfi 35 þúsund störf á næstu tíu árum eigi okkur að takast að vinna bug á atvinnuleysisbölinu, taka á móti þeim sem koma nýir inn á vinnumarkað og þeim sem vilja vinna lengur þótt þeir séu komnir á eftirlaunaaldur. Þetta verður ekki gert nema að allir leggist á eitt og við nýtum alla möguleika sem við eigum.

Verðmætasköpun og aukin fjölbreytni í atvinnulífinu er svarið. Við þurfum að efla útflutningsatvinnuvegina til þess að ná okkur sem fyrst upp úr lægðinni. En við þurfum að huga að fleiru. Það getur skapað okkur verulega hættu ef við ætlum að treysta á lágt gengi og gjaldeyrishöft til frambúðar. Það er jafn fölsk framtíðarsýn og blekkingin sem búin var til með

hágengis- og hávaxtastefnunni sem endaði með gengishruni og kaupmáttarhruni hjá almenningi. Lággengis- og haftastefna gæti gert úr Íslandi innilokað láglaunaland til langrar framtíðar sem væri ekki fært um að bjóða ungu fólki sambærileg kjör og annars staðar og dregið samtímis úr möguleikum atvinnuvega okkar til þess að standast alþjóðlega samkeppni til langframa. 

Nei, við hljótum að byggja framtíð okkar á menntun, rannsóknum og vísindum, og nýsköpun miða við það að hér verði til verðmæt störf þar sem við vinnum úr hugviti og hráefnum, afurðir sem eru ofar í virðiskeðjunni en verið hefur. Ekki þarf annað en að líta á það hvernig fjöldi starfa í landbúnaði og sjávarútvegi hefur þróast síðustu þrjátíu ár til þess að átta sig á því að þessar atvinnugreinar munu ekki standa undir fjölgun starfa eins og nauðsynlegt er á næstu árastugum að auka fjölbreytni. Þær verða okkur mikilvægar áfram og á þeim er hægt að byggja margvísleg ný tækifæri. En þær munu ekki dafna á því að draga sig inn í skel eða verjast allri samkeppni.

Það er ótrúlegur endurnýjunarkraftur í íslensku atvinulífi.

Störfum hefur fjölgað mjög að undanförnu í hátækni- og nýsköpunarfyrirtækjum. Lausleg könnun meðal nokkurra fyrirtækja auk upplýsinga frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands um fjölda starfa í frumkvöðlasetrum og með átakinu Starfsorku, leiðir í ljós að yfir 500 störf hafa orðið til frá því haustið 2008. Sama vísbending birtist í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands en þar fjölgar störfum í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi um 14% frá 4. ársfjórðungi 2008 til 4. ársfjórðungs 2009. Að jafnaði fækkaði almennum  störfum um 5 % á sam tíma. Leikjaiðnaðurinn hefur á síðust árum orðið að alvöru iðnaði á Íslandi. Í samtökum íslensks leikjaiðnaðar eru fyrirtæki með samtals 575 starfsmenn, þar af 311 á Íslandi. Hér eru ágætar aðstæður til þess að hanna leiki og vel menntað starfsfólk með frjótt ímyndunarafl og ríka frásagnarhefð sem er ein af verðmætustu auðlindum Íslands. Fjölbreytt störf í nýjum iðnaði og vöxtur er framundan.

Íslensk leikjafyrirtæki veltu rúmum 10 milljörðum árið 2009 og ekki þarf nema 18 slík fyrirtæki til þess að velta þeirra verði eins og hjá öllum áliðnaðinum. Blómlegur leikjaiðnaður er viðbót við íslenskt atvinnulíf og eykur fjölbreytileika þess. Í ýmiskonar menningariðnaði - tónlist, kvikmyndum, iðnhönnun og myndlist - eru fólgnir  álíka miklir og ónýttir sóknarmöguleikar. Um þessar mundir er einmitt að hefjast heildarúttekt á hagrænni þýðingu menningarstarfs sem eg vænti mikils af. 

Ný störf hjá þessum fyrirtækjum og hjá skapandi greinum gefa góða vísbendingu um þrótt atvinnulífsins og getu til að skapa störf á nýjum sviðum í stað þeirra sem kunna tapast í öðrum greinum vegna áherslu á fullvinnslu og háþróun framleiðslu ofar í virðiskeðjunni. Enn frekari vaxtar í nýsköpunargreinum er að vænta á þessu ári með innleiðingu laga um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar eða fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum – og vegna væntanlegra laga um ívilnanir vegna nýfjárrfestinga í íslensku atvinnulífi sem ætlunin er að afgreiða á vorþinginu. Þau eiga að koma í stað þeirra þunglamalegu og ósveigjanlegu fjárfestingasamninga sem tíðkast hafa.

Í iðnaðarráðuneytinu er nú unnið að stofnun Framkvæmdasjóðs ferðaþjónustunnar sem á að stuðla að uppbyggingu mannvirkja á ferðamannastöðum. Hugmyndin er að sjóðurinn verði fjármagnaður til framtíðar af ferðamálagjaldi. Í þeim tilgangi að sjóðurinn geti sem fyrst haft jákvæð áhrif á atvinnuþróunina er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir geti lagt honum til fé í upphafi sem síðan endurgreiðist af tekjustofni hans. Vonandi geta 500 – 700 milljónir króna orðið til ráðstöfunar úr þessum sjóði síðar á árinu. 

Við gerum ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi úr 500 þúsund á ári í 1 milljón á næstu tíu árum. Það er því ekki vanþörf á að byggja upp. Ég tilgreini þetta hér vegna þess að í slíkri uppbyggingu eru fólgin mörg tækifæri fyrir hönnuði, arkitekta, verkfræðinga og byggingaiðnaðinn þar sem vissulega hefur orðið mikill samdráttur. Við þurfum að byggja upp á fjölsóttum ferðamannastöðum, hanna nýja staði sem draga að sér ferðafólk og lengja ferðamannatímann með nýjum tilboðum eins og t.d. heilsu- og menningartengdri ferðaþjónustu sem verið er að þróa af miklum krafti um þessar mundir, m.a. af nýstofnuðum samtökum um heilsutengda ferðaþjónustu. Í F innlandi tókst mönnum í þeirri kreppu sem Finnar gengu í gegnum fyrir 20 árum að byggja upp vetrarferðamennsku sem nú slær út sumarvertíðina þar í landi. Þetta getum við gert líka.

Ferðaiðnaðurinn þrífst á því að gera fólki kleyft að sjá hið einstæða, sérstaka og fáséða og upplifa eitthvað sem er einstakt í þjónustu eða viðmóti. Hann getur því unnið á móti sjálfum sér ef áníðsla á umhverfi eða skortur á gæðum eða öryggi verður afleiðingin af mikilli aukningu á ferðamannastraumi. Því stendur fyrir dyrum yfirgripsmikil vinna við stefnumótun og áætlanagerð fyrir íslenska ferðaþjónustu sem er forsenda þess að vel fari.  

Ég á einnig von á því að frumvarp um Íslandsstofu, sem á að kynna landið með sterkari hætti og tengja saman alla þá sem fást við landkynningu og markaðsstarf, verði afgreitt sem lög frá Alþingi á næstu vikum. Mikið undirbúningsstarf hefur þegar verið unnið til þess að ný stofnun geti farið af stað með þrótti um mitt þetta ár.

Þessa dagana eru faghópar rammaáætlunar um nýtingu og verndun að hefja kynningu á niðurstöðum sínum. Það er mikið fagnaðarefni. Stefnt er að því að ljúka vinnu við rammaáætlun innan fárra vikna og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu fyrir þinglok í vor. Það er löngu kominn tími til þess að hætta stórdeilum um einstaka virkjunarkosti með tilvísun til þess að engin heildaráætlun sé fyrir hendi um verndun og nýtingu landsvæða. Ágreiningsmálum eða kostum sem ekki verða flokkaðir til verndunar eða nýtingar vegna ónógra upplýsinga eða rannsókna verður skipað í biðflokk sem er til frekari kostgæfni. Alþingi mun endanlega ákveða um verndnun eða mögulega nýtingu einstakra svæða. 

Með ákvörðun um gerð Rammaáætlunar byggði ríkisstjórnin á þeim ásetningi að verða í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Jafnframt er að því stefnt að ákveða hvaða svæði verða í framtíðinni tekin til ábyrgrar og sjálfbærrar orkunýtingar. Við þurfum að gera okkur mat úr þeirri gnægð sem Ísland býr yfir af endurnýjanlegri orku og koma okkur í þá aðstöðu að við getum boðið fyrirtækjum af ýmsum stærðum og gerðum sem eru háð orkunýtingu og menga lítið, tækifæri til þess að skapa nýjar útflutningsgreinar á Íslandi. Það er mikilvægt að hafa til reiðu orku þannig að við getum valið inn þá tegund iðnaðar sem við teljum að falli inn í græna orkuímynd landsins. Samhliða þessu er nú unnið að mótun orkustefnu sem ætlað er að ná utanum þau stóru verkefni sem framundan eru á orkusviðinu.  

Græna orkan er okkar stóra tromp. Og nýsköpun á sviði umhverfis- og orkutækni er vaxandi sproti hjá S.I.á að verða okkar helsta samkeppnisvopn á næstunni. Bæði austan hafs og vestan eru verkefni sem tengjast því að draga úr losun gróðurhúslofttegunda að fara á fulla ferð með miklum stuðningi stjórnvalda. Þarna eru á ferðinni ýmiskonar viðskiptatækifæri fyrir mörg ágæt fyrirtæki á Íslandi. Við getum bæði á alþjóðavettvangi og hér innanlands náð miklu meiri árangri en gert hefur verið með hagnýtingu á tækniþekkingu okkar.

Ég nefni hér tilraunir með nýja tegund lýsingar í gróðurhúsum sem gæti stórbætt samkeppnishæfni garðyrkunnar.

Ég nefni nýjar aðferðir til þess að stórbæta nýtingu á afli og orku jarðhitavirkjuna okkar með lághitavirkjunum sem geta skilað tugum megawatta og ég nefni orkuskipaáætlun sem byggir á því að við rekum öll okkar tól og tæki á innlendri grænni orku innan tíðar, kynning á næstunni.

Ég nefni möguleika til nýtingar lághita með varmadælum, úrvinnslu eldsneytis út útblæstri borhola og fjölgun heilsulinda við heita áningarstaði.  

Og ég nefni iðngarða í tengslum við helstu jarðhitavirkjanir okkar þar sem hægt er að nýta jarðhitann í umhverfisvænar efnaverksmiðjur eða stórframleiðslu á grænmeti til útflutnings.

Fylgst er grannt með djúpborunarverkefni okkar um allan heim og það mun skila okkur nýrri og dýrmætri þekkingu. Hér er ekki bara um það að ræða að nýta betur okkar orku heldur að þróa tækniþekkingu og lausnir sem verða að mikilvægri útflutningsvöru.  

Góðir áheyrendur!

Ég hef valið að líta hér vítt yfir sviðið í stað þess að horfa þröngt á iðnaðarmálefni. Það er engin tilviljun og ég veit að þannig horfa Samtök iðnaðarins á málin. Að mínu viti eru grundvallarverkefni allra atvinnuvega á Íslandi hin sömu. Allstaðar þurfum við að marka skýra stefnu um aukna verðmætasköpun og meiri virðisauka af starfseminni og störfunum.

Rannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun eru alls staðar hornsteinarnir sem byggja verður á. Þörfin á heildstæðri atvinnustefnu fyrir landið og samstæðum verkefnaáætlunum í einstökum atvinnugreinum blasir við. Það er vegna þessara meginviðhorfa sem ríkisstjórnin hefur uppi áform um að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt. Sundurgreining á stjórnsýslu og stefnumótun fyrir atvinnuvegina er úrelt vegna þess að viðfangsefnið er sameiginlegt þeim öllum.  

Við Íslendingar höfum gengið inn í hreinsunareldinn. Við höfum þegar gripið til harkalegs niðurskurðar og hækkað skatta til þess að rétta við skuldir ríkissjóðs. Við höfum gert upp gömlu bankana í sátt við lánadrottna þeirra og komið þeim í starfhæft form. Við erum að gera upp við orsakir bankahrunsins á vettvangi Alþingis og dómstóla. Við eygjum möguleika til þess að byrja upp á nýtt með hreint borð. Aðrar þjóðir eru vart byrjaðir að gera upp sínar syndir þótt auljóst sé að það mun reynast óhjákvæmilegt. Við getum því vænst endurlausnar úr viðjum kreppunnar ef við verðum nógu staðföst í því að takast á við þá áraun sem hreinsunareldurinn mun reynast okkur á þessu ári og fram á næsta ár.  

Endurreisn efnahagslífsins er sérlega erfið af því Ísland á ekki aðeins í fjármálakreppu líkt og fjöldi hagkerfa heldur einnig alvarlegri gjaldeyriskreppu sem haldið er í skefjum með víðtækum höftum.

Þessi „tvíburakreppa“ eins og Seðlabankinn kallar hana gerir viðbrögð stjórnvalda erfiðari. Það er afar mikilvægt að hægt verið að halda áfram að byggja upp traust á íslenska hagkerfinu, eins og var að takast á síðari hluta ársins sem leið, áður en Icesave ferlið fór aftur í strand. Við eigum mikið undir því að áætlunin um endurreisn efnahagslífisns sem unnin var í samvinnu við AGS nái fram að ganga. Við verðum að geta fjármagnað uppbyggingu og endurfjármagnað lán opinberra aðila og orkufyrirtækja á kjörum sem ekki flytja arðinn úr landi.

Brýnasta viðfangsefnið um þessar mundir er að koma stórum verkum og smáum á skrið fyrir vorið til þess að bæta atvinnuástandið.  Hvort sem það eru viðhaldsverkefni um land allt eða virkjanir. Ég tel að við eigum að leggja allt kapp á að ýta undir beina erlenda fjárfestingu í þau stórverkefni sem framundan eru enda búum við nú við löggjöf sem tryggir vatnsauðlindirnar og veiturnar hjá ríki og bæjarfélögum en heimilar einkafjármagn í orköflun og orkusölu. Ég geri ekki greinarmun a innlendri og erlendri fjárfestingu heldur aðeins á traustum fjárfestum og ótraustum. Að mínum dómi ættum við að taka nýju orkulögin til fyrirmyndar gagnvart annarri auðlindanýtingu í landinu.

Vondu fréttirnar eru þessar: Fjárfesting dróst saman um helming á Íslandi á sl. ári og um 39% á heimsvísu. Atvinnuleysi mun verða okkar helsta böl  á Íslandi næstu misseri komi ekki til nýrra fjárfestinga.  Góðu fréttirnar eru að það er rúm fyrir stórframkvæmdir í hagkerfinu á næstu misserum án þess að þær þurfi að ryðja burt sprotum og nýskapandi starfsemi. Hér því lag sem við þurfum að hagnýta okkur:

Til að byggja fjölbreyttara atvinnulíf, skynsamara Ísland og sterkara Ísland.

Þökk fyrir