• Jón Sigurðsson forstjóri Össurar á Iðnþingi 2010

Skýra stefnumörkun og forystu

Jón Sigurðsson á Iðnþingi 2010

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar lagði í ávarpi sínu á Iðnþingi í dag áherslu á að nú þyrfti að hætta hausaveiðum og fortíðarhyggju og huga að framtíðinni. Það væru því miður engar patentlausnir á þeim vanda sem við er að etja heldur þyrfti skýra stefnumörkum og forystu til að hér geti áfram þrifist kröftugt atvinnulíf

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði í ræðu sinni á Iðnþingi í dag að Íslenska efnahagsumgjörðin hafi hingað til einkennst af því að hér voru stuttar boðleiðir, mikill sveigjanleiki og tiltölulega lítt íþyngjandi eftirlitsstofnanir. Aðlögunarhæfni atvinnulífsins var mikil en myntin okkar örlítil. Þetta umhverfi stuðlaði að alvarlegri fjármála- og efnahagskreppu. Ríkissjóður er stórskuldugur og orðspor okkar hefur beðið mikla hnekki. Atvinnuleysi er ógnvænlegt og nauðsynlegt að skapa skilyrði til að draga úr því. „En því miður hefur okkar háttur verið sá að redda okkur út úr vandamálum frekar en að sveigja framhjá þeim. Nú þarf nauðsynlega að breyta um farveg. Hagkerfið er nánast lokað og ég óttast að þarna vilji sumir vera.“

Jón lagði áherslu á að nú þyrfti að hætta hausaveiðum og fortíðarhyggju og huga að framtíðinni. „Það eru því miður engar patentlausnir á þeim vanda sem við er að etja. Við þurfum á skýrri stefnumörkum og forystu að halda til að hér geti áfram þrifist kröftugt atvinnulíf.“ Jón sagði jafnframt að aðild að ESB gæti fært okkur bætta stöðu í alþjóðsamfélaginu og betri starfsskilyrði. Hann bætti við að nauðsynlegt væri að róa öllum árum að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Glærur Jóns

Myndband með því helsta úr ræðu Jóns