Fréttasafn



15. jan. 2021 Almennar fréttir Nýsköpun

Aukning í útgjöldum til R&Þ er fagnaðarefni

Ísland hefur á síðustu árum bætt stöðu sína talsvert hvað varðar rannsóknar- og þróunarstarf (R&Þ). Heildarútgjöld til R&Þ voru árið 2019 2,35% af landsframleiðslu (VLF) sem er hæsta hlutfall sem mælst hefur hér á landi þ.e. síðan árið 2013, skv. Hagstofu Íslands. Ísland hefur ekki einungis bætt sig í söguleg ljósi heldur einnig í alþjóðlegum samanburði en hlutfallið er nú yfir meðaltali ESB ríkjanna svo dæmi sé tekið en það er 2,14%. Hlutfallið er þó hærra í ýmsum nálægum löndum, s.s. Finnlandi, Belgíu, Danmörk, Þýskalandi, Austurríki og Svíþjóð samkvæmt nýjustu gögnum hagstofu Evrópusambandsins, EUROSTAT. Markmiðið er að þetta hlutfall verði orðið 3% í Evrópu árið 2020. Að mati Samtaka iðnaðarins er hækkandi hlutfall R&Þ af VLF Íslands fagnaðarefni.

Stefna á 3% af VLF árið 2024

Það er litið svo á rannsóknir og þróun séu lykilþættir í nýsköpun og skiptir því verulegu máli í starfsemi tækni- og hugverkaiðnaðar. Með R&Þ er fjárfest í tækni og hæfni sem elur af sér nýjar vörur og þjónustu. R&Þ er grundvöllur framleiðnivaxtar og samkeppnishæfni einstakra fyrirtæka og atvinnulífsins alls. Með fjárfestingu í R&Þ er fjárfest í hagvexti framtíðarinnar til hagsbóta fyrir samfélagið.

Stefna Vísinda- og tækniráðs er að útgjöld til R&Þ nemi 3% af VLF árið 2024 og er Ísland því enn nokkuð frá því að ná því en nálgast.

Fyrirtæki með stærstan hluta R&Þ

Í heild námu útgjöld til R&Þ 70,8 mö.kr. árið 2019. Skiptast heildarútgjöldin þannig að útgjöld fyrirtækja og sjálfseignastofnana eru 48,7 ma.kr., útgjöld háskólastofnana 19,9 ma.kr. og heildarútgjöld annarra opinberra stofnana 2,3 ma.kr. Fyrirtæki eru því afgerandi stærst í rannsóknum og þróun hér á landi. 

Utgjold-til-rannsokna-og-throunarstarfs-Mynd-004-