Fréttasafn24. okt. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Engin úrræði til að stöðva ólögmæta iðnstarfsemi

Eftirfylgni opinberra aðila með lögunum hefur verið með öllu óásættanleg undanfarin ár. Ekkert opinbert eftirlit hefur verið til staðar í þeim tilgangi að hlúa að löggiltum iðngreinum hér á landi og neytendur hlotið skaða af. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til einföldunar regluverks sem sent hefur verið í Samráðsgátt. Þar segir jafnframt að eftirlitið hafi þess í stað færst yfir á markaðinn sem hafi eins og stendur fá sem engin úrræði til að stöðva ólögmæta starfsemi ófaglærðra í löggiltum iðngreinum. Samtökin hafi t.d. ítrekað sjálf kært ófaglærða aðila sem gengið hafa inn á svið löggiltra iðngreina til lögreglu en málin gangi hægt og niðurstöður engar. Þá sé einnig nauðsynlegt að endurskoða sektarfjárhæðir við brotum á iðnaðarlögum og búa til sektaramma sem felur í sér raunverulega refsingu við brotum á lögunum.

Í umsögninni kemur fram að samtökin mótmæli því að fella brott heimild til að sekta aðila sem reki iðnað án þess að hafa leyfi eða leyfir öðrum að reka iðnað í skjóli síns leyfis. Leiði breytingin að því að iðnaðarleyfi séu lögð af þar sem verið sé að fella niður sektarákvæði við rekstri án tilskilinna leyfa, m.a. meistarabréfa. Samtökin leggja því til að í stað orðsins „iðnaður” í tiltekinni grein laganna komi orðið „handiðnaður“.

Í niðurlagi umsagnarinnar segir að samtökin ítreki ánægju sína með tilgang frumvarpsins sem byggi á einföldun regluverks. 

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.