Fréttasafn14. des. 2018 Almennar fréttir Menntun

Gríðarlegur skortur á fólki með hæfni í verklegum greinum

Nú þegar er orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Með öðrum orðum þá er gríðarlegur skortur á fólki með hæfni og þekkingu á verklegum greinum. Það hefur að undanförnu reynst erfitt fyrir fyrirtæki að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og því er mikilvægt að fjölga þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins. Þetta kemur meðal annars fram í grein Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, sem birt er í tímaritinu Sjávarafl en yfirskrift greinarinnar er Horfum til framtíðar í menntamálum.

Í greininni segir Guðrún að breytingar á menntakerfinu séu nauðsynlegar til að mæta þeirri öru þróun sem þegar sjást merki um í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Það blasi við að slikum breytingum verði ekki mætt nema með nýrri nálgun og umbótum á kerfinu eins og við þekkjum það í dag. Breytingarnar snúist ekki um aukið fjármagn heldur nýjar áherslur og skýrari stefnu í menntamálum þar sem horft er til framtíðar. Hún segir að þróun í menntamálum endurspegli ekki þann hraða sem er í þróun og þörfum atvinnulífsins. 

Þá kemur fram í greininni að starfsnám hér á landi eigi undir högg að sækja en aðeins hafi verið um 32% nemenda í framhaldsskólanámi sem sóttu starfsnám á árinu 2015 en hlutfallið sé að meðaltali 47% innan ESB. Hún segir að fyrir íslenskan sjávarútveg sé lífsnauðsynlegt að eðlileg fjölgun og endurnýjun eigi sér stað í iðngreinunum. Íslenskur sjávarútvegur hafi vaxið og dafnað vegna þess að hér á landi hafi sjávarútvegurinn haft aðgengi að mjög hæfu iðn- og tæknimenntuðu fólki.

Hér er hægt að lesa tímaritið í heild sinni. Grein Guðrúnar er á bls. 22. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.