Fréttasafn



30. maí 2016 Iðnaður og hugverk

Kvikmyndaframleiðsla er hörku menningariðnaður

Kvikmyndaframleiðsla er hörku menningariðnaður! var yfirskrift málþings Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og Samtaka iðnaðarins sem haldið var í Gamla bíói 26. maí. Á málþinginu var farið yfir jákvæða þróun kvikmyndaiðnaðarins hér á landi og fjallað um fjármála- og tryggingaþjónustu í kvikmyndagreininni með áherslu á alþjóðlegar lausnir fyrir íslenskan markað. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, stýrði málþinginu og erindi fluttu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs hjá SA, Guðný Guðjónsdóttir, forstjóri Sagafilm, Per Neumann, forstjóri European Film Bonds, sem fjallaði um framboð á tryggingum í tengslum við fjármögnun kvikmynda og Mads Peter Ole Olsen, forstöðumaður Norðurlandadeildar franska bankans Natixis Coficíné, sem fjallaði um fjármögnun og lán vegna kvikmynda.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hjá Samtökum atvinnulífsins og fyrrverandi ráðherra málaflokksins opnaði málþingið. Fagnaði hún því sérstaklega að sjá kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi þróast og verða að öflugri atvinnugrein.

Guðný Guðjónsdóttir forstjóri Sagafilm kynnti hagtölur í greininni. Í máli hennar kom m.a. fram að heildarvelta á kvikmyndamynduðu efni frá árinu 2009 til 2015 var yfir 70 milljarðar króna og hefur vaxið hratt undanfarin ár. Á árinu 2015 unnu íslenskar kvikmyndir til 109 viðurkenninga á alþjóðlegum vettvangi. Þá kom fram að hjá norrænum félögum okkar er að meðaltali 50% hærri framlög með hverju kvikmyndaverki en hérlendis en opinber stuðningur var 11% sé miðað við árin 2011 til 2015 af veltu á kvikmynduðu efni. Þá fagnaði Guðný frumvarpi um hækkun á endurgreiðslu til kvikmyndaiðnaðar í 25% en allt útlit er fyrir að það verði samþykkt á næstu dögum.

Per Neuman forstjóri European Film Bonds kynnti „verklokatryggingu“ sem fyrirtæki hans býður kvikmyndaframleiðendum í nokkrum löndum. Verklokatrygging byggir á greiningu áhættu og skipulegum verkferlum sem hafa þann tilgang að lágmarka áhættu. Framleiðendafyrirtækin gangast þannig undir ýmsar skuldbindingar er varða framvindu verksins. Fyrsta verklokatrygging framleiðslufyrirtækjanna getur oft reynt mikið á en að öllu jöfnu skilar það sér í hagstæðari lánakjörum og agaðri vinnubrögðum til lengri tíma.

Mads Olsen frá Norðurlandadeild franska bankans Natixix Coficíné kynnti hvernig þeir meta áhættu og á hvaða forsendum þeir lána til kvikmyndagerðar, jafnt fjárstreymisfjármögnun og í brúarlán. Þeirra fyrirgreiðsla byggir á sérfræðiþekkingu á greininni sem er forsenda slíkra viðskipta. Það mætti hvetja íslenska banka til að leita samstarfs við slíkan aðila til að draga úr lánaáhættu sinni í framleiðsluhluta kvikmyndagreinarinnar sem hefur velt yfir 70 milljörðum frá 2009.