Fréttasafn16. des. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Ríkið þarf meiri skattheimtu, niðurskurð eða hagvöxt

„Það er ekki bara skuldahlutfallið sem við þurfum að huga að heldur einnig vaxtakjörin, sem eru lakari en í mörgum samanburðarríkjum. Aukning skulda leggst því þyngra á íslenska ríkið sem þarf meiri skattheimtu, niðurskurð eða hagvöxt til að grynnka á skuldum í framtíðinni,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í Markaðnum þar sem fjallað er um vaxtabyrði ríkissjóðs og skuldabréfamarkað. Ingólfur segir: „Við þurfum að fara mjög varlega í þessu.“

Þarf að vinna gegn vaxtahækkunum

Ingólfur nefnir að skuldastaða ríkissjóðs hafi verið góð fyrir og jákvætt sé að ríkissjóður sé að beita sér með virkum hætti til að vinna á móti niðursveiflunni. „Það má kannski líkja þessu við bólusetningu að því leyti að hækkun langtímavaxta hefur verið neikvæð hliðarverkun af jákvæðri aðgerð. Við þurfum þó að vinna gegn vaxtahækkunum að því marki sem hægt er og stjórnvöld hafa tækin til þess.“

Peningunum varið til að skapa grundvöll fyrir aukna verðmætasköpun og fjölgun starfa

Í umfjöllun Markaðarins er haft eftir Ingólfi að í ljósi þess að hið opinbera horfi fram á meiri hallarekstur á verri lánskjörum en flest önnur samanburðarríki sé mikilvægt að verja fjármunum með skynsamlegum hætti. Hann segir Samtök iðnaðarins nokkuð ánægð með forgangsröðun sem birtist í fjárlögum ríkissjóðs. „Forgangsröðunin hefur verið á þætti eins og nýsköpun, innviði, menntun og bætt starfsumhverfi fyrirtækja. Áherslan hefur verið á þessa þætti sem skipta mestu fyrir framleiðni og samkeppnishæfni. Við höfum verið ánægð með þessar áherslur þó svo að alltaf megi hnika einhverju til. Það skiptir máli hvernig peningunum er varið, það er að segja að þeim sé ekki sóað í verkefni sem engum eða litlum ávinningi skila, heldur varið í að skapa grundvöll fyrir aukinni verðmætasköpun og fjölgun starfa.“ 

Áhyggjur að sveitarfélögin standi ekki við öll loforðin

Ingólfur segir hins vegar að ekki sé á vísan að róa með þátt sveitarfélaga. „Sveitarfélögin hafa mörg hver boðað aðgerðir sem hafa verið í anda þess sem ríkið hefur boðað. Til dæmis boðuðu mörg þeirra auknar innviðafjárfestingar sem mótvægisaðgerð við efnahagsáfalli faraldursins. Við eigum eftir að sjá hvernig efndirnar verða. Ég hef að vissu leyti áhyggjur af því að sveitarfélögin standi ekki öll við þessi loforð.“

Í umfjölluninni er einnig rætt við forstöðumann skuldabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, og formann Landssamtaka lífeyrissjóða. 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 16. desember 2020.