Fréttasafn  • Rusl

8. jan. 2016 Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Skert samkeppnisstaða á endurvinnslumarkaði

,,Meðvitaður neytandi spáir í uppruna, neyslu og nú í auknum mæli í  förgun. Þessi þróun er að eiga sér stað alls staðar í heiminum, ekki bara hér. Það skýtur því skökku við að borgin sé með skekkta samkeppnisstöðu á markaði og sé að reyna að kljást við alla þessa þjónustu í samkeppni við einkaaðila undir röngum formerkjum. Það hefur víðsvegar sannað sig að minni ríkisafskipti og meiri samkeppni býr til heilbrigðara samkeppnisumhverfi öllum til bóta. Einkaaðilar eru að bjóða fjölbreytta þjónustu á samkeppnishæfum verðum og er það að mínu mati rétt verklag að kraftar þeirra séu nýttir eða hið minnsta að borgin starfi á jafnræðisgrundvelli við fyrirtækin. Núverandi fyrirkomulag er á skjön við tilmæli ríkisskattstjóra og án efa á skjön við vilja almennings  sem því miður endar svo á því að þurfa að borga brúsann. Á sama tíma og við erum að reyna að gera landið samkeppnishæft verðum við að búa til hvata í kerfinu til að minnka ríkisafskipti og bjóða samkeppnishæf verð.“ segir Bryndís Skúladóttir forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs Samtaka iðnaðarins.

En þess má geta að Samtök iðnaðarins fagna því að í Reykjavíkurborg sé nú aukin flokkun á úrgangi frá heimilum en vilja jafnframt hvetja borgina til að minnka afskipti sín af þessum rekstri og jafna stöðuna á markaðnum, með því að bjóða ekki þjónustu án virðisauka, á meðan aðrir þurfa að standa skil á skatti í þessum iðnaði. Reykjavíkurborg er í beinni samkeppni við einkaðila um söfnun á endurvinnsluúrgangi en hefur forskot því hún innheimtir ekki virðisaukaskatt af þeirri þjónustu, þrátt fyrir að hafa fengið tilmæli frá ríkisskattstjóra um að greiða skuli virðisaukaskatt. Hér er um skerta samkeppnisstöðu að ræða og telja Samtök iðnaðarins að borgin eigi að gæta jafnræðis og horfa til þess að jafna samkeppnisstöðu allra aðila á þessum markaði.

Borgin býður nú, auk tunnu fyrir blandaðan úrgang, tvær endurvinnslutunnur, aðra fyrir plast og hina fyrir pappír og pappa. Íbúum borgarinnar er þó frjálst að skipta við einkaaðila sem bjóða eina endurvinnslutunnu sem tekur til jafnmargra eða fleiri flokka úrgangs. Hvergi er minnst á þennan möguleika í kynningarefni Reykjavíkurborgar varðandi lausnir við söfnun endurvinnsluefna, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi beint slíkum tilmælum borgarinnar í áliti sínu (álit nr. 1/2014). Nú þegar breytingar eru gerðar á þjónustu borgarinnar ættu borgaryfirvöld að fá einkaaðila að borðinu, hvetja til samkeppni og nýsköpunar. Dæmin sanna að bæði rekstraraðilar og sveitarfélög hafa með góðu samstarfi náð árangri við að lækka kostnað, auka endurvinnslu og vitundarvakningu almennings. Þetta hefur m.a. verið gert með því að bjóða út verkefni á öllum sviðum úrgangsmeðhöndlunar og endurvinnslu sem og með samvinnu um þróun nýrra lausna. 

Fjölmörg fyrirtæki starfa við söfnun, móttöku og endurvinnslu og hafa fulla burði til að sinna þessum verkefnum. Fyrirtækin reka móttökustöðvar, forvinna úrgang til endurvinnslu, flytja út og versla með endurvinnsluefni. Frekari uppbygging á starfsemi borgarinnar á þessu sviði í beinni samkeppni við einkaaðila er því óþörf. Nú þegar sinna einkaaðilar þessum verkefnum frá upphafi til enda fyrir atvinnurekendur í borginni og fyrir stærri og smærri sveitarfélög um allt land. Borgin getur notað þetta tækifæri til að stuðla að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu og stutt við nýsköpun og þróun.

Sjá umfjöllun á Stöð 2 í gær