Fréttasafn18. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Stýrivaxtahækkanir skila sér hægt til fyrirtækja og almennings

„Það hefur vakið athygli hversu hægt stýrivaxtalækkanir skila sér til fyrirtækjanna og almennings í landinu og ýmsar skýringar verið gefnar á því. Nú þegar búið er að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann ætti stofnunin að vera enn betur í stakk búin til að skoða þessi mál sérstaklega og ráðast í viðeigandi aðgerðir. Við höfum saknað þess að sjá ekki aðgerðir í þá veru né heldur greiningar á því til hvaða aðgerða bankinn sér fyrir sér að grípa þurfi til svo að brúa megi þetta bil,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að Morgunblaðið hafi greint frá því í síðustu viku að vaxtakjör bankanna hafi ekki þróast í takt við vaxtalækkanir Seðlabankans og á meðan stýrivextir hafa lækkað um 2,75% frá miðju síðasta ári hafa kjörvextir Arion banka, Landsbanka og Íslandsbanka lækkað um 1,2 til 1,65%. Bankarnir hafa m.a. veitt þá skýringu að fjármögnun þeirra sé fjölbreytt og fylgi því stýrivöxtum aðeins að hluta, auk þess sem álag á kjörvexti verði að taka mið af rekstrarkostnaði, væntu útlánatapi og kostnaði vegna bindingar á eigin fé. 

Mikið hagsmunamál að bankakerfið sé skilvirkt

Árni segir í samtali við Ásgeir afar óheppilegt að lækkun stýrivaxta skili sér ekki betur til atvinnulífs og almennings, enda um að ræða eina af þeim lykilbreytum sem miði að því að örva hagkerfið og vega upp á móti kólnun hagkerfisins sem hófst þegar á síðasta ári og hefur versnað vegna kórónuveirufaraldursins. „Það er mikið hagsmunamál fyrir landsmenn alla, og fyrirtækin, að bankakerfið sé skilvirkt og að aðgerðir og ákvarðanir Seðlabankans skili sér alla leið.“ Hann bætir við að það sé brýnt verkefni að freista þess að fækka þeim kvöðum, hindrunum og óvissuþáttum sem bankarnir hafa vísað til og að stigin hafi verið skref í rétta átt í ársbyrjun þegar bankaskattur var lækkaður. „Sú lækkun og aðrar tilslakanir í garð bankanna hafa ekki dugað til að breyta þessari stöðu, sem er miður. Sá kostnaður og vandkvæði sem bent hefur verið á að fylgi innleiðingu evrópskra reglna, sem ekki þykja nægilega vel sniðnar að litlu hagkerfi eins og því íslenska, eru óhjákvæmilegur hluti af rekstrarmódeli fjármálafyrirtækja í dag. Allt það sem íþyngir bönkunum smitar óhjákvæmilega frá sér á alla liði í keðjunni; fyrst til fyrirtækjanna og svo til viðskiptavina þeirra og starfsmanna. Á sama tíma þýðir mikill munur á vaxtakjörum á Íslandi og í helstu samanburðarlöndum að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja er lakari sem því nemur. Það er óþolandi staða, ekki síst á tímum sem þessum þegar skuldsetning fyrirtækja og vaxtagreiðslur geta skilið á milli feigs og ófeigs.“ 

Viðspyrnan er þegar hafin 

Þegar Ásgeir spyr Árna um framtíðarhorfur íslensks atvinnulífs og efnahagsleg inngrip stjórnvalda vegna veirufaraldursins kveðst Árni vera bjartsýnn og segir hann hægt að greina að viðspyrnan sé þegar hafin. „Verslun og þjónusta hefur að einhverju leyti þegar tekið við sér frá lágpunktinum í miðju samkomubanni en stóra áhyggjuefnið er hvort takast muni að halda atvinnuleysi í skefjum. Okkar bíða mörg erfið úrlausnarefni en með réttum aðgerðum gætum við lágmarkað skaðann næsta vetur, þó svo að hann geti reynst erfiður.“ 

Árni segir í samtali við Ásgeir að eftir því sem líður á árið gætu sértækar aðgerðir þurft að víkja fyrir almennum örvunaraðgerðum sem myndu þá t.d. felast í því að létta ýmsum byrðum af fyrirtækjum svo þau eigi auðveldara með að vernda störf og jafnvel bæta við sig fólki. „Þungir gjaldabaggar hvíla á atvinnulífinu og myndu lægri skattar og lækkun tryggingagjalds hjálpa bæði til að vinna bug á atvinnuleysi og gera viðspyrnuna enn kröftugri.“ Þá kemur fram að Árni minni jafnframt á að þó svo að daglegur rekstur íslenskra fyrirtækja sé óðara að komast aftur í eðlilegt horf þá muni íslensk útflutningsfyrirtæki mörg finna fyrir því að erlendir markaðir hafa skroppið saman. „Veitingahúsabransinn hefur farið illa út úr veirufaraldrinum og fyrir vikið hefur sala á ferskum íslenskum fiski snarminnkað. Eftirspurn eftir áli hefur einnig dregist saman, og álverð farið lækkandi. Vonir okkar standa þó til kröftugrar viðspyrnu á þessum mörkuðum sömuleiðis, en rétt eins og annars staðar er óvissan enn mikil.“ 

Móta atvinnustefnu fyrir Ísland

Þá skrifar Ásgeir að það væri upplagt, að mati Árna, að atvinnulífið og stjórnvöld notuðu tækifærið til að líta inn á við, sjá hvar fyrirtækin í landinu standa og hvert þau ættu að taka stefnuna. „Brátt mun gefast ráðrúm til að ræða málin og móta heildstæða atvinnustefnu fyrir Ísland. Hluti af þeirri vinnu væri að huga betur að atvinnugreinum sem hafa ekki fengið mikla athygli en búa yfir miklum tækifærum, því það er lífsspursmál fyrir okkur sem þjóð að renna enn fleiri stoðum undir hagkerfið.“

Morgunblaðið / mbl.is, 18. maí 2020.