Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins

Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins var stofnaður árið 2016 í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði með áherslu á verkefni sem lúta að: 

  • Eflingu menntunar fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám.
  • Nýsköpun sem styrkir framþróun í iðnaði.
  • Framleiðniaukningu með áherslu á skilvirkt rekstrarumhverfi.

Við mat á verkefnum og umsóknum eru eftirfarandi þættir hafðir að leiðarljósi:

  • Að verkefni samræmist vel þeim markmiðum sem sett eru fram varðandi tilgang sjóðsins.
  • Að gengið hafi verið frá öðrum mögulegum óvissuþáttum varðandi framkvæmd verkefnis og að stuðningur hlutaðeigandi aðila sé til staðar.
  • Að verkefnið sé tímabundið og að leiða megi líkur að því að árangur náist með framkvæmd þess hluta sem fjármagnaður er með styrkumsókn eða að sjálfbærni hafi verið tryggð.
  • Að verkefnið komi ekki illa við eða vinni gegn hagsmunum hópa eða greina innan SI.
  • Að verkefnið vinni ekki gegn hagsmunum félagsmanna SI eða leiði af sér skekkta samkeppnisstöðu.
  • Að framlag úr Framfarasjóði sé raunverulegur áhrifavaldur hvað það varðar að verkefnið komist í framkvæmd.
  • Að verkefnin styðji við þær áherslur sem SI vinna að samkvæmt stefnumótun hverju sinni. 
  • Sérstaklega er horft til verkefna sem geta verið fordæmisgefandi, haft yfirfærslugildi eða hafa víðtæka skírskotun.

Umsóknir á að senda á netfangið mottaka@si.is en með umsókn þarf að fylgja greinagóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og með hvaða hætti verkefnið samræmist markmiðum og leiðarljósum sjóðsins. Þá þarf að fylgja með verkáætlun, fjárhagsáætlun og staðfesting á annarri fjármögnun ef það á við. Með umsóknum þarf að fylgja staðfesting á því að umsækjendur hafi kynnt sér úthlutunarreglur sjóðsins og þá fyrirvara sem þar koma fram.

Fyrirspurnir er hægt að senda á mottaka@si.is.

Úthlutanir

Auglýsing 2022

Auglysing-2022_loka


Úthlutunarreglur

Umsóknir og úthlutanir

Alltaf er opið fyrir skil á umsóknum í sjóðinn skv. nánari upplýsingum á heimasíðu SI en einu sinni á ári er auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Tvisvar á ári, í febrúar og í september, fundar stjórn sjóðsins og fer þá yfir fyrirliggjandi umsóknir sem hafa borist á þeim tíma. Formlega er tilkynnt um ákvarðanir og styrkir afhentir með formlegum hætti, t.d. í tengslum við Iðnþing SI ár hvert.

Mat á verkefnum og umsóknum

Samkvæmt skipulagsskrá Framfarasjóðs Samtaka iðnaðarins skal miða við að styrkirnir renni til verkefna sem styðja við eftirfarandi markmið:

  1. Efling menntunar fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám.

  2. Nýsköpun sem styrkir framþróun í iðnaði.

  3. Framleiðniaukning með áherslu á skilvirkt rekstrarumhverfi.

Matsnefnd

Stjórn AKKS SI skipar dómnefnd Framfarasjóðsins. Dómnefnd fundar tvisvar sinnum á ári þar sem formlegar ákvarðanir eru teknar en getur þess á milli veitt vilyrði varðandi styrki ef brýn nauðsyn er talin til. Dómnefnd skipar, í upphafi hvers árs, tvo fagaðila í samráði við stjórn SI til að rýna verkefni og vera dómnefnd ráðgefandi í mati á verkefnum.

Ákvörðun um árlega úthlutunarfjárhæð hverju sinni er tekin af stjórn SI sem skal upplýsa stjórn AKKS SI um umfang styrkveitinga.

Stjórn sjóðsins getur átt frumkvæði að verkefnum að því gefnu að þau falli vel að markmiðum sjóðsins og úthlutunarviðmiðum.

Viðmið og áherslur í mati á umsóknum

Við mat á umsóknum skal m.a. horft til eftirfarandi þátta:

  • Að verkefni samræmist vel þeim markmiðum sem sett eru fram varðandi tilgang sjóðsins í skipulagsskrá.

  • Að gengið hafi verið frá öðrum mögulegum óvissuþáttum varðandi framkvæmd verkefnis og að stuðningur hlutaðeigandi aðila sé til staðar.

  • Að verkefnið sé tímabundið og að leiða megi líkur að því að árangur náist með framkvæmd þess hluta sem fjármagnaður er með styrkumsókn eða að sjálfbærni hafi verið tryggð.

  • Að verkefnið komi ekki illa við eða vinni gegn hagsmunum hópa eða greina innan SI.

  • Að verkefnið vinni ekki gegn hagsmunum félagsmanna SI eða leiði af sér skekkta samkeppnisstöðu.

  • Að framlag úr Framfarasjóði sé raunverulegur áhrifavaldur hvað það varðar að verkefnið komist í framkvæmd.

  • Að verkefnin styðji við þær áherslur sem SI vinna að samkvæmt stefnumótun hverju sinni.

  • Sérstaklega er horft til verkefna sem geta verið fordæmisgefandi, haft yfirfærslugildi eða hafa víðtæka skírskotun.

Kynning á sjóðnum og upplýsingar um verkefni

Upplýsingasíða sjóðsins verður tengd heimasíðu SI. Þar munu koma fram upplýsingar um hvar og hvernig má skila umsóknum og hvenær dómnefnd tekur næst fyrir fyrirliggjandi umsóknir. Á heimasíðu verða einnig birtar upplýsingar um úthlutanir og skilaskýrslur verkefna sem hljóta styrk úr sjóðnum.

Greiðslur, mat og eftirfylgni

Stjórn leggur til greiðsluáætlun samhliða ákvörðun um úthlutun á styrk. Greiðslur skulu bundnar við ákveðinn framgang verkefnisins og skal styrkhafi gera grein fyrir framgangi þess samhliða því sem greiðslur fara fram.

Sérstakur samningur skal gerður um hvert og eitt verkefni sem hlýtur styrk úr sjóðnum að fjárhæð kr. 3.000.000,- (þrjár milljónir króna) eða meira. Í slíkum samningi skal m.a. kveðið á um áætlun um framgang verkefnisins og framvindu greiðslna, allar almennar forsendur og mögulega forsendubresti verkefnisins. Ennfremur skal, í slíkum samningi, kveðið á um möguleg vanefndaúrræði sjóðsins vegna vanefnda styrkhafa á samningnum, eða í öðrum nánar tilgreindum tilvikum, svo sem rétt til að stöðva greiðslur til verkefnisins.

Telji dómnefnd sjóðsins að forsendubrestur verði í verkefnum eða að verkefnið brjóti gegn hagsmunum félagsmanna SI eða skekki samkeppnisstöðu, ólíkt því sem áætlanir gerðu ráð fyrir, áskilur nefndin sér í öllum tilfellum rétt til að stöðva greiðslur til verkefnisins, óháð því hvort um það hafi verið gerður sérstakur samningur.

Almennt er miðað við að verkefninu sé lokið og að greiðslur hafi farið fram innan 12 mánaða frá því að styrkumsókn er samþykkt. Hægt er að sækja um sérstakar undanþágur til dómnefndar ef ekki er unnt að ljúka verkefninu innan framangreindra tímamarka. Sé slíkt ekki gert og berist ekki upplýsingar um framgang mála er litið svo á að umsókn og ráðstöfun styrks falli niður að 12 mánuðum liðnum, frá tilkynningu um samþykkt umsóknar talið.

Mikilvægt er að skilaskýrsla verkefnis liggi fyrir áður en lokagreiðsla fer fram en þar skulu koma fram upplýsingar um árangur verkefnisins og framgang þess miðað við áætlanir og markmið sem farið var af stað með.  Styrkþegi skilar slíkri skýrslur og veitir upplýsingar í samræmi við óskir dómnefndar.

Samþykkt af stjórn SI þann 16. janúar 2016


Skipulagsskrá Framfarasjóðs SI

1. gr.
Sjóðurinn heitir Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins (FSI). Sjóðurinn er stofnaður af Samtökum iðnaðarins og er rekinn innan Akks SI. Heimili og varnarþing Akks SI er í Reykjavík.

2. gr.
Stofnfé sjóðsins er úthlutun frá Akk SI þann 20. júní 2016, kr. 500.000.000,- og skal höfuðstóll FSI ávaxtast eins og heildareignir Akks SI. Akkur SI er félag í eigu og umsjón Samtaka iðnaðarins og hefur það hlutverk að varðveita og ávaxta sem best varasjóði þess ásamt því að reka Framfarasjóð Samtaka iðnaðarins.

3. gr.
Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til einstaklinga, stofnana eða hópa fyrirtækja og/eða stofnana vegna verkefna eða rannsókna sem hafa það að markmiði að auka framfarir á sviði iðnaðar. Miða skal við að styrkirnir renni til verkefna sem styðja við eftirfarandi markmið:

  1. Efling menntunar fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám.

  2. Nýsköpun sem styrkir framþróun í iðnaði.

  3. Framleiðniaukning með áherslu á skilvirkt rekstrarumhverfi.

Styrkjunum er ætlað að mæta útgjöldum sem tengjast framangreindum verkefnum og efla þau.  

4. gr.
Stjórn Akks SI er jafnframt stjórn Framfarasjóðs Samtaka iðnaðarins og ber ábyrgð á fjárreiðum sjóðsins. Stjórn SI mótar stefnu og verklag sjóðsins.

Ákvörðun um styrkveitingar skal tekin af stjórn sjóðsins, þó með fyrirvara um 6. gr. Við úthlutun úr sjóðnum ber að taka tillit til fjárhagslegrar stöðu Akks SI á hverjum tíma. Sé fyrirsjáanlegt að eignastaða Akks SI fari undir viðmið sem stjórn SI samþykkti á fundi sínum 14. desember 2012 þess efnis að höfuðstóll Akks SI megi ekki fara niður fyrir 3 milljarða króna m.v. vísitölu neysluverðs 402,0 þá skal ekki úthluta úr sjóðnum.

5. gr.
Tekjur sjóðsins eru ávöxtun og annar arður af stofnfé þess og eignum. Umsýsla sjóðsins og ávöxtun fjármuna fellur undir rekstur Akks SI.  

Ekki er gert ráð fyrir að skilað sé reikningum vegna sjóðsins, að öðru leyti en gildir um Akk SI, enda fellur hann undir efnahagsreikning og rekstur Akks SI. Stjórn Akks SI skal þó árlega skila til stjórnar SI yfirliti yfir styrkveitingar úr sjóðnum, styrkþega, rekstur og stöðu sjóðsins.  

6. gr.
Heimilt er að veita styrki úr Framfarasjóði Samtaka iðnaðarins allt að tvisvar sinnum á ári, að fengnum umsóknum eða að frumkvæði stjórnar sjóðsins. Styrkirnir eru veittir undir nafni sjóðsins og skulu að meginstefnu afhentir á sérstökum viðburði sem haldinn er í tilefni styrkveitinga. 

Árleg heildarupphæð styrkveitinga getur verið breytileg. Úthlutun yfir 10 ára tímabil má þó aldrei vera hærri en helmingur af upphaflegu stofnfé sjóðsins. Stjórn sjóðsins gerir tillögu um heildarupphæð styrkveitinga ár hvert, fjölda styrkþega og upphæð hvers styrks. Tillögur um úthlutun skal leggja fyrir stjórn SI til samþykktar.

Skilyrði styrkveitingar í formi fjárfestingar í fasteign er að tekjur af rekstri fasteignar standi undir breytilegum kostnaði við rekstur hennar. Sé því skilyrði ekki fullnægt tvö ár í röð eða því verkefni sem styrkveitingin tók til er lokið er stjórn sjóðsins heimilt að selja fasteignina og ávaxta andvirði hennar á þann hátt sem stjórn sjóðsins telur best enda liggur fyrir samþykki stjórnar SI.

7. gr.
Breytingar á skipulagsskrá þessari og slit sjóðsins getur stjórn SI gert með samþykki meirihluta stjórnarmanna.

Skipulagsskrá sjóðsins skal endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti þar sem mat er lagt á skilvirkni þess fyrirkomulags sem er í gildi hverju sinni og árangur sjóðsins útfrá hlutverki hans.

Samþykkt af stjórn Samtaka iðnaðarins, 20. júní 2016.