Fréttasafn28. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Menntun

Framfarasjóður SI úthlutar 26 milljónum króna í styrki

Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins hefur veitt fjórum verkefnum styrki að upphæð 26,3 milljónir króna. Við val á verkefnunum fjórum sem hlotið hafa styrki er horft til þess að þau efli menntun í iðn-, verk- og tækninámi, að um sé að ræða nýsköpun sem styrki framþróun í iðnaði og að þau leiði til framleiðniaukningar. Með vali á þessum fjórum verkefnum sem hljóta styrki endurspeglast áherslur Samtaka iðnaðarins. Sjóðurinn var stofnaður árið 2016 í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði. Sjóðnum bárust 13 umsóknir.

Verkefnin fjögur sem hljóta styrki úr Framfarasjóði SI eru:

Málmur – samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði og Iðnú hljóta 14 milljóna króna styrk til þess að gefa út námsefni í málmtengdum iðngreinum í framhaldsskólum en kennsluefni er ábótavant í mörgum námskeiðum í þeim iðngreinum. Verkefnið eflir menntun í málmtengdum iðngreinum.

Mannvirki – félag verktaka, Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samtök arkitektastofa hljóta styrk að fjárhæð 5 milljónir króna til að þróa samræmda aðferðafræði vegna kostnaðaráætlana í mannvirkjagerð. Verkefnið stuðlar að aukinni framleiðni og hefur breiða skírskotun.

Ásgarður ráðgjöf hlýtur styrk að fjárhæð 6,5 milljónir króna til að þróa leiðbeiningar og viðmið vegna nýsköpunarkennslu grunnskólanemenda með áherslu á að tengja list- og verkgreinar markmiðum grunnskóla undir yfirskriftinni Nýsköpunarskólinn. Félagið starfar nú þegar með um 20 grunnskólum víða um land og mun innleiða þessa aðferðafræði í þeim skólum. Verkefnið snýr að menntun og nýsköpun og hefur breiða skírskotun.

Félag íslenskra gullsmiða hlýtur styrk að fjárhæð 800 þúsund krónur til að skrásetja verkferla á gullsmíðaverkstæði. Verkefnið varðar heila grein og stuðlar að aukinni framleiðni.

Myndir/Birgir Ísleifur

Mynd_1Frá afhendingu styrksins til Málms og Iðnú, talið frá vinstri, Helgi Guðjónsson, formaður Málms, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri Iðnú.

Mynd_2Frá afhendingu styrksins til Mannvirkis, Félags ráðgjafarverkfræðinga og Samtaka arkitektastofa, talið frá vinstri, Jón Ólafur Ólafsson, formaður Samtaka arkitektastofa, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga.

Mynd_3Frá afhendingu styrksins til Ásgarðs, talið frá vinstri, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Erla Björk Sveinsbjörnsdóttir, sérfræðingur hjá Ásgarði og ráðgjafi, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Mynd_4Frá afhendingu styrksins til Félags íslenskra gullsmiða, talið frá vinstri, Haraldur Hrafn Guðmundsson, gullsmíðameistari, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Páll Sveinsson, gullsmíðameistari.

Morgunblaðið, 29. desember 2020.