Fréttasafn



10. maí 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Framfarasjóður SI úthlutar styrkjum

Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins hefur veitt tveimur verkefnum styrki samtals að upphæð 5,5 milljónir króna. Verkefnin sem hljóta styrki úr Framfarasjóði SI eru:

Málmur og Tækniskólinn hljóta 3,5 milljóna króna styrk til að vinna að gerð námskrár þannig að Tækniskólanum verði gert kleift að bjóða upp á námsbraut í kælitækni. Styrkþegar munu meta hvaða fög Tækniskólinn þarf sérstaklega að koma á til þess að námsbrautin verði samanburðarhæf við önnur Norðurlönd. Ekki hefur verið boðið upp á námið hérlendis og hafa áhugasamir nemendur þurft að sækja námið erlendis.

Háskóli Íslands hlýtur 2 milljóna króna styrk vegna NordYk, ráðstefnu norrænna samtaka um rannsóknir á starfsmenntun sem fer fram í júní næstkomandi. Markmið ráðstefnunnar er efling menntunar fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám þar sem varpað verður ljósi á mikilvægi þessa náms í samfélaginu. Ráðstefnan samanstendur af málstofum og erindum þar sem kynnt verða rannsóknar- og þróunarverkefni tengd starfsnámi. 

Við val á verkefnunum er horft til þess að þau efli menntun í iðn-, verk- og tækninámi, að um sé að ræða nýsköpun sem styrki framþróun í iðnaði og að þau leiði til framleiðniaukningar. Sjóðurinn var stofnaður árið 2016 í þeim tilgangi að styðja við og þróa framfaramál tengd iðnaði.

Sjóðnum bárust 10 umsóknir að þessu sinni.

Mynd/BIG

Frá afhendingu styrkjanna í Húsi atvinnulífsins. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Guðný Hjaltadóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Víglundur Laxdal Sverrisson, skólastjóri skipstjórnar- og véltækniskólans innan Tækniskólans, Elsa Eiríksdóttir, dósent við Háskóla Íslands, Daníel Óli Óðinsson, formaður Málms, Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI.

Framfarasjodur-SI_afhending-styrkja-2024_Guðný Hjaltadóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Víglundur Laxdal Sverrisson, skólastjóri skipstjórnar- og véltækniskólans innan Tækniskólans, Daníel Óli Óðinsson, formaður Málms, Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI.

Si_hopmyndir_03052024-1Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Elsa Eiríksdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.


mbl.is, 8. maí 2024.

Morgunblaðið, 10. maí 2024.