Fréttasafn



14. ágú. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Erlendar fjárfestingar mótvægi við niðursveifluna

Í nýrri greiningu SI með yfirskriftinni Gildi erlendra fjárfestinga kemur fram að fyrirhugaðar fjárfestingar í mannvirkjagerð á Keflavíkurflugvelli á vegum bandaríska hersins og NATO eru kærkomið mótvægi við niðursveifluna í efnahagslífinu sem nú er hafin en nýlegt áfall í ferðaþjónustu hefur m.a. komið fram í ört vaxandi atvinnuleysi, ekki síst á Suðurnesjum. Í greiningunni segir að þar hafi atvinnuleysið mælst 6,3% í júní síðastliðnum á sama tíma og landsmeðaltalið hafi verið 3,4%, atvinnuleysi í Reykjanesbæ hefur tvöfaldast á skömmum tíma. Áætlað er að það verkefni sem Bandaríkjaher hyggst ráðast í skapi með beinum hætti rúmlega 300 ársstörf á svæðinu meðan á framkvæmdatíma stendur og meira þegar horft er til fjárfestinga NATO og afleiddra starfa. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI, Gildi erlendra fjárfestinga. 

Hagvöxtur framtíðar

Í greiningunni segir að nú þegar íslenska hagkerfið sigli inn í samdráttarskeið sé það áleitin spurning hvernig við mætum því og á hverju við byggjum næsta hagvaxtarskeið. Með réttum aðgerðum í hagstjórn megi milda niðursveifluna og tryggja að næsta uppsveifla verði gjöful. Með sterkri samkeppnishæfni atvinnulífsins sem m.a. laði hingað til lands erlendar fjárfestingar megi treysta velferð og bæta lífsgæði landsmanna til framtíðar.

Ennfremur segir að verðmætasköpun í samfélaginu þurfi að vera drifin áfram af sjálfbærri nýtingu auðlinda, mikilli nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi. Ísland er útflutningsland og því afar háð erlendum viðskiptum og nýliðin efnahagsuppsveifla var, líkt og flestar aðrar uppsveiflur í íslenskri efnahagssögu, drifin áfram af auknum gjaldeyristekjum. Sagan kennir okkur að ef við viljum skara fram úr litið til framtíðar verðum við að skapa og nýta viðskiptatækifærin til að auka útflutningstekjur. Fjárfestingar erlendra aðila hér á landi eru sérstaklega áhugaverðar í þessu ljósi en með slíkum fjárfestingum má bæði styrkja samkeppnishæfni landsins, efla innviði, fjölga störfum, auka fjölbreytileika og stöðugleika og innlenda verðmætasköpun til heilla fyrir fyrirtæki og heimili í landinu. 

Í greiningunni er farið yfir þær fjölmörgu erlendu fjárfestingar sem hafa verið hvati framfara hér á landi, meðal þeirra eru beinar erlendar fjárfestingar í iðnaði, erlendar fjárfestingar í innviðum líkt og Hvalfjarðargöngum, Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli. 

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.