Fréttasafn



21. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Mæla með innleiðingu en laga þarf skilyrði hlutdeildarlána

Umsögn SI um drög að reglugerð um hlutdeildarlán, mál 210/2020,  hefur verið send í Samráðsgátt. Samtök iðnaðarins mæla eindregið með innleiðingu hlutdeildarlána en gera athugasemdir við skilyrði lánanna. Samtökin benda á að skerpa mætti betur á og endurskoða ákvæði um hagkvæmni og ástand íbúðar og hámarksverð- og stærð íbúða. 

Í umsögninni segir að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skulu íbúðir þannig hannaðar að þær séu einfaldar að allri gerð. Samtökin leggjast gegn þessu óljósa og almenna ákvæði og telja réttast að fjarlægja það. Ákvæðið sé í eðli sínu of matskennt og til þess fallið að draga úr fyrirsjáanleika og skilvirkni í framkvæmd úrræðisins. Samtökin telja jafnframt óljóst að hvaða leyti þetta skilyrði styður við skilgreiningu á hagkvæmu húsnæði og þar með markmiðum laganna.

Þá benda samtökin á annað ákvæði sem sé óljóst og þarfnist endurskoðunar en samkvæmt 3. mgr. 13. gr. segir að þess sé gætt að um lóð gildi ekki skipulagsskilmálar sem hafa í för með sér hækkun á byggingarkostnaði. Samtökin segja ákvæðið of matskennt og því geti orðið erfitt að framfylgja því. Skilgreina þurfi nánar hvaða kröfur innan skilmálanna sem leiði til hækkunar á byggingarkostnaði komi til með að útiloka uppbyggingu innan úrræðisins. Framkvæmdaraðilar og sveitarfélög gætu þá jafnvel unnið saman að ásættanlegum útfærslum.

Jafnframt lýsa Samtök iðnaðarins yfir áhyggjum af skilyrði í 14. gr. er varðar fermetrafjölda og vilja samtökin hvetja til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði veitt heimild til að veita undanþágu til úthlutunar hlutdeildarlána þrátt fyrir að skilyrði um ákveðin fermetrafjölda séu ekki uppfyllt í sérstökum tilvikum og innan ákveðinna vikmarka. Einnig telja samtökin að erfiðlega gæti gengið að uppfylla skilyrði við uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar íbúðir í fyrstu tveimur til þremur stærðarflokkunum þ.e. 40 til 50 fm, 51 til 60 fm og 61 til 70 fm. Slíkar íbúðir verði í það minnsta mun færri ef ekki komi til samstillts átaks framkvæmdaraðila og sveitarfélaga hverju sinni.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.