Nýsköpun alls staðar - Iðnþing 2011
Tæplega 300 manns sóttu Iðnþing Samtaka iðnaðarins í gær þar sem rætt var um nýsköpun sem leið til endurreisnar í íslensku atvinnulífi. Helgi Magnússon formaður SI og Katrín Júlíusdóttir ávörpuðu þingið og að því loknu héldu erindi Andri Þór Guðmundsson, Guðrún Högnadóttir, Tatjana Latinovic, Jón Ágúst Þorsteinsson og Orri Hauksson.
Tæplega 300 manns sóttu Iðnþing Samtaka iðnaðarins í gær þar sem rætt var um nýsköpun sem leið til endurreisnar í íslensku atvinnulífi. Helgi Magnússon formaður SI og Katrín Júlíusdóttir ávörpuðu þingið og að því loknu héldu erindi Andri Þór Guðmundsson, Guðrún Högnadóttir, Tatjana Latinovic, Jón Ágúst Þorsteinsson og Orri Hauksson.
Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins sagði í ræðu sinni að Íslendingar þyrftu umfram annað nýsköpun hugarfarsins. Hann benti á að við værum enn föst í viðjum efnahagshrunsins og að því miður væri alltof margir uppteknir af hatri og refsigleði – það torveldaði okkur leiðina út úr kreppunni.
Þá fjallaði Helgi um mikilvægi þess að berjast fyrir hagstæðum aðildarsamningi við ESB og benti á að sumir aðilar innan Samtaka iðnaðarins væru uggandi ekki síst í mjólkur- og kjötiðnaði. Fáir eigi meira undir en þeir að samningar verði Íslendingum hagfelldir. „Fyrir því verður að berjast til síðustu stundar og ég hef ekki trú á því að landsmenn samþykki aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu nema samningarnir verði okkur hagstæðir.“
Helgi segir stórkostleg tækifæri felast í meginauðlindum landsins, hreinu vatni, orku, matvælum og landi. „Hin risavöxnu viðfangsefni jarðarbúa á næstu árum og áratugum felast í því að geta séð hinum mikla fjölda fyrir mat, vatni, orku og landrými. Þar liggur styrkur Íslands. Þar liggja tækifæri Íslands. Vandi umheimsins er tækifæri okkar. Kuldalegt. En engu að síður staðreynd. Smáþjóð sem býr yfir þessum auðlindum á að hafa alla burði til að geta nýtt sér þær og lifað góðu lífi. Hún á að geta haldið háum meðaltekjum fólks, háum kaupmætti, lágu atvinnuleysi, haft öflugt atvinnulíf og gott mannlíf. Til þess að svo verði þurfum við samstöðu um uppbyggingu og nýtingu tækifæranna.“
Skýr merki þess að farið sé að birta til
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra sagði nú sjást skýr merki þess að tekið sé að birta til. Nefndi hún því til stuðning þrjár framkvæmdir sem saman eru upp á 100 milljarða króna. Breytingar á álverinu í Straumsvík þar sem framleiðsluafurðir þess verða gerðar enn verðmætari með breytingum á framleiðslu og uppfærslu á búnaði. Kísilver í Helguvík sem framleiða mun um 50 þúsund tonn af hrákísli og 20 þúsund tonn af kísilryki árlega og Búðarhálsvirkjun.
Katrín sagði að meðal þeirra stóru mála, sem Íslendingar þurfi að taka á núna sé annars vegar staða Íslands innan Evrópu og hins vegar staða gjaldmiðilsins. Trúverðugleiki íslenskrar peningmálastefnu sé ekki meiri en svo að gengi krónunnar sé tvíþætt. Annars vegar haftagengi hér heima og aflandsgengi í útlöndum.
Að lokum þakkaði Katrín Samtökum iðnaðarins og fjölmörgum einstaklingum og fyrirtækjum innan þeirra raða fyrir gott og frjótt samstarf á liðnum misserum. „Ég vil þakka fyrir þennan fund í dag og þá einbeittu áherslu á nýsköpun sem fram fer á þessum vettvangi. Nýsköpun snýst ekki eingöngu um að kasta fram góðum hugmyndum heldur að koma þeim áleiðis til þróunar og þroska þannig að úr verði framleiðsla eða þjónusta sem á framtíðina fyrir sér á markaði.“
Köstum krónunni og hættum neyslustýringu
Andri Þór Guðmundsson fjallaði í erindi sínu um nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum, hvaða skilyrði og næring þurfa að vera fyrir hendi til að nýsköpun geti þrifist og nefndi Ölgerðina sem dæmi um fyrirtæki þar sem blómleg nýsköpun ætti sér stað á öllum stigum í framleiðsluferlinu.
Andri gagnrýnir stjórnvöld fyrir að vera með of háa skatta á ýmsar vörur, eins og gosdrykki og áfengi og segir miður að neyslustýring hafi aftur skotið hér rótum. Þá sagði hann að nær ómögulegt væri að reka fyrirtæki á Íslandi með krónuna sem gjaldmiðil. Lokarorð Andra voru: „Köstum krónunni og hættum neyslustýringu, takk fyrir."
Glærur Andra Þórs Guðmundssonar
Menntun, menning og máttur til nýsköpunar
Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri Opna háskólans – HR fjallaði um stöðu, virði og sóknarfæri í menntun til nýsköpunar. Hún vitnaði í upphafi erindis í orð Guðmundar Finnbogasonar, fræðimanns og menntafrömuðar sem sagði „Menntun hvers manns verður að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra. ... Enginn getur orðið að manni nema í samfélagi annarra manna.“ Guðrún sagði þessi orð sem rituð voru 1903 löngu fyrir tíma fjölgreindakenninga lýsa á skýran og einfaldan hátt hvert hið raunverulega gildi menntunar er.
Guðrún talaði um aðferðafræði Opna háskólans – HR þar sem áhersla er lögð á raunhæfa kennslu (learning by doing), að blanda saman ólíkri grunnþekkingu, að nám sé þverfræðilegt og að virkja klasa með því að leggja áherslu á teymisvinnu. Guðrún sagði mikilvægt að innleiða nýsköpunarfræði á öll stig menntakerfisins, gera frumkvöðlahugsun og sköpunargleði að lykilþætti í námsskrá neðri skólastiga. Þannig sé líklegra að skólar útskrifi nemendur sem sjái tækifæri í að skapa atvinnu en ekki eingöngu þiggja atvinnu og nemendur sem skapi þekkingu en neyti hennar ekki eingöngu.
Tilurð og verndun hugverka
Tatjana Latinovic, sviðsstjóri hugverkasviðs Össurar fjallaði um tilurð og verndun hugverka hjá alþjóðlegum fyrirtækjum og gaf dæmi út frá reynslu Össurar sem heilbrigðistækjafyrirtækis sem starfar á heimsvísu. Hún segir fjárfestingu í hugverkavernd stjórnast af viðskiptalegum hagsmunum, samkeppnisumhverfi, nýtingartíma og því hvort uppfinningin sé betur varin sem leyndarmál. Fjárfesting í hugverkavernd sé dýr og að val á löndum sem sótt er um ráðist af mikilvægi markaðssvæðis, framleiðslulandi og lagaumhverfi landa. Nauðsynlegt sé að vanda valið á einkaleyfasérfræðingum í hverju landi til að hámarka líkur á árangri í öflun vandaðra einkaleyfa.
Mikilvægt að leysa misvægi á vinnumarkaði
Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Marorku sagði það vera óásættanlega staðreynd að á sama tíma og 13 þúsund manns eru án atvinnu og þiggi bætur séu margvíslegar óuppfylltar þarfir í fyrir starfsfólk í atvinnulífinu. „Árlega greiða atvinnulífið, stofnanir og ríkið 25 til 28 milljarða króna í atvinnuleysisbætur. Með aðeins broti þeirra fjármuna væri hægt að lyfta Grettistaki í starfs- og endurmenntun en til þess þarf samstarf allra sem að málum koma, þ.e. fyrirtækja, ríkisins, samtaka atvinnulífsins og einstaklinga.“
Ræða Jóns Ágústs Þorsteinssonar
Stefnumótun til langs tíma nauðsynleg en lítils virði án framkvæmdar
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í ræðu sinni á iðnþingi í dag að stefnumótun til langs tíma væri nauðsynleg en án framkvæmdar væri hún lítils virði.
„Kannski má orða það sem svo að okkur skorti skammtímahugsun. Sóknaráætlun 2020 er býsna snoturt plagg. En án innleiðingar og eftirfylgni, er hún bara það, býsna snoturt plagg,“ sagði Orri. Það sama ætti við um ýmsar fleiri áætlanir.
Í lokaerindi Iðnþings kom Orri víða við og sagði m.a. að nú væri komin tími framkvæmda á ótal sviðum og gerði peningamál, menntamál, framkvæmdir og samskipti við stjórnvöld að umtalsefni. Orri telur mikilvægt að ræða miklu nánar hagstjórn næstu ára.
„Við hjá Samtökum iðnaðarins teljum að Ísland eigi að uppfylla Maastricht skilyrðin svo fljótt sem auðið er. En við þurfum við að ganga lengra í sjálfsaga. Við eigum að taka upp sérstaka reglu varðandi opinber fjármál, svo þau vaxi ekki úr takti við framleiðni í landinu og skemmi fyrir peningamálastjórnun, eins og raunin varð einmitt. Við þurfum líka að þróa verðtrygginguna áfram, svo jafngreiðslufyrirkomulag húsnæðislána dragi ekki allt bit úr vaxtabreytingum Seðlabanka.“