Fréttasafn



18. feb. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Fundur um keðjuábyrgð í opinberum samningum

Vel var mætt á fund Mannvirkis og Samtaka iðnaðarins í Húsi atvinnulífsins þar sem fjallað var um keðjuábyrgð í opinberum samningum. Á fundinum fluttu erindi Dagmar Sigurðardóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa, og Ármann Óskar Sigurðsson, sviðsstjóri verklegra framkvæmda hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Á fundinum kom fram að 1. janúar síðastliðinn tók í gildi breyting á lögum um opinber innkaup þar sem kveðið er á um að aðalverktaki skuli tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Lögin leggja einnig skyldur á herðar opinberum aðilum um að hafa eftirlit með sínum viðsemjendum auk þess að þeim er nú heimilt að greiða vangoldnar verktakagreiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna, sem svara til launatengdra greiðslna á kostnað aðalverktaka standi hann ekki í skilum með slíkar greiðslur.

Vegna þessa hefur fjármálaráðuneytið gefið út leiðbeiningar um hvernig aðalverktakar geta tryggt að þeir hafi aðgang að upplýsingum hjá undirverktökum og starfsmannaleigum til að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni. Í því felst að setja inn ákvæði í samninga við undirverktaka og hafa virkt eftirlit með því að þessum skyldum sé framfylgt. 

Glærur fundarins

Dagmar Sigurðardóttir, lögmaður Ríkiskaupa, fór á fundinum yfir leiðbeiningar um notkun ákvæðisins þar sem m.a. er kveðið er á um sjálfsmat verktaka sem notast á við til að gera áhættumat reglulega. Fellur þetta á verktaka sjálfa, þ.e. að fylla út sjálfsmatið og í viðhengi með umræddum leiðbeiningum má vinna dæmi um þær spurningar sem verktaki skal hafa í huga við gerð matsins. Dagmar tók það fram að með þessu er einnig verið að þrengja verulega að þeim verktökum sem stunda kennitöluflakk. Umrætt sjálfsmat er þó ekki lögbundið heldur aðeins tillaga sem fram kemur í umræddum leiðbeiningum.

Ármann Óskar Sigurðsson, sviðsstjóri verklegra framkvæmda og skilamats hjá Framkvæmdasýslunni, kom á fundinn til að ræða verkefnið VÖR-leiðsöguverkefni um samfélagslega ábyrgð í verkefni. VÖR er samstarfsverkefni sem Framkvæmdasýslan hefur verið að þróa undanfarin tvö ár og er nú unnið í samstarfi við ÍSTAK í tengslum við Hús íslenskunnar.  

Fundur-februar-1-

Fundur-februar-2-

Fundur-februar-3-