Fréttasafn15. feb. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Solid Clouds fyrst til að fá frádrátt fyrir erlendan sérfræðing

Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds er fyrsta félagið sem fær staðfestingu á að erlendur sérfræðingur á þess vegum fær frádrátt frá tekjuskatti samkvæmt reglugerð 1202/2016 og nýsamþykktum lögum um tekjuskatt. Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja hafa lengi barist fyrir því að auðvelda íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum að ráða til sín erlenda sérfræðinga með fágæta sérþekkingu. Hér er því um mikilvægt skref að ræða og fagna bæði samtökin þessum áfanga í baráttu sinni við að auka samkeppnishæfni íslenska tækniiðnaðarins.

Lögin (nr. 79 16. júní 2016) sem um er rætt fela í sér heimild fyrir erlendra sérfræðinga að draga frá skattskyldum tekjum 25% tekna fyrstu þrjú árin frá ráðningu, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Erlendur sérfræðingur sé ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og er sá sem greiðir hinum erlenda starfsmanni tekjur sem sérfræðingi.
  2. Erlendur sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á fimm ára tímabili næst á undan því almanaksári er hann hóf störf hér á landi.
  3. Erlendur sérfræðingur búi yfir þekkingu sem ekki sé fyrir hendi hér á landi nema í litlum mæli.

Til að virkja framangreinda heimild þarf að fá staðfestingu sérstakrar nefndar sem fjármálaráðherra skipar á því að tiltekinn erlendur sérfræðingur uppfylli framangreind skilyrði að undangenginni skriflegri umsókn og framlagningu viðeigandi gagna.