Fréttasafn6. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaður mikilvægasta efnahagsmálið

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, var í viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni í Sprengisandi á Bylgjunni ásamt Ingólfir Ævarssyni, markaðsstjóra 1939 Games, en fyrirtækið hlaut Vaxtarsprotann 2021 fyrir að sextánfalda veltu milli ára. Ingólfur segir í viðtalinu að 2019 hafi fyrirtækið verið með prufuútgáfu af leiknum, þeir hafi byrjað smátt og prófað sig áfram en farið svo í loftið í fyrra. Hann segir það góða viðurkenningu að fá Vaxtarsprotann. 

Sigríður segir í viðtalinu að hugverkaiðnaður sé mikilvægasta efnahagsmálið. „Okkar lífskjör til framtíðar eru háð því að við aukum útflutningstekjur. Það eru allir sammála um það en hvernig gerum við það? Við höfum byggt á auðlindanýtingu sem er frábært og hefur fært okkur mjög góð lífskjör. Við erum auðvitað komin að ákveðnum þolmörkum þegar kemur að þessari auðlindanýtingu. Þessar þrjár stoðir útflutnings eru að vissu leyti komnar að þolmörkum. Hvað tekur þá við? Svarið við því er að hugverkaiðnaðurinn tekur þá við sem er þá tækniþróun, annað hvort nýsköpun sem leiðir af sér nýjar atvinnugreinar eða þá tæknifyrirtæki sem byggjast upp í kringum þessar útflutningsstoðir. Ég get nefnt sjávarútvegstæknifyrirtækin sem dæmi sem eru hluti af hugverkaiðnaði. Nú það hefur lengi verið rætt um mikilvægi þess að fá fjórðu stoðina inn í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og má eiginlega líkja þessu við stól sem vantar eina löpp á. Hugverkaiðnaðuri er fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Hann er orðinn það nú þegar og hefur rækilega fest sig í sessi. Þetta hefur gerst mjög hratt en byggir auðvitað á löngum undirbúningi og miklum fjárfestingum í fortíðinni. Það tekur oft tíma að sjá ávinningin af því. Hugverkaiðnaðurinn í fyrra skapaði 16% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og hefur alla burði, ég get rökstutt það nánar, til þess að verða burðarstoð og jafnvel stærsta stoð útflutnings til framtíðar.“

Hún segir að þarna séu vaxtartækifærin endalaus. „Fyrirtæki sem eru í hugverkaiðnaði eiga það sameiginlegt að auðlindin er fjárfesting í rannsóknum og þróun, hugvit og mannauður og þau eru skalanleg á alþjóðamörkuðum.“

Fjölbreyttur iðnaður

Sigríður segir að 1939 Games sé mjög gott dæmi um hugverkafyrirtæki en innan hugverkaiðnaðarins séu líftækni, lyfjatækni, heilbrigðistækni, tölvuleikjaiðnaður, upplýsingatækni og fleira. „Þetta er mjög fjölbreyttur iðnaður. Það sem þessi fyrirtæki innan hugverkaiðnaðar eiga sameiginlegt er það sem nefndi áðan, fjárfesting í rannsóknum og þróun. Það er hugverkaiðnaður framtíðarinnar.“

Hún segir að fjórða stoðin sé komin og nú þurfi að halda rétt á málum, setja þurfi vöxt hugverkaiðnaðar í algjöran forgang þar sem það sé stærsta efnahagsmálið, vegna þess að við þurfum að auka útflutningstekjur. 

Leita að sérfræðiþekkingu út fyrir Ísland

Ingólfur segir að 1939 Games hafi fengið stuðning frá Rannís til að koma sér á kopp. „Við hefðum ekki getað farið þangað sem við fórum án þeirra.“ Hann segir að það þurfi að halda áfram að fjárfesta í því auk þess sem hann nefnir mikilvægi mannauðsins í geiranum. „Við erum t.d. að fara úr PC-umhverfi og í símann og sú þekking er ekki á Íslandi. Við þurfum að leita til Finnlands og erum að ráða inn fólk núna því þetta fólk er ekki til á Íslandi.“

Lögfesta endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar

Sigríður segir að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafi tvöfaldast frá 2013 til 2019. „Við getum séð þá tvöföldun eiga sér stað aftur.“ Hún segir að ef rétt sé haldið á málum og ef stjórnvöld setji þetta í algjöran forgang þá séu minni líkur á að fyrirtæki fari úr landi. „Við þurfum auðvitað að halda þeim hér.“

Þegar Sigríður er spurð hvað það þýði að setja í forgang segir hún að lögfesta þurfi endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar sem sé gríðarlegur skattahvati fyrir þessi fyrirtæki og geri þau alþjóðlega samkeppnishæf. „Það er núna tímabundið úrræði í lögum sem hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif og virkað sem einskonar hraðbraut fyrir vöxt hugverkaiðnaðar á 18 mánaða tímabili. Það þarf að festa þetta í sessi til frambúðar þannig að íslensk hugverkafyrirtæki sjái sér hag í því að fjárfesta hér á Íslandi í rannsóknum og þróun og gera langtímaáætlanir um vöxt hér. Svo er það mannauðurinn, það er hitt lykilatriðið, við þurfum að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til Íslands þannig að við höldum áfram að byggja upp þessa þekkingu sem við þurfum á að halda. Það þarf að fara í sérstakt átak í þessu til næstu 10 ára, svo hægt og rólega byggist þessi þekking upp hér innanlands. Þetta eru tvö lykilatriði.“

Tölvuleikjaiðnaður veltir meiru en kvikmyndaiðnaður og tónlistariðnaður til samans

Ingólfur segir að tölvuleikjaiðnaðurinn sé að velta meiru en allur kvikmyndaiðnaðurinn og tónlistariðnaðurinn til samans. Í viðtalinu kemur fram að það séu 20 tölvuleikjafyrirtæki starfandi á Íslandi í dag og sé orðinn alvöru iðnaður hér á landi sem skapi um 10 milljarða króna í gjaldeyristekjur á ári. Hugverkaiðnaður skapaði 160 milljarða króna í gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið árið 2020 og tölvuleikjaiðnaður sé ein af undirgreinum hugverkaiðnaðar.

Sigríður og Ingólfur segja að tækifærin séu þarna, þetta sé ekki framtíðarmúsík eða óhófleg bjartsýni. „Við erum að horfa á þetta gerast núna.“ Þá kemur fram hjá Sigríðir að hugverkaiðnaðurinn hafi verið að ráða til sín fólk frá því Covid hófst til dagsins í dag. „Við erum að sjá fyrirtæki í hugverkaiðnaði vaxa um 30-40% í miðjum heimsfaraldri. Þetta undirstrikar líka mikilvægi þess að halda áfram að byggja upp þessa fjórðu stoð. Hún sveiflujafnar á móti öðrum útflutningsstoðum Íslands. Því segi ég enn og aftur þetta er mikilvægasta efnahagsmálið.“

Í lok viðtalsins kemur fram að Samtök iðnaðarins standi fyrir kosningafundi með samtali við forystufólk stjórnmálaflokkanna næstkomandi miðvikudag. 

Vísir, 5. september 2021.