Fyrirsagnalisti
Kosningar eru að baki. Nýtt kjörtímabil er framundan. Sitjandi ríkisstjórn er ekki lengur minnihlutastjórn og hefur því þingstyrk til að taka til hendinni. Þegar þetta er ritað (5. maí) hefur samkomulag ekki tekist um stjórnarsáttmála og því ekki endanlega útséð hvernig málum lyktar. Myndun nýrrar stjórnar má alls ekki dragast á langinn. Hver dagur sem líður án þess að fyrir liggi hvað stjórnvöld ætla sér á næstu dögum, vikum og misserum er dýrkeyptur.
Kosningar til alþingis eru undir lok þessa mánaðar. Nýrrar ríkisstjórnar bíða mikil og erfið verkefni. Þeir sem bjóða sig fram verða að gera grein fyrir hvernig þeir ætla að greiða úr málum til skamms og langs tíma. Þeir verða að gera grein fyrir framtíðarsýn sinni fyrir hönd Íslands og hvernig þeir hyggjast gera hana að veruleika.
Íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir miklu áfalli. Það hefur áhrif á alla þætti þjóðlífsins. Ytri aðstæður fara að auki versnandi en svo virðist sem hinn vestræni heimur muni á næstu misserum takast á við djúpa efnahagslægð.
Okkur er tamt að velta fyrir okkur hvað framtíðin ber í skauti sér en ekki síður að líta yfir farinn veg. Óhætt er að segja að nú sé ærin ástæða til þess að líta til baka enda blasir við að ekki hefur verið haldið rétt á spilunum.
Senn er að baki árið 2008. Það mun án efa verða ofarlega í huga okkar í framtíðinni sem upphafsár mikilla umskipta. Tíminn einn mun leiða í ljós hve róttæk og afdrifarík þau verða.
Afleiðingar þess að íslenska fjármálakerfið hrundi nánast til grunna í einni svipan eru enn að koma í ljós. Við blasir að í hönd fara tímar margvíslegra breytinga og endurmats.
Atburðir síðustu vikna og daga hafa verið íslensku efnahags- og atvinnulífi erfiðir og sér ekki enn fyrir endann á þeim. Erfitt er að meta hverjar afleiðingar þessa áfalls verða en óhætt er að fullyrða að þær verða miklar og munu hafa langvarandi áhrif. Félagsmenn SI hafa orðið fyrir búsifjum í þessu gjörningaveðri í heimi fjármálanna líkt og flestir aðrir. SI munu því leggja sig öll fram um að hafa áhrif á framvindu mála með það að markmiði að tryggja sem allra best hagsmuni félagsmanna sinna.
Takist Íslendingum ekki að skapa sér viðvarandi hagvöxt næstu árin verður ekki komist hjá djúpri og langvarandi niðursveiflu í þjóðarbúskap landsmanna. Ef hagvöxtur á að geta orðið viðvarandi þurfum við á erlendu áhættufé að halda ekki síður en erlendu lánsfé. Líklegast er að erlent áhættufé fáist í tengslum við markvissa nýtingu orkuauðlinda og til fjárfestinga í stóriðju af ýmsu tagi.
Á þessum vettvangi hefur margsinnis verið minnt á mikilvægi þess að starfsskilyrði iðnaðarins og alls atvinnulífsins, séu jafngóð eða betri en erlendra keppinauta, skýr og fyrirsjáanleg. Ennfremur hefur verið kallað eftir stöðugleika í efnahagslegu umhverfi. Þetta eru grundvallaratriði þess að unnt sé að halda atvinnulífinu þróttmiklu til langframa og standa undir þeirri hagsæld og velferð sem við krefjumst okkur til handa.
Þrengingar í efnahagsmálum hafa sett svip sinn á umræðu um atvinnumál á liðnum mánuðum. Það eru mikil umskipti eftir uppgang og bjartsýni liðinna ára. Þegar kreppir að leiða menn gjarnan hugann að þeim grunnþáttum sem verða að vera fyrir hendi til þess að atvinnulífið blómstri. Þættir sem gleymast á stundum þegar lestin brunar að því er virðist af sjálfu sér. Hér verður minnst á þrjá þeirra sem gæta þarf að.
Öllum er ljóst að nú kreppir að í efnahagslífinu. Því miður bendir margt til þess að afleiðingarnar verði alvarlegri fyrir almenning og fyrirtæki en nokkur spáði fyrir örfáum mánuðum síðan. Samtök iðnaðarins telja að við núverandi aðstæður eigi stjórnvöld að spyrna við fæti, senda frá sér skýr skilaboð og grípa til markvissra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fjöldi fólks og fyrirtækja lendi í vandræðum og að keðjuverkun gjaldþrota og vanskila fari af stað. Annað væri ábyrgðarleysi. Til þess eru að minnsta kosti tvær meginleiðir færar.
Samtök iðnaðarins hafa alla tíð verið óþreytandi að benda á nauðsyn stöðugleika og jafnvægis. Það sé forsenda þess að geta byggt upp alþjóðlegt og samkeppnishæft atvinnulíf og halda því í landinu. Langt er síðan Samtökin hófu að benda á að með því að skipta um umgjörð efnahags- og gjaldeyrismála skapast skilyrði til þess að vinna bug á þessum viðvarandi vanda. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru er að mati Samtaka iðnaðarins besta leiðin til þess. Það er ekki nein skyndihugdetta sem orðið hefur til á síðustu mánuðum þegar gefið hefur á bátinn.