Greinasafn (Síða 28)
Fyrirsagnalisti

Leit að leiðarsteini
Á þessum vettvangi hefur margsinnis verið minnt á mikilvægi þess að starfsskilyrði iðnaðarins og alls atvinnulífsins, séu jafngóð eða betri en erlendra keppinauta, skýr og fyrirsjáanleg. Ennfremur hefur verið kallað eftir stöðugleika í efnahagslegu umhverfi. Þetta eru grundvallaratriði þess að unnt sé að halda atvinnulífinu þróttmiklu til langframa og standa undir þeirri hagsæld og velferð sem við krefjumst okkur til handa.

Grundvallaratriði
Þrengingar í efnahagsmálum hafa sett svip sinn á umræðu um atvinnumál á liðnum mánuðum. Það eru mikil umskipti eftir uppgang og bjartsýni liðinna ára. Þegar kreppir að leiða menn gjarnan hugann að þeim grunnþáttum sem verða að vera fyrir hendi til þess að atvinnulífið blómstri. Þættir sem gleymast á stundum þegar lestin brunar að því er virðist af sjálfu sér. Hér verður minnst á þrjá þeirra sem gæta þarf að.

Viðspyrna á fasteignamarkaði
Öllum er ljóst að nú kreppir að í efnahagslífinu. Því miður bendir margt til þess að afleiðingarnar verði alvarlegri fyrir almenning og fyrirtæki en nokkur spáði fyrir örfáum mánuðum síðan. Samtök iðnaðarins telja að við núverandi aðstæður eigi stjórnvöld að spyrna við fæti, senda frá sér skýr skilaboð og grípa til markvissra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fjöldi fólks og fyrirtækja lendi í vandræðum og að keðjuverkun gjaldþrota og vanskila fari af stað. Annað væri ábyrgðarleysi. Til þess eru að minnsta kosti tvær meginleiðir færar.

Viðvarandi skammtímavandi
Samtök iðnaðarins hafa alla tíð verið óþreytandi að benda á nauðsyn stöðugleika og jafnvægis. Það sé forsenda þess að geta byggt upp alþjóðlegt og samkeppnishæft atvinnulíf og halda því í landinu. Langt er síðan Samtökin hófu að benda á að með því að skipta um umgjörð efnahags- og gjaldeyrismála skapast skilyrði til þess að vinna bug á þessum viðvarandi vanda. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru er að mati Samtaka iðnaðarins besta leiðin til þess. Það er ekki nein skyndihugdetta sem orðið hefur til á síðustu mánuðum þegar gefið hefur á bátinn.

Umhverfisráðherra geri rétt
Ekkert er við því að segja að mismunandi skoðanir séu á því hvort og hvar einstök fyrirtæki byggja eða stækka. Hitt er hins vegar óþolandi að geta ekki treyst á regluverk sem í gildi er og hlutleysi stjórnvalda þegar hafinn er undirbúningur jafnt stórra sem smárra verkefna. Fyrirtækin eiga ekki að þurfa að sæta því að pólitískir eða efnahagslegir vindar ráði að lokum hvort þeim er heimilt að ráðast í framkvæmdir sem þau hafa unnið að, jafnvel um árabil og með ærnum kostnaði.

Að búa sig til ferðar
Það þykir hygginna manna háttur að undirbúa ferðalög af kostgæfni, ekki síst ef halda skal í langferð. Vita þarf hvert förinni er heitið, hvaða leiðir eru færar og hvaða búnað þarf til fararinnar. Það kann hins vegar að skipta litlu ef maður vill standa í sporum Lísu í Undralandi sem spurði hvaða leið hún ætti að fara þegar hún kom að gatnamótum. „það ræðst nú heilmikið af því hvert þú ætlar“ svaraði kötturinn en Lísu var nokk sama bara hún kæmist eitthvert. „Þá skiptir engu hvaða leið þú velur því þangað kemstu örugglega, bara ef þú gengur nógu lengi,“ svaraði kötturinn að bragði.

Verðug verkefni
Við tímamót er oft gott að staldra við og hyggja að því sem framundan er. Samtök iðnaðarins standa á gömlum merg og hefur vaxið mjög ásmegin hin síðari ár. Helst það í hendur við miklar breytingar, framfarir og aukin umsvif iðnaðarins. Að sama skapi verða viðfangsefni þeirra fjölbreyttari og oft á tíðum flóknari. Hagsmunir aðildarfyrirtækjanna eru ólíkir innbyrðis og breytast frá einum tíma til annars.

Framkvæmdastjóraskipti
Nú í byrjun desember lét Sveinn Hannesson af starfi framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins eftir 16 ára farsæl störf fyrir SI og forvera þeirra, Félag íslenskra iðnrekenda. Sveinn hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Gámaþjónustunnar hf. sem hefur verið ört vaxandi fyrirtæki og er félagi í Samtökum iðnaðarins. Við starfinu tekur Jón Steindór Valdimarsson sem verið hefur aðstoðarframkvæmdastjóri um árabil og unnið náið með Sveini. Það er því reyndur maður sem kemur í staðinn.

Peningastefnan komin í þrot
Það er tímabært að horfast í augu við staðreyndir. Núverandi peningastefna skilar okkur ekki þeim árangri sem að var stefnt. Nú þarf að setja nýjan kúrs. Fáir, ef frá eru taldir forvígismenn Seðlabankans, virðast trúa því að markmið peningastefnunnar náist. Trúverðugleiki peningamálastefnunnar hefur beðið skipbrot. Efnahagslífið er í gíslingu hárra vaxta og of sterkrar krónu. Það er óhjákvæmilegt að kalla eftir nýrri stefnu og nýjum vinnubrögðum til þess að leiða okkur út úr þessum ógöngum.

Pétur og iðnaðarmálagjaldið
Í leiðara sínum, um frumvarp Péturs Blöndal og Sigurðar Kára Kristjánssonar um iðnaðarmálagjaldið, bendir Sveinn Hannesson m.a. á að það sé hvorki drengilegt né heiðarlegt af þingmönnunum að halda fram falsrökum þess efnis að gjaldtakan sé brot á lögum, enda tveir Hæstaréttardómar sem staðfesti hið gagnstæða svo og niðurstöður starfshóps fimm ráðuneyta sem fjallaði um málið.

Það er gott að búa á Íslandi
Vandséð er hvernig íslenska hagkerfið hefði þolað það þenslu- og framkvæmdaskeið sem enn stendur ef allt þetta fólk hefði ekki komið hingað og lagt okkur lið. Það er ekki lítið sem nýbúarnir hafa lagt af mörkum í verðmætasköpun þjóðarinnar að undanförnu og þar með til velferðar okkar ... Er líklegt að Microsoft eða Google setji hér upp netþjónabú og rannsóknar- og þróunarsetur ef fyrirtækin þurfa að bíða í þrjá til sex mánuði eftir dvalarleyfi fyrir sérfræðinga sem þau þurfa að fá til landsins frá Ameríku eða Indlandi?

Raforkumarkaðurinn á Íslandi
Því miður hefur borið á því að stjórnmálamenn telja að ástandið á raforkumarkaði megi leysa með sértækum aðgerðum eða niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Dæmi um slíkt eru sérsamningar við tiltekin fiskeldisfyrirtæki eða þá að kalla garðyrkju „græna stóriðju“ sem á þá væntanlega að vera forsenda þess að garðyrkjubændur eigi að fái raforku á sérkjörum á kostnað annarra. Slíkar hugmyndir eru dæmi um gamaldags pólitíska mismunun og leysa engan vanda.
Síða 28 af 35