Fréttasafn12. maí 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Betri verkefnastaða fyrir verkfræðinga hér á landi

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um að mikil eftirspurn sé eftir verkfræðingum og að þeir séu að flytja heim frá Noregi í auknum mæli. Meðal viðmælenda er Tryggvi Jónsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, sem er starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Tryggvi segir verkefnastöðuna mun betri en fyrir 2-3 árum. „Við sjáum það á útboðum. Niðurstöður útboða sýna að menn eru í kringum kostnaðaráætlun. Það er töluverð breyting frá því sem var. Fjárfesting er komin í hátt í 20% af landsframleiðslu. Þá er meira í gangi. Fjárfestingin fór niður í 13-14% af landsframleiðslu og þá er lítið að gera hjá okkur.“ Tryggvi segir jafnframt í fréttinni að laun verkfræðinga séu að hækka. Hann segir að fyrir 2-3 árum hafi upp undir 30-40% af verkefnum verkfræðinga hér á landi verið erlendis. „Íslenski markaðurinn er góður núna en á móti kemur að við getum varla lengur keppt á alþjóðavettvangi vegna sterkrar stöðu krónunnar. Ef gengið væri veikara værum við meira í erlendum verkefnum. Fyrir þremur árum kostaði norska krónan 23 krónur en nú kostar hún 12,5 krónur. Í dag er það nánast orðið vonlaust að selja vinnu íslenskra verkfræðinga héðan til Noregs.“

Morgunblaðið, 12. maí 2017.