Fréttasafn



15. des. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Nýsköpun

Byggingavettvangurinn skilar tillögum í byrjun árs 2021

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur gert samkomulag við Byggingavettvanginn um útfærslu á tillögum um langtímaáætlun um fyrirkomulag rannsókna, þróunar og nýsköpunar í byggingariðnaði þar sem nú liggur fyrir að leggja á Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Á myndinni hér fyrir ofan eru ráðherra og verkefnastjóri Byggingavettvangsins, Sandra Hlíf Ocares. 

Byggingavettvangurinn er samráðsvettvangur hagaðila í bygginga- og mannvirkjagerð og er SI meðal þeirra. Á vef Stjórnarráðsins er haft eftir ráðherra að næstu ár verði tími breytinga í byggingariðnaði og þörfin á bættum og vel skilgreindum áherslum í nýsköpun, rannsóknum og þróun í greininni hafi því aldrei verið meiri: „Tækifærin eru fjölmörg og iðnaðurinn, opinberir aðilar og menntakerfið eiga að grípa þau með auknum áherslum á að efla frjóa hugsun og tækifæri sem liggja í tækninýjungum, sjálfvirknivæðingu og þróun efna.“ 

Í tillögum að langtímaaðgerðaáætlun sem skila á í byrjun árs 2021 á Byggingarvettvangurinn að koma fram með skýra sýn á eftirfarandi þætti:

  • Hvernig tryggja megi fjármagn til málaflokksins í samræmi við mikilvægi hans og stærð.
  • Hvernig byggja megi upp þekkingu og færni með því að virkja rannsóknir og nýsköpun í atvinnulífi, innan skólakerfisins og hjá hinu opinbera.
  • Skilvirk og markviss samskipti einkafyrirtækja og þeirra opinberu aðila sem koma að mannvirkja- og byggingargerð.
  • Miðlun reynslu og þekkingar á skilvirkan hátt bæði til og frá byggingargeiranum, en líka milli aðila innan hans.
  • Skýrar áherslur á þróun grænna og tæknilegra lausna til að mæta þörfum framtíðarinnar.
Stjórnarráðið, 15. desember 2020.

Fréttablaðið, 16. desember 2020.