Fréttasafn7. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Fjölga þarf sendiherrum Íslands sem stuðla að góðu orðspori

„Ímynd landa skapar í rauninni virði fyrir vörur og þjónustu sem þaðan koma. Ef lönd hafa jákvæða ímynd þýðir það að vörur og þjónusta þaðan er verðmætari,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Markaðnum sem fylgdi Fréttablaðinu í gær. Hann nefnir þekkt dæmi eins og framleiðslu armbandsúra í Sviss, bíla í Þýskalandi og víngerð í Frakklandi. „Vörur fá aukið virði fyrir að vera framleiddar þar. Fólk tengir þær við ákveðin gæði og sérstöðu. Það er einnig þannig að framleiðslan sjálf styður við ímyndina. Ef vörur frá viðkomandi landi eru þekktar fyrir gæði batnar ímynd landsins og það verður eftirsóknarverðara. Stærsta tækifæri Íslands liggur í því að finna þessi einkenni okkar og sérstöðu og gera meira úr þeim. Það eykur virði þess sem við gerum og hefur þannig jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna þar sem landið verður eftirsóknarverðara út frá ákveðnum einkennum eða sérstöðu,“ segir hann í viðtalinu og bendir á að ímynd Íslands geti aukið virði þeirra vara sem hér eru framleiddar en að framleiðslan geti einnig stutt við jákvæða ímynd landsins. Hvaðan vörur koma skipti máli enda taki verðlagning oft mið af uppruna vöru eða þjónustu.

Sendiherrar sem stuðla að góðu orðspori þjóðar

Sigurður segir að lönd geti haft áhrif á heiminn á tvenna vegu. „Annars vegar með formlegu valdi, til dæmis í gegnum alþjóðasamninga. En svo er einnig mjúka valdið eða menningaráhrif sem snýst um vörur eða þjónustu, menningu, hreinleika, ímynd lands og annað. Þannig verða til „sendiherrar“ sem stuðla að góðu orðspori þjóða. Þýskaland hefur verið tengt við iðnaðarframleiðslu, styrk og gæði.“ Hann nefnir
sem dæmi Þýskaland sem þekkt er fyrir heimilistæki sem endast þannig að þýskir „sendiherrar“ eru á fjölmörgum heimilum víða um heim og bera Þýskalandi gott vitni, Bretland er tengt við handverk eins og handgerða leðurskó og Ísland er tengt við Björk. „Sérstaða hennar er jú sköpunargáfa fyrst og fremst. Það gæti verið okkar sérstaða, hugvitið og sköpunargáfan, enda verður vöxtur 21. aldarinnar drifinn áfram af hugviti rétt eins og vöxtur 20. aldarinnar var drifinn áfram af hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda. Þar höfum við búið til ákveðna sérstöðu í flottum fyrirtækjum sem hafa náð árangri líkt og Marel, Össur og CCP sem byggja á sköpunargáfu og hugviti. Okkar tækifæri liggja þar og í hönnuninni sem er að ryðja sér meira og meira til rúms og vægi hennar í að auka virði vara er alltaf að aukast. Eitt frægasta dæmið er Apple en það er ekkert merkilegra við símana þeirra en að þeir eru vel hannaðir sem gerir þá verðmætari. Mikil sóknarfæri felast í því að fjölga okkar „sendiherrum“.“ segir hann.

Þarf að verða vitundarvakning um þau gæði og sérstöðu sem einkenna Ísland

Í viðtalinu segir Sigurður að ólíkir aðilar þurfi að taka höndum saman, kortleggja þessi einkenni okkar, ræða þau gæði og sérstöðu sem við búum yfir og hvar við eigum að sækja fram. „Þegar það liggur fyrir þarf að verða vitundarvakning þannig að við sem einstaklingar, atvinnulíf og hið opinbera áttum okkur á þessum gæðum og sérstöðu. Með vali getur hið opinbera stutt við þessi einkenni þannig að ímynd landsins batni sem þýðir að verðmæti framleiðslu og þjónustu eykst sem hefur jákvæð áhrif á útflutningsgreinar eins og ferðaþjónustu og sjávarútveg og þar með þau lífsgæði sem samfélagið getur staðið undir. Þess vegna ætti þetta að verða eitt stærsta verkefni stjórnvalda og atvinnulífs á komandi misserum.“

Hægt er að lesa viðtalið við Sigurð í heild sinni á Vísi.is