Fréttasafn14. jún. 2019 Almennar fréttir Menntun

Flestar umsóknir í HR eru í tölvunarfræði

Um 10% fjölgun er á umsóknum milli ára í nám í Háskólanum í Reykjavík en ríflega 3.300 umsóknir hafa borist. Flestar umsóknir bárust um grunnnám í tölvunarfræði, eða 450 talsins.

Í fréttatilkynningu frá skólanum segir að reiknað sé með að um 1.500 nemendur hefji nám við háskólann í haust og að enn sé opið fyrir umsóknir um nám í Háskólagrunni HR, iðn- og tæknifræðideild og einstakar brautir í meistaranámi.

Nær 40% fjölgun hefur orðið á umsóknum um diplómanám í iðnfræði, þó umsóknarfrestur um það sé ekki liðinn, en háskólinn hefur unnið að því að vekja sérstaka athygli á möguleikum á háskólanámi eftir iðnnám. Um 30% fjölgun varð á umsóknum um grunnnám í verkfræðideild háskólans og munar þar mestu um umsóknir um nýtt nám sem veitir MSc gráðu í verkfræði og BSc gráðu í tölvunarfræði, en 46 umsóknir bárust um það. Um 20% fjölgun varð einnig á umsóknum um grunnnám í sálfræði, en um það sækja nú 190 nemendur.

Tæplega 1.200 umsóknir bárust um meistaranám og er það 13% fjölgun frá árinu áður og 30% fjölgun frá árinu 2017. Flestar umsóknir, 132, bárust um nám í klínískri sálfræði og fjölgar þeim um 13% á milli ára. 246 umsóknir bárust um fjórar námsbrautir Íslenska orkuháskólans, samanborið við 160 árið áður. Mikil fjölgun varð í erlendum umsóknum um meistaranám í viðskiptadeild, þar með talið MBA, meistaranám í máltækni og byggingarverkfræði. Mikil fjölgun hefur einnig orðið í umsóknum um doktorsnám við háskólann.