Fyrsti hópurinn útskrifast úr Lyfjagerðarskóla Actavis
Útskrift frá Lyfjagerðarskóla Actavis og Framvegis – miðstöðvar símenntunar fór fram við hátíðlega athöfn á dögunum þegar 14 nemendur útskrifuðust en þetta er fyrsti hópurinn sem útskrifast frá skólanum.
Lyfjagerðarskólinn hóf göngu sína síðastliðið haust en um er að ræða 260 klukkustunda hagnýtt nám í lyfjagerð. Námið, sem er nýtt í framhaldsfræðslu á Íslandi, er vottað af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en Framvegis – miðstöð símenntunar og Actavis stýrðu hönnun námsins. Þá var Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ráðgefandi við námskrárgerðina.
Markmið námsins er að auka færni starfsfólks sem hefur litla formlega menntun að baki og gera því kleift að þróast í starfi sem og greiða fyrir aðgangi þess að frekara námi í samræmi við lög um framhaldsfræðslu. Tilgangur námsins er einnig að auka verðmætasköpun, auka öryggi við vinnu, sem og starfsánægju starfsfólks.
Námið byggir á almennum hluta, sérhæfðum hluta og lokaverkefni. Í almenna hlutanum leggja nemendur stund á íslensku, ensku, stærðfræði, tölvu- og upplýsingatækni, námstækni og sjálfstyrkingu. Í sérhæfða hlutanum læra nemendur allt um lyf, frá þróun þess og þar til það er komið á markað. Þar er lögð áhersla á lyfjaframleiðslu, gæðakröfur og gæðastjórnun sem og öryggis-, heilsu- og umhverfismál. Lokaverkefni nemenda voru flest hagnýt umbóta- og þróunarverkefnum sem sum hafa nú þegar komist í framkvæmd innan Actavis.
Við athöfnina lýstu stjórnendur og nemendur mikilli ánægju með námið og er undirbúningur fyrir næsta skólaár þegar hafinn. Nemendur voru sammála um að hafa sótt um nám í skólanum til að fara út fyrir þægindarammann og skora á sjálfa sig. Tvö lokaverkefni voru verðlaunuð við útskriftarathöfnina. Svala Júlía Ólafsdóttir fékk verðlaun fyrir lokaverkefni sitt sem snýr að því koma upp þvottahúsi innan Actavis. Júlíus Hólm Jónsson og Pálmi Snær Magnússon fengu verðlaun fyrir verkefni um skiptatíma í töfluslætti.
Tryggvi Þorvaldsson, sviðsstjóri framleiðslusviðs Actavis ehf., hefur yfirumsjón með faglegu starfi skólans en auk hans koma tæplega 20 starfsmenn Actavis að kennslu við skólann.