Fréttasafn



23. jún. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Gera þarf skriflegan og skýran verksamning

Í nýjasta tölublaði Neytendablaðsins sem Neytendasamtökin gefa út er rætt við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðstjóra mannvirkjasviðs SI, sem segir að í nær öllum málum þar sem ágreiningur kemur upp í verklegum framkvæmdum hafi ekki legið fyrir verksamningur né verklýsing. „Til að fyrirbyggja misskilning og ágreining er mikilvægt að það liggi skýrt fyrir hvað verið sé að biðja um. Því miður kemur allt of oft til ágreinings í verkum vegna skorts á verklýsingum. Oft kemur einfaldlega upp ágreiningur um það hvað átti að framkvæma og fyrir hvaða verð.“ Jóhanna segir að til sé mjög einföld leið til að koma í veg fyrir slíkt og það sé að gera skriflegan og skýran verksamning þar sem fram koma upplýsingar um ábyrgðarmenn hvors samningsaðila og tilvísun í verklýsingu og magnskrá viðkomandi verks. Einnig ætti að koma fram hver er eftirlitsaðili verkkaupa, heildarsamningsupphæð fyrir verkið, greiðslufyrirkomulag, verktími og önnur mál sem verkkaupi eða verksali vilja bæta við. Hún hvetur fólk til að fá fagmenn í verkið. „Iðnmenntun er langt nám og með því að ganga úr skugga um að viðkomandi verktaki sé menntaður iðnaðarmaður eru betri líkur á gæðum og traustum vinnubrögðum. Þá er rétt að hvetja fólk til að taka ekki þátt í svartri atvinnustarfsemi og minna á að hægt er að fá 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu iðnaðarmanna á verkstað við hin ýmsu viðhaldsverkefni og nýframkvæmdir. Fáðu nótu frá verktaka og sæktu svo um endurgreiðslu. Nótan er líka sönnun fyrir greiðslu verkefnis ef eitthvað kemur upp á seinna.“

Auðvelda neytendum að finna meistara í verk

Í blaðinu er jafnframt sagt frá vefnum meistarinn.is sem auðveldar neytendum að finna meistara í viðkomandi verk með því að leita í félagatali Samtaka iðnaðarins. Þar gefst kostur á að velja landshluta og þá iðngrein sem þarf í viðkomandi verk. Með þessum hætti sé hægt að nálgast auðveldlega allar helstu upplýsingar um viðkomandi iðnaðarmann til að hafa samband og óska eftir tilboði. Á vefnum sé einnig að finna greinargóðar upplýsingar og ráðleggingar til handa neytendum er hyggjast fara í framkvæmdir. Hægt sé að nálgast sýnishorn af verksamningum fyrir minni og stærri verk sem og fyrir aukaverk. Þar megi einnig finna gátlista sem vert er að kynna sér, segir í Neytendablaðinu.

Neytendabladid-juni-2020-2-