Fréttasafn



22. mar. 2018 Almennar fréttir

Hægt að lengja líftíma raftækja með lítilsháttar viðgerðum

Í rannsókn sem gerð hefur verið kom í ljós að fjórðungur raftækja sem var ætlað að farga var í góðu lagi og vel nothæfur en með betri meðferð úrgangsins mætti hækka þetta hlutfall enn frekar. Þetta kom meðal annars fram í máli Keshav Parajuly, nýdoktor í umhverfisverkfræði við háskólann í Suður Jótlandi, en hann hélt í vikunni erindi um lífsferil raftækja. Fundurinn var í boði Verkís og Samtaka iðnaðarins. 

Keshav hefur skoðað leiðir til að styrkja hringrás raftækja, þannig að þau endi í ekki í almennum úrgangi. Rannsóknir hans á lífsferli raftækja sýna að umhverfisáhrifin eru mest við námuvinnslu málma og við endurvinnslu. Einnig geta fylgt neikvæð heilsufars- og félagsleg áhrif ef aðstæður við vinnsluna eru slæmar.  Verðmæti málma í raftækjum eru umtalsverð en erfitt getur að verið að ná málmum eins og gulli úr tækjunum vegna samsetningar þeirra. Hann hvetur til þess að við hönnun tækjanna sé hugað að því að auðvelt sé að taka hluti í sundur til að ná góðum efnisstraumum í endurvinnslu.

Fjöldi raftækja á heimilum eykst og þegar ný tækni kemur til eru þau fljót að ná útbreiðslu. Vandinn er vaxandi og Keshav telur að hugarfarsbreytingu þurfi til. Hann hefur skoðað leiðir til að lengja líftíma raftækja til að minnka magnið sem fer í umferð. 

Eitt af þeim verkefnum sem Keshav hefur sett af stað eru endurvinnslukaffi en þá getur fólk komið með hluti sem þarf að laga og á staðnum er fólk sem aðstoðar við það. Viðgerðirnar einskorðast ekki við raftæki en líka er gert við fatnað, hjól, húsgögn og aðra hluti sem má nýta lengur með lítilsháttar viðgerð.  

Verkis-1

Verkis-4