Fréttasafn



30. apr. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Heimsókn í Algalíf

Fulltrúum Samtaka iðnaðarins var boðið í heimsókn til Algalíf síðastliðinn föstudag ásamt fulltrúum SA og alþingismönnum kjördæmisins.. Boðið var upp á skoðunarferð um fyrirtækið í fylgd starfsmanna og starfsemi fyrirtækisins kynnt. Meðal annars var farið yfir þróunarverkefni og stuðningsumhverfi, stöðug þörungaiðnaðar á Íslandi og í heiminum.

Algalíf sem var stofnað síðla árs 2013 er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á örþörungum en örþörungavinnsla er ný en ört vaxandi atvinnugrein í heiminum. Algalíf hefur til þessa sérhæft sig í ræktun örþörunga sem nefnast Haematococcus Pluvialis en úr þeim er unnið virka efnið astaxanthin sem er vinsælt fæðubótarefni. Algalíf hefur selt astaxanthin í heild- og smásölu síðan 2014. Fyrirtækið hefur náð miklum árangri í framleiðni hvort sem borinn er saman tími, hlutfall virka efnisins í þörungnum eða rúmmál kerfanna. Þessi árangur er bein afleiðing fjárfestingar og vinnu starfsmanna við þróun á nýjum ræktunarkerfum þar sem notuð er LED lýsing. Breytingar á ræktunarkerfnu skilaði 50% lægri rafmagnskostnaði og framleiðni jókst um 400%. Styrkur Algalíf liggur þannig í hönnun ræktunarkerfa, mikilli framleiðni og gæðum vöru. Hjá Algalíf starfa 35 manns. Helmingur starfanna hjá Algalíf eru hátæknistörf og helmingur framleiðslustörf. Langtímasýn fyrirtækisins er að einbeita sér áfram að ræktun örþörunga og framleiðslu á astaxanthin og öðrum verðmætum efnasamböndum. Tvö önnur efni hafa verið valin og stendur þróunarvinna nú yfir.

Á myndinni hér fyrir ofan er Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, Orri Björnsson, forstjóri Algalíf, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. 

Myndirnar hér fyrir neðan eru frá heimsókninni.

Algalif_03

Algalif_06

Algalif_07

Algalif_09