Fréttasafn29. maí 2018 Almennar fréttir

Heimsókn í Kerecis á Ísafirði

Stjórn SI heimsótti í dag lækningavörufyrirtækið Kerecis sem hefur þróað byltingakennda vöru til meðhöndlunar á sárum og vefjaskaða. Dóra Hlín Gísladóttir hjá Kerecis tók á móti hópnum og sagði þeim frá sögu fyrirtækisins og starfsemi. 

Vara Kerecis er Omega3-ríkt þorskroð sem fellur til við roðflettingu á þorskflökum. Við notkun er roðbúturinn lagður í vefjaskaða á líkamanum eða sár og vaxa þá heilbrigðar frumur líkamans inn í efnið. Frumurnar hefja þar uppbyggingu á nýjum líkamsvef á meðan sáraroðið brotnar hægt niður. Vörur fyrirtækisins eru seldar í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu og eru meira en 300 sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir sem kaupa vörur félagsins reglulega. Fyrirtækið á einnig í samstarfi við bandarísk varnarmálayfirvöld þar sem verið er að þróa sérstaka útgáfu af sáraroðinu sem hentar til meðhöndlunar á áverkasárum á vígvelli. Kerecis rekur auk starfsstöðvarinnar á Ísafirði þar sem framleiðslan fer fram, læknisfræðilegar rannsóknir í Reykjavík og skrifstofu á Washington D.C. svæðinu í Bandaríkjunum þaðan sem sölu- og markaðsstarfi er stýrt.

Þess má geta að Kerecis hlaut fyrir skömmu viðurkenningu úr Verðlaunasjóði iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf auk þess sem fyrirtækið var valið Vaxtarsproti ársins á síðasta ári. 

Kerecis1

Kerecis2Dóra Hlín Gísladóttir hjá Kerecis tók á móti hópnum og sagði þeim frá sögu fyrirtækisins og starfsemi.