Fréttasafn



19. des. 2017 Almennar fréttir

Heimsókn í Össur

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hitti Svein Sölvason, fjármálastjóra, og Egil Jónsson, framkvæmdastjóra framleiðslu, í heimsókn sinni til Össurar í dag og fræddist um starfsemi félagsins. 

Össur var stofnað árið 1971 en hefur með tímanum þróast yfir í alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi víða um heim sem er í farabroddi með háþróaðar lausnir í heilbrigðistækni. Rannsóknir og þróun eru mikilvægur hluti af starfsemi fyrirtækisins. Afrakstur þessara rannsókna eru meðal annars gervifætur sem skynja hugsanir og hreyfast eftir skilaboðum frá heilanum. Á starfsstöð fyrirtækisins í Reykjavík er eitt stærsta og fullkomnasta renniverkstæði landsins þar sem vörur félagsins, stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur eru framleiddar. Samspil hugverks og handverks verður því mjög sýnilegt í starfseminni og augljóst hvernig iðnmenntun heldur gildi sínu þrátt fyrir tækniframfarir. 

Rætt var um mikilvægi þess að starfsumhverfi nýsköpunar hér á landi sé samkeppnishæft við það sem gengur og gerist erlendis. Stærsta málið þar er afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Slíkt mun styrkja fjórðu stoðina svokölluðu, hið hugverkadrifna hagkerfi, betur í sessi og um leið þá verðmætasköpun sem þarf til þess að bæta lífskjör enn frekar hér á landi.