Fréttasafn4. feb. 2019 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Innviðagjald mögulega ólögmæt gjaldtaka

Innviðagjald Reykjavíkurborgar er aftur komið í umræðuna en Samtök iðnaðarins fengu lögmannsstofuna LEX til að veita álit á lögmæti innviðagjalda fyrir tveimur árum síðan. Í minnisblaði um málið segir meðal annars að það sé mat LEX að færa megi nokkuð sterk rök að því að gjaldtakan sé ólögmæt. Við slíkar aðstæður gætu lóðarhafar krafist endurgreiðslu innviðagjaldsins á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

LEX telur að innviðagjaldið sé, a.m.k. að stórum hluta, almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standa nú þegar til boða á grundvelli laga. Þótt hluti innviðagjaldsins geti mögulega verið lögmætur, þ.e. í þeim tilvikum þar sem fjármögnuð eru verkefni sem hvorki heyra til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins né til verkefna sem eru þegar fjármögnuð með mörkuðum tekjustofnum, virðist gjaldið vera innheimt í einu lagi og án þess að fjárhæðin sé sundurliðuð til tiltekinna verkefna. Þá segir að innviðagjaldið sé hvorki skattur né þjónustugjald í skilningi laga og þar sem gjaldtakan á sér ekki lagastoð megi færa nokkuð sterk rök að því að gjaldtakan sé ólögmæt.

Hér er hægt að nálgast minnisblaðið.