Fréttasafn6. nóv. 2020 Almennar fréttir Framleiðsla Samtök skipaiðnaðarins Starfsumhverfi

Íþyngjandi ákvæði um stjórnvaldssektir í skipalögum

Í umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka skipaiðnaðarins um frumvarp til skipalaga, 208. mál, sem send hefur verið til umhverfis- og samgöngunefndar tiltaka samtökin nokkrar athugasemdir við frumvarpið. Gerð er athugasemd við mat á áhrifum frumvarpsins og segir í umsögninni að þrátt fyrir að meginefni frumvarpsins snúi að einföldun löggjafarinnar þá séu í frumvarpsdrögunum íþyngjandi ákvæði, t.d. um álagningu stjórnvaldssekta, sem ætla megi að hafi töluverð áhrif. Samtökin leggja áherslu á að gæta þurfi að því að ganga ekki lengra en þörf er á við álagningu stjórnvaldssekta auk þess að rökstyðja þurfi fjárhæðir stjórnvaldssekta í frumvarpinu.

Einnig kemur fram í umsögninni að samtökin fagni því að í fyrirliggjandi frumvarpi sé lögð aukin áhersla á rafræna stjórnsýslu en telja að öðru leyti óljóst hvaða verklag Samgöngustofu leiði til breytinga á núgildandi regluverki. Þá segir í umsögninni að áður hafi samtökin bent á að þau teldu ekki rökrétt að tveir aðilar kæmu að upphafsskoðun skipa enda leiði það til þess að framleiðendur þurfi að greiða tvöfalt skoðunargjald og fagna samtökin því að kalla eigi eftir samráði. 

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.