Fréttasafn



31. okt. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Kerecis fær nýsköpunarverðlaun

Fyrirtækið  Kerecis  sem er aðildarfyrirtæki Samtaka iðnaðarins hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi á Grand Hótel Reykjavík í gær. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóra Kericis, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Verðlaunin eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. 

Á vef Rannís er rökstuðningur dómnefndar birtur: Kerecis hefur leitt öflugt nýsköpunarstarf sem tengir saman nýja notkunarmöguleika á sjávarafurðum í heilbrigðistækni. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við lækna, fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarið hefur fyrirtækið náð góðum árangri á markaði vegna sérstöðu afurða fyrirtækisins, enda hefur Kerecis einkaleyfavarið tækni sína í yfir 50 löndum. Fyrirtækið hefur fengið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum og árið 2017 hlaut fyrirtækið Vaxtarsprota ársins, sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi. Samhliða aukinni markaðssetningu hefur störfum hjá fyrirtækinu fjölgað hratt og þar starfa núna yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu. Það er mat dómnefndar að Kerecis hafi þróað framúrskarandi afurð sem hafi alla burði til að ná árangri á markaði á næstu árum og sé vel að verðlaununum komið.

Þess má geta að fyrirtækið Kerecis var valið  Vaxtarsproti ársins 2017.