Fréttasafn



3. jan. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Kjörið tækifæri til innviðafjárfestinga

Í fréttum RÚV á milli jóla og nýárs var rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem segir að ekki sé tilefni til mikillar bjartsýni og samdráttar sé farið að gæta víða og því sé kjörið tækifæri til innviðafjárfestinga. 

Í fréttinni er farið yfir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans en vextir voru fjögur og hálft prósent í byrjun árs en séu nú þrjú prósent og peningastefnunefnd hafi talið rétt að staldra við og sjá hver áhrif lækkunar ársins yrði á hagkerfið því mikið hafi hægt á hagvexti á seinni hluta ársins og hann verði líklega milli 1 og 2% sem er hægur vöxtur sögulega séð. Þá segir fréttamaðurinn að þrátt fyrir það séu stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja landsins bjartsýnni á stöðuna nú en fyrir ári. Tæpur þriðjungur taldi stöðu efnahagslífsins góða og rúmlega helmingur hvorki góða né slæma í nýrri könnun Gallups. Þá kemur fram að samdráttar gætir víða til dæmis í byggingageiranum en ágætis mælikvarði á hann sé svokölluð kranavísitala sem Vinnueftirlitið taki saman. Í ár hafi 284 kranar verið skoðaðir, samanborið við 385 í fyrra sem hafi verið metár. Ingólfur segir að samdráttar sé að verða vart í byggingageiranum. „Hann er að koma fram núna má segja. Þetta er grein sem er aðeins á eftir í hagsveiflunni, það tekur tíma fyrir samdráttinn að koma fram þar. En við erum að sjá niðursveifluna aðeins myndast þar núna, sérstaklega kannski í atvinnuvegafjárfestingum en síðan líka í íbúðafjárfestingum, sérstaklega þá á fyrstu byggingarstigum, þar erum við að sjá einkenni mikils samdráttar.“

Í fréttinni segir Ingólfur að nú sé tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög til innviðafjárfestinga, bæði til að lyfta hagvextinum og nýta það lága vaxtarstig sem nú sé því það gangi hægt í þeim atvinnugreinum sem skapi mestar gjaldeyristekjur, sérstaklega ferðaþjónustu og sjávarútvegi. „Það er náttúrulega áhyggjuefni því til lengri tíma litið þá erum við ekki að keyra hagvöxt hér á einkaneyslu einni saman. Við þurfum vöxt í gjaldeyrisskapandi greinum og það er þá áskorun að skapa grundvöll fyrir það í sterkri samkeppnisstöðu.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á fréttina í heild sinni, 26. desember 2019.