Meistarafélag Suðurlands fundar í Hveragerði
Meistarafélag Suðurlands, MFS, hélt jólafund sinn í Skyrgerðinni í Hveragerði í gær. Góðir gestir voru á fundinum en það voru Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, og Jón Friðrik Matthíasson, bygginga- og mannvirkjafulltrúi Hveragerðis.
Fundurinn hófst á því að Valdimar Bjarnason, formaður MFS, kynnti hvað félagið stendur fyrir og hvað áunnist hefur síðustu misseri. Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði SI, var með kynningu á efnahagshorfum í mannvirkjageiranum og kynnti talningu íbúða í byggingu sem Samtök iðnaðarins standa fyrir tvisvar á ári. Þá kynntu Aldís og Jón Friðrik gildandi skipulag sveitarfélagsins og hugmyndir að deiliskipulagi sem er í vinnslu, bæði fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði.
Á árinu hefur MFS staðið fyrir fundum á Selfossi, Hvolsvelli, Þorlákshöfn og nú í Hveragerði.
Jón Friðrik Matthíasson, bygginga- og mannvirkjafulltrúi Hveragerðis.