Fréttasafn19. des. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Mikil gróska í íslenskum tölvuleikjaiðnaði

Skýrslan er ákveðin staðfesting á gróskunni sem hefur verið í greininni síðustu ár. Hún sýnir okkur að við erum með öflug fyrirtæki og mörg járn í eldinum. Þar af eru fjölmörg þeirra komin með styrki eða fjárfestingu og mörg hver með mjög sterka alþjóðlega fjármögnun frá aðilum á borð við Tencent og Index Ventures. Þetta sýnir okkur að við erum að koma að tímabili núna þar sem við gætum farið að sjá iðnaðinn fara upp á næsta þrep. Þetta segir Vignir Örn Guðmundsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda, í viðtali í Viðskiptablaðinu um nýja skýrslu um íslenska tölvuleikjaiðnaðinn sem gefin hefur verið út í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu og unnin af Northstack. Hann segir jafnframt að á sama tíma þurfi að styðja við þessi fyrirtæki og auka líkur á árangri með því að bæta rekstrarumhverfi þeirra, auðvelda þeim að sækja öflugan mannauð og fjölga leiðum þar sem fyrirtækin geta sótt sér fjármagn.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að tölvuleikjaiðnaður á Íslandi hefur velt yfir 100 milljörðum króna á síðustu 10 árum en í dag eru 17 fyrirtæki starfandi í greininni þar sem CCP er þar langstærst. Í skýrslunni er að finna yfirgripsmikla úttekt á stöðu og þróun tölvuleikjaiðnaðarins á síðustu 10 árum. Á árunum 2009 til 2016 tvöfaldaðist velta í greininni í um 14,5 milljarða á ári. Árið 2017 störfuðu yfir 400 manns við tölvuleikjagerð en eftir að Quiz Up og Novomatic hættu starfsemi hefur starfsmannafjöldinn farið niður í um 345 á þessu ári og veltan í um 10 milljarða. Frá árinu 2009 hafa íslensk leikjafyrirtæki gefið út 83 leiki sem þýðir að nýr leikur hefur komið út á um eins og hálfsmánaða fresti. Þá skilar nær öll velta geirans sér í gjaldeyristekjum en um 95% af tekjum fyrirtækjanna eru í erlendri mynt. 

Hér er hægt að nálgast skýrsluna. 

IGI-forsida-skyrsla

Vidskiptabladid
Viðskiptablaðið, 19. desember 2019.

vb.is , 21. desember 2019.

vb.is, 22. desember 2019.