Fréttasafn



28. jan. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mikil hækkun fasteignaskatta á fyrirtæki

Í helgarútgáfu Morgunblaðsins er sagt frá greiningu Samtaka iðnaðarins á fasteignasköttum þar sem kemur fram að áætlaðir álagðir fasteignaskattar á fyrirtæki hafi tvöfaldast, farið úr 12,6 milljörðum króna árið 2011 í 26 milljarða króna í ár. Það sé 60% hækkun skatta umfram verðbólgu á tímabilinu. Þá segir jafnframt að milli áranna 2018 og 2019 sé hækkunin 13,5%. 

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir þessar tölur sýna að sveitarfélögin, sem eru öll í eða við hámarksskatthlutfallið, seilist dýpra og dýpra í vasa atvinnulífsins. „Þetta er gríðarleg aukning á stuttum tíma. Skattar á fyrirtæki eru háir hér í samanburði við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Þessir fasteignaskattar eru birtingarmynd þess og ekki hægt að bjóða fyrirtækjum upp á þetta til viðbótar við sveiflur, óstöðugleika og miklar innlendar kostnaðarhækkanir. Þá eru laun há hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Nú þegar hægir verulega á hagvextinum dregur úr tekjum margra fyrirtækja en á sama tíma eru sveitarfélögin að taka sífellt meira til sín eins og við sjáum í væntri álagningu fyrir 2019. Þá má heldur ekki gleyma því að sveitarfélögin eru að fá þetta til viðbótar við útsvarið frá starfsmönnum fyrirtækja.“ 

Reykjavík með 51% allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði

Þá segir í fréttinni að samkvæmt útreikningum SI hækki fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði mest í Reykjavík milli ára 2018 og 2019, eða um tæp 17%. Næst koma Seltjarnarnes og Akranes en þar er hækkunin rúm 15%. Sex sveitarfélög hafi lagt á yfir milljarð í fasteignaskatta í fyrra. Þau leggi ríflega 72% allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í landinu. Stærst sé Reykjavík með ríflega 18 milljarða í álagða fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, sem sé 51% allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í landinu.

Morgunblaðið, 26. janúar 2019.