Fréttasafn24. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Mikill áhugi á gæðastjórnun í byggingariðnaði

Fyrsti fundur í fundaröð Mannvirkjaráðs SI og IÐUNNAR fræðsluseturs um gæðastjórnun í byggingariðnaði sem haldinn var í húsakynnum IÐUNNAR í morgun var vel sóttur. Yfirskrift fundarins var „Hvers vegna gæðastjórnunarkerfi – hver er ávinningurinn?“. Á fundinum héldu erindi Jón M. Guðmundsson, fagstjóri bygginga hjá Mannvirkjastofnun, Guðrún Ólafsdóttir, gæðastjóri VHE og Eyjólfur Bjarnason, gæðastjóri framkvæmdafélagsins Arnarhvols.

Jón talaði m.a. um lög og reglugerðir sem gilda um gæðastjórnun í byggingariðnaði, þ.e. um gæðastjórnunarkerfi hönnuða og hönnunarstjóra, byggingarstjóra og iðnmeistara. Þá ræddi hann um helstu áskoranir Mannvirkjastofnunar í þessum efnum, annars vegar skráning gæðastjórnunarkerfa og hins vegar virkniskoðanir gæðastjórnunarkerfa. Að lokum sagði Jón frá rafrænu byggingargáttinni sem tekur gildi næstu áramót.

Guðrún fór yfir hvernig VHE byggir upp sitt gæðastjórnunarkerfi og hvernig því er miðlað til starfsfólks. Hún ræddi einnig um hvers vegna þarf gæðastjórnunarkerfi og ávinninginn af því að hafa virkt gæðastjórnunarkerfi. Hún ræddi m.a. um mikilvægi þess að mæta kröfum viðskiptavina/verkkaupa og ábyrgð stjórnenda. Þá fór hún yfir ávinninginn af því að hafa gæðastjórnunarkerfi sem hún sagði m.a. fólginn í samræmdu verklagi, að lágmarka mistök og þ.a.l. kostnað, og að tryggja fagmennsku.

Eyjólfur sagði frá því að hægt er að lækka framkvæmdakostnað með góðum undirbúningi. Hann ræddi um þörfina fyrir að sinna góðum undirbúningi með gæðastjórnun, gera áætlanir fyrir það verk sem á að vinna og nýta reynslu frá fyrri verkum inn í slíka áætlanagerð. Eyjólfur sagði að hægt væri að hagræða, finna góðar lausnir, velja rétt efni og skila betra verki og lágmarka hættu á göllum með virku gæðastjórnunarkerfi. Hann sagði skort vera á virkniskoðunum gæðastjórnunarkerfa en mikilvægt væri að bæta þar úr. Góð stjórnun borgar sig bæði fyrir framkvæmdaraðila og viðskiptavini.

Í lokin voru umræður og fyrirspurnir úr sal.

Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum:

https://www.youtube.com/watch?v=x-w3pAozR3c


IMG_4217Fundarstjóri var Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNNAR fræðsluseturs.

IMG_4223Jón M. Guðmundsson, fagstjóri bygginga hjá Mannvirkjastofnun.

IMG_4224Guðrún Ólafsdóttir, gæðastjóri VHE.

IMG_4232Eyjólfur Bjarnason, gæðastjóri framkvæmdafélagsins Arnarhvols.