Fréttasafn



  • Gulleggið 2010

13. apr. 2010

Remake Electric hlaut Gulleggið 2010

Fyrirtækið Remake Electric hlaut frumkvöðlaverðlaun Innovit, Gulleggið, fyrir tækið Rafskynjarann. Hann gefur hljóðviðvaranir við yfirálag rafmagns sem skapar m.a. möguleika til þess að fyrirbyggja eldsvoða vegna rafmagns.

Stofnendur Remake hlutu milljón króna peningaverðlaun, veglega ráðgjöf frá Innovit og verðlaunagripinn Gulleggið. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti verðlaunin við fjölmenna athöfn á Háskólatorgi.

Alls bárust í keppnina 295 viðskiptahugmyndir, af þeim voru valdar 11 sem kepptu til úrslita.

Í fyrsta sæti varð Remake Electric, í því öðru varð Brand Capital og í þriðja Nude Magazine. Sérstök útflutningsverðlaun í boði Útflutninsráðs hlaut fyrirtækið FaFu.

Verðlaunagripurinn var í ár hannaður af Ásdísi Jörundsdóttur sem er á lokaári í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands.

Remake Electric

Sprotafyrirtækið Remake electrics hefur þróað nýja og byltingarkennda tegund rafskynjara sem stefnt er á heimsmarkað með á næstu misserum. Hugmyndin varðar nýja kynslóð rafmagnsöryggja sem nefnist Rafskynjari og hefur rauntíma vísun í stöðu rafmagnsálags ásamt hljóðviðvörun vegna yfirálags. Þessar upplýsingar gera notendum kleift að skilja, stjórna og hagræða rafmagnsnotkun sinni til að auka öryggi í rekstri, bæta framleiðni rafmagns og skapa sparnað með rafmagnsnotkun. Rafskynjarinn sýnir upplýsingar með lituðum ljósadíóðum og gefur hljóðviðvaranir við yfirálag rafmagns sem skapar möguleika til þess að fyrirbyggja eldsvoða vegna rafmagns, bilanir og skemmdir í raftækjum. Rafskynjarinn getur einnig sent upplýsingar með þráðlausum boðum og tengst tölvukerfum, hússtjórnunarkerfum og brunavarnarkerfum. 

Brand Capital

Brand Capital er íslenskur hugbúnaður sem er framleiddur af fyrirtækinu Transmit ehf. Hugbúnaðurinn er ætlaður til umsjónar á vörumerkjum og ímynd fyrirtækja og er aðgangur að honum seldur í áskrift. Brand Capital býður viðskiptavinum að samræma útfærslu á markaðsherferðum, auka gagnsæi við notkun markaðstengdra gagna og að auka hægræði og snerpu við útfærslu markaðsherferða.

Nude Magazine

Nude magazine er nettímarit um tísku  – hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Það mun koma út mánaðarlega á netinu undir nafninu Nude magazine og vera frítt. Tímaritið byggir á framúrskarandi tækni sem býður upp á hljóð- og myndbrot, gagnvirkni og fangar athygli lesandans um leið. Fyrirtækið hefur miklar áætlanir fyrir íslenskan markað; að efla tískuvitund, skapa vettvang fyrir íslenska hönnuði og verslunarfólk og vera almennur gleðigjafi. 

Fafu

Fafu hannar og framleiðir skapandi leikföng fyrir börn. Leikföngin eru framleidd með sanngjörnum hætti og eru umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi við alla hönnun og framleiðslu varanna.