Fréttasafn  • 500 stólar í menningarhúsið HOF

23. apr. 2010

500 íslenskir stólar í HOF menningarhús á Akureyri

Bólsturverk og Zenus bólstrun og Sóló húsgögn hafa nýverið lokið við framleiðslu á 500 fell­anlegum stólum fyrir HOF, nýja menningarhúsið á Akureyri. Framleiðsla og bólstrun stólanna er kærkomið samstarfs­verk­efni fyrir íslenska framleiðendur og bólstrara.

Skapar verðmæti og sparar gjaldeyri

Verkinu lauk núna í apríl og óhætt er að segja að um viða­mikið verkefni hafi verið að ræða, en undirbúningur og vinna hefur tekið um eitt ár. Að verkinu komu í heild 70-80 manns, þ.e. við hönnun, verkfræði, stálsmíði og tréverk, bólstrun, flutninga og uppsetningu. Lætur nærri að verkið jafngildi fjór­um ársverkum.

Loftur Þór Pétursson hjá Bólsturverki segir þýðingu þess að vinna svona verk á Íslandi margvíslega. „Hér er um að ræða alvöru verðmætasköpun sem er gjaldeyrissparandi, auk þess sem hugvit, þekking og reynsla fær útrás. Svo má auðvitað nefna að nýting á tækjum, húsnæði og mannskap verður góð.“

Veljum íslenskt

 Loftur Þór segir vert að hrósa Akureyringum fyrir þá ákvörðun að velja íslenska framleiðslu í menningarhúsið, ekki síst á tímum eins og þeim sem við lifum nú. Stóllinn hafi verið valinn úr hópi 13 annarra, þar sem 11 voru erlend framleiðsla. „Í Tónlistar­húsinu Hörpu verða held ég, um 2500 sambærilegir stólar. Sam­kvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, verða þeir allir keyptir erlendis frá. Við getum spurt okkur, hversu mikinn dýrmætan gjaldeyri hefði verið hægt að spara ef ráðamenn þess húss hefðu tekið skynsamlegri ákvörðun. Erlendis er það meðvituð ákvörðun ráðamanna að kaupa innlend húsgögn í opinberar stofnanir. Þrátt fyrir kreppu og volæði á Íslandi, hefur lítið breyst í hugarfari ráðamanna að þessu leyti. Það er dapurlegt“ segir Loftur.

Stólarnir eru hannaðir af Guðmundi Einarssyni hjá Prologus, íslensku hönnunarhúsi sem sérhæfir sig í hönnun, framleiðslu og sölu á húsgögnum og innanstokksmunum fyrir fyrirtæki og heimili.