Fréttasafn



  • Græna smiðja

27. apr. 2010

ORF Líftækni færir út kvíarnar

Nýsköpunarfyrirtækið ORF Líftækni hyggst í sumar tvöfalda ræktun sína á erfðabreyttu byggi til að anna aukinni eftirspurn eftir afurðum fyrirtækisins. Í sumar mun hluti byggræktunar fyrirtækisins fara fram í 2500 fermetra gróðurhúsi að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði.

Byggið sem ræktað verður í Borgarfirðinum myndar í fræjum sínum verðmætt prótein sem m.a. er ætlað til notkunar í snyrtivörur. Stærstur hluti aukinnar framleiðslu er til að mæta aukinni eftirspurn meðal erlendra viðskiptavina í snyrtivöruiðnaðinum. Samhliða aukinni framleiðslu mun dótturfyrirtæki ORF Líftækni, Sif Cosmetics, einnig á næstu vikum markaðssetja nýja og byltingarkennda húðdropa sem þróaðir hafa verið í samvinnu við fremstu vísindamenn landsins á sviði próteintækni, húðlækna og erlend snyrtivörufyrirtæki. Um er að ræða fyrstu vöru fyrirtækisins fyrir almennan neytendamarkað.

Ræktuninni á Kleppjárnsreykjum fylgja ný störf en auk þess munu aukin umsvif skapa störf við vinnslu próteinsins úr bygginu, markaðssetningu og sölu. Yfir þrjátíu manns starfa nú hjá ORF Líftækni í nýjum höfuðstöðvum fyrirtækisins í Kópavogi og í hátæknigróðurhúsinu Grænu Smiðjunni í Grindavík.

„ORF Líftækni er nú komið á það stig að aukin áhersla er lögð á markaðssetningu og sölu afurða okkar sem eru afrakstur þrotlausra rannsókna síðustu tíu ára. Með aukinni eftirspurn þurfum við að auka framleiðsluna og þetta er skref í þá átt,“ sagði Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF Líftækni. „Markmið okkar er að vaxa hratt á næstu árum, fjölga störfum og afla aukinna útflutningstekna í grænum iðnaði. Til þess reiknum við með að stækka aðstöðu okkar í Grindavík, hefja ræktun í fleiri gróðurhúsum og halda áfram samstarfi við íslenska bændur um akurræktun.“

Umhverfisstofnun hefur veitt ORF Líftækni starfsleyfi fyrir ræktun á erfðabreyttu byggi í gróðurhúsinu á Kleppjárnsreykjum á grundvelli umsagnar sveitarfélagsins Borgarbyggðar og annarra viðeigandi aðila.

ORF Líftækni er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem þróað hefur nýstárlega og örugga aðferð fyrir framleiðslu á sérvirkum próteinum fyrir læknisrannsóknir, lyf og iðnað. Kerfið byggir á því að nýta fræ byggplöntunnar sem smiðju fyrir þessi prótein. Framleiðslan er mun hagkvæmari en hefðbundin framleiðsla í bakteríum eða spendýrafrumum og mikið öryggi felst í að framleiða slík prótein í plöntum sem ekki geta borið sýkingar í menn. Byggið hefur hingað til verið ræktað í Grænu smiðju fyrirtækisins í Grindavík. Tilraunir með ræktun á akri hafa einnig farið fram undanfarin ár í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Meira en þúsund ára reynsla er af því að bygg vex ekki villt á Íslandi, byggplöntur eru sjálffrjóvgandi og æxlast því ekki við aðrar jurtir. Með Orfeus™ kerfinu og markvissri viðskiptanálgun hefur ORF Líftækni skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á þessu sviði í heiminum. ORF Líftækni hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs árið 2008.