Fréttasafn  • Kaffitár fær Svansvottun

25. maí 2010

Kaffitár fær Svansvottun

Kaffitár hefur fengið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra veitti Aðalheiði Héðinsdóttur vottunina við athöfn í ráðhúsinu föstudaginn 14. maí sl.

Strangar kröfur Svansins tryggja að starfsemi og þjónusta átta kaffihúsa Kaffitárs og framleiðslueldhúss Kaffitárs eru í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa. Að sögn Aðalheiðar hefur Kaffitár alla tíð verið mjög umhugað um umhverfismál. „Við erum ákaflega stolt af Svansvottuninni, segja má að Kaffitár hafi verið um árabil í fararbroddi í umhverfismálum hér á landi og er vottunin staðfesting þess árangurs sem hefur náðst.“

Helstu breytingarnar á kaffihúsunum eru í sorpflokkuninni en auk þess verða engar einnota umbúðir notaðar. Götumál verða eingöngu fyrir þá sem taka kaffið með sér og smjör, sulta og hunang er komið í litlar margnota plastskálar. Plastpokanotkun fer minnkandi með hverjum degi, t.d. er expressókaffið flutt frá kaffibrennslu til kaffihúsa í margnota umbúðum í stað plastpoka. Öll hreinsiefni sem notuð eru hafa verið endurskoðuð með tilliti til umhverfisþátta.

Aðalheiður segist líta á það sem samfélagslega ábyrgð að huga að umhverfismálum allt frá baun í bolla. „Svansvottunin er liður í því að draga úr umhverfisáhrifum kaffihúsa okkar og þeirrar þjónustu sem við veitum þar. Sífellt fleiri velja umhverfisvottaða vöru og þjónustu og það eru forréttindi að vera eitt þeirra fyrirtækja sem vinna markvisst í að gera betur í umhverfismálum.“